Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 350. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 543  —  350. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Ingibergsson og Margréti Hauksdóttur frá Fasteignamati ríkisins, Hafstein S. Hafsteinsson frá fjármálaráðuneyti, Sigurð H. Guðjónsson frá Húseigendafélaginu og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga. Nefndinni bárust einnig umsagnir.
    Í frumvarpinu er lagt til að gjaldtaka umsýslugjalds verði framlengd enn um sinn til tveggja ára, eða árin 2007 og 2008.
    Umsýslugjald var tekið upp er brunatryggingar voru gefnar frjálsar árið 1994 og nam gjaldið 0,025‰ (prómillum) af brunabótamati fasteignar. Gjaldið rann til Fasteignamats ríkisins til að standa undir kostnaði við að halda skrá yfir brunabótamat fasteigna. Upphaflega var kveðið á um innheimtu gjaldsins í reglugerð. Athugasemdir voru gerðar við þá tilhögun þar sem gjaldið teldist skattur í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og þótti lagagrundvöllur gjaldsins ekki viðhlítandi í ljósi 2. málsl. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995. Innheimta gjaldsins var því lögfest, sbr. lög nr. 131/1996, um breyting á lögum um brunatryggingar. Vátryggingarfélög innheimta gjaldið samhliða annarri innheimtu félaganna.
    Í frumvarpi til laga um breyting á lögum um brunatryggingar á 125. löggjafaþingi var lagt til að umsýslugjald hækkaði og næmi 0,1‰ (prómilli) af brunabótamati húseignar. Var gjaldinu ætlað að standa undir kostnaði við stofnun Landskrár fasteigna, gagna- og upplýsingakerfis um allar fasteignir á landinu. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerði breytingu á frumvarpinu á þá leið að umsýslugjaldið héldist óbreytt, þ.e. 0,025‰ (prómill), út árið 2000 en hækkaði síðan í 0,1‰ (prómill) á árunum 2001–2004 en skyldi þá falla niður (þskj. 1055 á 125. löggjafarþingi).
    Með lögum nr. 139/2004 var samhljóða ákvæði tekið upp í lög um skráningu og mat fasteigna. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps til þeirra laga kom fram að eðlilegra þætti að ákvæðið væri í þeim lögum en lögum um brunatryggingar þar sem ákvæði um Landskrá fasteigna og Fasteignamat ríkisins og rekstur þess væru í lögum um skráningu og mat fasteigna. Var í frumvarpinu lagt til að innheimta umsýslugjalds yrði framlengd um fjögur ár, þ.e. árin 2005–2008, þar sem enn þá væri talsvert verk óunnið við Landskrána. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerði breytingu á frumvarpinu í þá veru að tímabilið sem ætlunin var að innheimta umsýslugjaldið yrði stytt um tvö ár, þ.e. árin yrðu 2005 og 2006 í stað 2005–2008. Tók meiri hlutinn sérstaklega fram að honum þætti verkefnið merkilegt og mikilvægt en þó yrði að leita leiða til að takmarka þann kostnað við verkið sem fasteignaeigendur bæru einir. Kom fram í áliti meiri hlutans að við lok tímabilsins þyrfti að afla tekna með öðrum hætti, þ.e. frá og með byrjun ársins 2007 (þskj. 573 á 131. löggjafarþingi).
    Nú hefur á ný verið mælt fyrir frumvarpi sem fjallar um framlengingu á gjaldtöku umsýslugjalds og því vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndin hefur áður lýst því að hún hafi efasemdir um að rétt sé að fasteignaeigendur beri einir kostnað við Landskrá fasteigna. Hins vegar verður að líta til þess að verkefninu þarf að ljúka og það verður að vinna vel enda mikilvægt að upplýsingar í kerfinu séu réttar. Því leggur nefndin til að gjaldið verði einungis framlengt um eitt ár en ekki tvö eins og kveðið er á um í frumvarpinu.
    Meiri hlutinn telur bagalegt að ekki sé sundurliðað hvernig fjármagni til reksturs Fasteignamats ríkisins og stofnkostnaðar sé ráðstafað. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um stofnkostnað og tími starfsmanna er ekki sundurgreindur eftir verkefnum. Nefndin telur að upplýsingar um þessi atriði séu forsenda þess að unnt sé að meta hver kostnaður við rekstur Fasteignamatsins verði að verkefninu loknu.
    Meiri hlutinn mælist til þess að starfshópur, sem hefur verið skipaður til að fara yfir núverandi tilhögun, skili tillögum strax á vorþingi þessa þings. Þannig ætti að vera unnt að gera tillögur um breytta fjármögnun í fjárlögum fyrir árið 2008.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU :


    Í stað orðanna „á árunum 2007 og 2008“ í 1. málsl. efnismálsgreinar 1. gr. komi: á árinu 2007.

Alþingi, 5. des. 2006.


Pétur H. Blöndal,

form., frsm.

Dagný Jónsdóttir.

Birgir Ármannsson.


Ásta Möller.

Sæunn Stefánsdóttir.