Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 364. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 553    — 364. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Baldur Guðlaugsson og Þórhall Arason frá fjármálaráðuneytinu, Sigurð Snævarr, Dag B. Eggertsson, Svandísi Svavardóttur og Ólaf F. Magnússon frá Reykjavíkurborg, Dan Brynjarsson frá Akureyrarbæ, Friðrik Sophusson, Jónas Bjarnason og Eggert Guðjónsson frá Landsvirkjun, Pál Gunnar Pálsson og Guðmund Sigurðsson frá Samkeppniseftirlitinu, Lárus Blöndal, Svein Þórarinsson, Pétur Þórðarson, Steingrím Jónsson, Þröst Magnússon og Guðmund Karlsson frá Rarik, Kristján Haraldsson og Kristján Pálsson frá Orkubúi Vestfjarða og Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja.
    Nefndinni bárust skriflegar umsagnir um málið frá Byggðastofnun, Rarik, Norðurorku, Samtökum iðnaðarins, Landsvirkjun, Akureyrarbæ, Reykjavíkurborg, Umhverfisstofnun, Orkustofnun, Grundarfjarðarbæ, Alþýðusambandi Íslands, Talsmanni neytenda og Húnavatnshreppi.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Landsvirkjun vegna kaupa ríkissjóðs á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Þá er lagt til að fyrirsvar vegna eignarhalds ríkisins í Landsvirkjun færist frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að frumvarpið hafi verið lagt fram í kjölfar þess að ríkissjóður keypti hlut Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Fyrirsvar vegna eignarhalds ríkisins í Landsvirkjun verður fært til fjármálaráðherra frá iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra tekur þannig við eigandahlutverki ríkisins í stað iðnaðarráðherra. Í ljósi þeirrar starfsemi sem fyrirtækið sinnir getur verið óheppilegt að aðild ríkisins að Landsvirkjun sé hjá sama ráðherra og fer með almenna stjórnsýslu á sviði auðlinda- og orkumála.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ellert B. Schram og Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Jóhann Ársælsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. nóv. 2006.


Hjálmar Árnason,

form., frsm.

Kjartan Ólafsson.

Ellert B. Schram,

með fyrirvara.


Guðjón Hjörleifsson.

Þórunn Sveinbjarnardóttir,

með fyrirvara.

Kolbrún Baldursdóttir.


Gunnar Örlygsson.