Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 440. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 883  —  440. mál.




Nefndarálit



um frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2005.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti varðandi tillögur um breytingar á fjárheimildum og ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok. Enn fremur var óskað eftir áliti frá Ríkisendurskoðun.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til 934,6 m.kr. hækkun fjárheimilda vegna frávika ríkistekna frá áætlun fjárlaga. Í 2. gr. er lagt til að niður falli 1.848 m.kr. gjöld umfram heimildir.
    Heildarfjárheimildir ársins námu 327,7 milljörðum kr. en útgjöld samkvæmt reikningi urðu 308,4 milljarðar kr. Fjárheimildastaða í árslok er því jákvæð um 19,3 milljarða kr. nettó.
Fyrsti minni hluti leggur til nokkrar breytingar við frumvarpið til frekari samræmingar við niðurstöður ríkisreiknings fyrir árið 2005 og leiða breytingarnar annars vegar til 1,7 m.kr. lækkunar á fjárheimildum og hins vegar 33,7 m.kr. nettóaukningar á stöðum fjárheimilda sem falla niður í árslok. Fjármögnunarliðurinn innheimt af ríkistekjum lækkar um 1,7 m.kr. en framlag ríkissjóðs breytist ekki.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum 1. minni hluta.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins.

620 Ríkisendurskoðun.
     Lagt er til að 3 m.kr. afgangur á viðfangsefni 6.21 Fasteignir falli ekki niður heldur verði fluttur yfir á árið 2006. Afgangurinn er ætlaður til innréttingar á ónýttu rými í húsnæði stofnunarinnar á Skúlagötu 57. Framkvæmdir hafa tafist en gert er ráð fyrir að þær hefjist á þessu ári.

01 Forsætisráðuneyti.

190 Ýmis verkefni.
    Lagt er til að 20,6 m.kr. afgangur á viðfangsefni 1.15 Útboðs- og einkavæðingarverkefni flytjist ekki yfir á árið 2006 heldur falli niður í árslok 2005. Á fjáraukalögum 2005 var veitt 750 m.kr. fjárveiting, aðallega vegna sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf., sem eftir endanlegt uppgjör reyndist vera nokkuð umfram fjárþörf. Bókfærð útgjöld viðfangsins á árinu 2006 eru auk þess vel innan ramma fjárlaga.

02 Menntamálaráðuneyti.

505 Fjöltækniskóli Íslands.
    
Lagt er til að 1,5 m.kr. neikvæð staða liðarins falli ekki niður heldur verði flutt yfir á árið 2006 til samræmis við ríkisreikning. Í reikningnum er 1,5 m.kr. fjárheimild millifærð af liðnum yfir á lið 02-507 Stýrimannaskólinn í Reykjavík í tengslum við lokauppgjör síðarnefnda liðarins. Við það myndast 1,5 m.kr. neikvæð staða á lið Fjöltækniskólans sem er flutt yfir á árið 2006.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.

391 Húsnæði löggæslustofnana.
    Lagt er til að 20,8 m.kr. umframgjöld á viðfangsefni 6.21 Fasteignir falli ekki niður heldur verði flutt yfir á árið 2006 eins og almennt á við um stöður annarra safnliða í stofnkostnaði.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

477 Dagvistun aldraðra, aðrar.
    Lagt er til að 6,2 m.kr. neikvæð staða liðarins í árslok falli niður í árslok líkt og staða liðar 08-460 Dvalarrými aldraðra, önnur. Á þessum liðum eru fjárveitingar til dagvistunar og dvalarrýma aldraðra hjá ýmsum smærri stofnunum sem ekki eru með hjúkrunarrými.

10 Samgönguráðuneyti.

512 Póst- og fjarskiptastofnunin.
    Lagt er til að fjárveitingar vegna ríkistekjufrávika lækki um 1,7 m.kr., eða sem svarar til launabóta vegna tiltekinna kjarabreytinga á árinu, og verði 39,2 m.kr. í stað 40,9 m.kr. Launabætur stofnunarinnar þarf að fjármagna af mörkuðum tekjum eins og annan rekstur hennar en í forsendum frumvarpsins láðist að gera ráð fyrir því.

Alþingi, 12. febr. 2007.



Einar Oddur Kristjánsson,


varaform., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.



Gunnar Örlygsson.