Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 95. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 552  —  95. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson og Sigurrós Hilmarsdóttur frá iðnaðarráðuneyti.
    Jafnframt bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, ríkisskattstjóra, SVÞ - Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildistími laganna verði framlengdur til 31. desember 2011, eða um fimm ár. Þá er lagt til að nokkur atriði í lögunum verði skilgreind betur.
    Nefndin fagnar sérstaklega vel heppnuðum endurgreiðslum til kvikmyndagerðar hér á landi undanfarin ár. Ljóst er að íslenskur kvikmyndaiðnaður hefur eflst gríðarlega í kjölfar aðgerðanna. Jafnframt hafa einstök landsvæði og ferðaþjónustan notið sérstaklega aukinna umsvifa erlendra aðila í kvikmyndagerð hér á landi.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í 5. gr. laganna er kveðið á um hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar. Nefndin leggur til að endurgreiðsluhlutfallið verði hækkað úr 12% í 14%. Í framsöguræðu ráðherra kom fram áskorun til nefndarinnar um að taka þetta atriði til sérstakrar skoðunar.
     2.      Í tengslum við það sem fram kemur í 1. tölul. hér að framan er lagt til í bráðabirgðaákvæði að þeir sem fengið hafa endurgreiðsluvilyrði fyrir næstu áramót eigi þess kost að sækja aftur um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar eftir að endurgreiðsluhlutfallið hefur verið hækkað. Þó skal við það miðað að framleiðsla sé ekki hafin.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    Jóhann Ársælsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

    

Alþingi, 28. nóv. 2006.


Hjálmar Árnason,

form., frsm.

Kjartan Ólafsson.

Ellert B. Schram.


Guðjón Hjörleifsson.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Kolbrún Baldursdóttir.


Gunnar Örlygsson.

Sigurjón Þórðarson.