Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 367. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 879  —  367. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 87/2003, um Orkustofnun.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Þorkel Helgason og Elínu Smáradóttur frá Orkustofnun, Ólaf G. Flóvenz frá Íslenskum orkurannsóknum, Stefaníu Halldórsdóttur, Odd Sigurðsson og Þórarin Jóhannsson, fulltrúa starfsmanna Orkustofnunar og vatnamælingamanna, og Sveinbjörn Björnsson. Umsagnir bárust um málið frá Olíufélaginu ehf., Landsvirkjun, Norðurorku, Fasteignamati ríkisins, Orkuveitu Reykjavíkur, Landvernd, ríkisskattstjóra, Samorku, Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Bændasamtökum Íslands, Starfsmannafélagi Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Veðurstofu Íslands, starfsmönnum vatnamælinga Orkustofnunar, Eyþingi og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
    Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi vatnamælinga Orkustofnunar færist undir Íslenskar orkurannsóknir og að Orkustofnun verði veittar heimildir til að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun til að sinna lögboðnu hlutverki sínu.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom í ljós að starfsmenn vatnamælinga Orkustofnunar voru ósáttir við það fyrirkomulag að starfsemin yrði færð undir Íslenskar orkurannsóknir. Í ljósi þessa leggur nefndin til verulegar breytingar á frumvarpinu þess efnis að öll ákvæði önnur en þau sem varða heimild Orkustofnunar til gagnaöflunar verði felld brott. Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, sem og að safna ýmsum gögnum vegna eftirlits með framkvæmd leyfa sem henni hefur verið falið að annast. Nefndin leggur áherslu á að ákvæði varðandi úrræði stofnunarinnar við gagnaöflun verði lögfest þar sem misbrestur hefur orðið á því að stofnunin hafi getað aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru við undirbúning orkuspáa orkuspárnefndar og samantektar um orkunotkun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 14. febr. 2007.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Kjartan Ólafsson.



Jóhann Ársælsson.


Katrín Júlíusdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Sigurjón Þórðarson.