Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 408. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 640  —  408. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Veturliða Þór Stefánsson frá utanríkisráðuneyti, Árna Sigfússon bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Sigurð Val Ásbjörnsson, bæjarstjóra Sandgerðisbæjar, Oddnýju Harðardóttur bæjarstjóra í Garði, Magnús Gunnarsson, formann stjórnar Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., og Kjartan Þór Eiríksson framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins. Sameiginlegt erindi um málið barst frá bæjarstjórum Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og Garðs, auk þess sem nefndinni barst tilkynning frá Sandgerðisbæ.
    Frumvarpið er lagt fram í því skyni að taka af öll tvímæli um réttarstöðu á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda. Mælt er fyrir um óbreytta stjórnsýslu fyrst um sinn en síðan er gert ráð fyrir að svæðinu verði í áföngum komið í önnur not. Þannig er gert ráð fyrir að varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli verði til bráðabirgða skipt í þrjú mismunandi svæði, þ.e. flugvallarsvæði, öryggissvæði og starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. Félagið, sem er alfarið í eigu íslenska ríkisins, fær samkvæmt ákvæðum frumvarpsins heimild til að annast í umboði ríkisins umsýslu fasteigna á svæði sem koma á hið fyrsta í arðbær borgaraleg not.
    Nefndin bendir á að í 61. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, er að finna ákvæði um skipulags- og byggingarmál á auglýstum varnarsvæðum. Þar segir að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn þessara mála og skipi skipulags- og byggingarnefnd sem skuli í starfi sínu hafa náið samráð við Skipulagsstofnun og sveitarfélög sem hlut geta átt að máli, svo sem á Suðurnesjum. Nefndin telur eðlilegt að þegar auglýst verður að varnarsvæðið í heild eða að hluta hafi verið tekið til annarra nota, sbr. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins, verði litið til sameiginlegrar nýskipaðrar byggingar- og skipulagsnefndar sveitarfélaganna þriggja á svæðinu, þ.e. Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og Garðs.
    Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á frumvarpinu sem eingöngu eru til þess fallnar að gera orðalag og tilvísanir til flugvallar-, öryggis- og starfssvæða skýrari.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Ágúst Ólafur Ágústsson og Björgvin G. Sigurðsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og stendur ekki að áliti þessu.
    Guðrún Ögmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson og Þórdís Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. des. 2006.



Guðjón Ólafur Jónsson,


varaform., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.



Birgir Ármannsson.


Kjartan Ólafsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.