Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 420. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 649  —  420. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Ingva Má Pálsson og Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Arnar Sigurmundsson og Árna Guðmundsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Sigurbjörn Sigurbjörnsson frá Söfnunarsjóði lífeyrissjóða og Vigfús Ásgeirsson frá Talnakönnun.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um tryggingagjald. Er annars vegar lagt til að almennt tryggingagjald skv. 2. mgr. 2. gr. laganna lækki úr 4,99% í 4,54%, eða um 0,25%. Hins vegar er lagt til að 0,25% af gjaldstofni tryggingagagjalds skuli renna til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða sem gert er ráð fyrir að innleiðist í þrepum. Þannig skal framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða vera 0,15% árið 2007 og 0,20% árið 2008. Sömuleiðis verður fyrirkomulagið þannig að árin 2007–2009 rennur umrædd fjárhæð aðeins til lífeyrissjóða á samningssviði Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Ástæðan fyrir því að frumvarpið nær um sinn aðeins til umræddra lífeyrissjóða er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna áframhaldandi gildis kjarasamninga 15. nóvember 2005. Þar kemur fram að ríkisstjórnin lýsi sig reiðubúna til samstarfs við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins um leiðir sem dragi úr vaxandi örorkubyrði lífeyrissjóða og jafni stöðuna milli einstakra sjóða. Er í yfirlýsingunni gengið út frá að lífeyrissjóðirnir sjálfir geri ráðstafanir hvað þetta varðar. Auk þess kemur eftirfarandi fram: ,,Ríkisstjórnin lýsir því jafnframt yfir að hún er reiðubúin til að greiða fyrir jöfnun á örorkubyrði milli lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með framlagi sem svarar til 0,25% af tryggingagjaldsstofni samkvæmt nánari útfærslu milli aðila og komi til framkvæmda á þremur árum, 0,15% 2007, 0,20% 2008 og 0,25% 2009.“
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Er í fyrsta lagi lagt til að hlutfallstalan 0,25% hækki í 0,325%. Í öðru lagi er lagt til að hafi lífeyrissjóður nýtt heimild samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða til að ákveða lágmark tryggingaverndar þannig að iðgjaldi sé að hluta varið til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skuli verðmæti iðgjaldsgreiðslna vegna réttinda sem aflað er í séreign talið til skuldbindinga sjóðsins þegar hlutdeild sjóðs skv. 2. tölul. 3. gr. frumvarpsins er fundin. Þá leggur nefndin til breytingu á gildistökuákvæði þannig að 2. gr. frumvarpsins, sem fjallar um að tryggingagjaldi skuli ráðstafað til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða, taki gildi 1. janúar 2010 í stað 2009. Að auki er orðalagsbreyting lögð til á 2. gr. laganna.
    Rætt var um það í nefndinni hvort um ójafnræði milli sjóða væri að ræða samkvæmt frumvarpinu þar sem það nær að sinni einungis til tiltekinna sjóða á samningssviði ASÍ. Nefndin telur rétt að skoða þetta mál vandlega og hyggst gera það eftir áramót með það að markmiði að athuga hvort rétt sé að koma strax til móts við fleiri lífeyrissjóði. Því telur nefndin eðlilegt að ellilífeyrisaldur ætti að skipta máli til að finna sanngjarna hlutdeild lífeyrissjóðs í skuldbindingum lífeyrissjóða til greiðslu örorkulífeyris, sbr. 2. tölul. e-liðar 3. gr. frumvarpsins. Nefndin telur að huga verði að ýmsum þáttum í þessu sambandi og að ellilífeyrisaldur hljóti að vega þar þungt.
    Guðjón A. Kristjánsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur áliti þessu.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. des. 2006.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Ásta Möller.



Sæunn Stefánsdóttir.


Ögmundur Jónasson.