Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 613. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 913  —  613. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2006.

1. Inngangur.
    Starfsemi NATO-þingsins árið 2006 einkenndist öðru fremur af umræðu um samskiptin yfir Atlantsála, baráttuna gegn hryðjuverkum og breytingar á hlutverki NATO sem gengur í gegnum róttækt umbreytingarskeið nú, ekki síður en gerðist við lok kalda stríðsins. Aðgerðum utan hefðbundins athafnasvæðis hefur fjölgað stórlega og teygja sig yfir fleiri heimsálfur eins og verkefni og aðgerðir í Pakistan, Afganistan, Írak og Darfúr bera vitni. Mikil eftirspurn er eftir aðstoð NATO enda er það svo að fæst önnur svæðisbundin samtök hafa bolmagn til að taka að sér friðargæslu- eða uppbyggingarverkefni. Bandalagið hefur aðlagað sig breyttu öryggisumhverfi og byggt upp hernaðarlega getu til að bregðast hratt og sveigjanlega við nýjum óhefðbundnum ógnum. Skýrasta birtingarmynd þess er hraðlið bandalagsins sem byggt hefur verið upp á undanförnum árum en tilkynnt var á leiðtogafundi NATO í Ríga í nóvember að hraðliðið sé nú að fullu starfhæft.
    Langumfangsmesta verkefni NATO er í Afganistan en það er um leið tákngervingur hinna miklu breytinga sem eiga sér stað á bandalaginu. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003. NATO stækkaði aðgerðasvæði sitt verulega á árinu 2006 þegar bandalagið tók við stjórn herliðs í suðurhéruðum Afganistans í júlí og austurhluta landsins í október. Sveitir NATO taka nú til alls landsins og í þeim eru 31.000 menn frá 26 NATO-ríkjum og 11 samstarfsríkjum. Aðgerðin í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta í sögu bandalagsins. Afganistan var mjög í brennidepli á vettvangi NATO-þingsins á árinu og lögðu þingmenn áherslu á að aðgerðin í Afganistan væri prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og nýtt öryggisumhverfi.
    Íslandsdeild NATO-þingsins var að venju mjög virk á starfsárinu 2006. Hún tók varnar- og öryggismál Íslands upp með kröftugum hætti á vettvangi NATO-þingsins eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti 15. mars um brotthvarf varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli fyrir lok september. Meðlimir Íslandsdeildar tóku málið upp í bréfaskriftum, í fyrirspurnum og á fundum en sérstök utandagskrárumræða var til að mynda haldin um varnir Íslands á fundi varnar- og öryggismálanefndar á vorfundi NATO-þingsins í París. Tvenns konar áherslur komu einkum fram í málflutningi þingmanna Íslandsdeildar. Annars vegar var varað við því að Ísland yrði eina aðildarríki NATO sem ekki hefði loftvarnir og að loftvarnasvæði NATO á Norður- Atlantshafi yrði að hluta óvarið við þessa breytingu. Það hefði auk þess áhrif á öryggi almenns farþegaflugs á flugstjórnarsvæðinu á Norður-Atlantshafi þar sem umferð er gríðarlega mikil. Hins vegar var lögð áhersla á að öryggi siglinga um Norður-Atlantshafið minnkaði verulega með einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar. Í þessu sambandi var bent á að búist er við mikilli aukningu á skipaumferð í hafinu umhverfis Ísland í kjölfar aukinnar olíu- og gasvinnslu í Barentshafi og öðrum hlutum Norðurskautssvæðisins. (Sjá nánar kafla 4. Íslandsdeildin og varnar- og öryggismál Íslands).
    Þá hélt Íslandsdeild á starfsárinu áfram undirbúningi fyrir ársfund NATO-þingsins sem fram fer í Reykjavík 5.–9. október 2007.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áhyggjuefni. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum á þinginu fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þá gætir aukinna samskipta NATO- þingsins við ríki í norðanverðri Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs með tilkomu Miðjarðarhafshópsins svonefnda. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra: Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum jókst skilningur manna á því að nauðsyn væri á einhvers konar skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur því ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að upplýsa þingmenn og efla samstöðu þjóðþinga á milli. Þingið gerir þingmönnum aðildarríkja bandalagsins kleift að koma á framfæri áhugamálum og áhyggjuefnum ríkja sinna og skiptast á viðhorfum til mikilvægra sameiginlegra hagsmunamála. Fulltrúar á þingið eru kjörnir af þjóðþingum með aðferðum sem þau ákveða sjálf. Þar endurspeglast því afar breitt svið pólitískra skoðana. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, félagsmálanefnd, efnahagsnefnd og vísinda- og tækninefnd. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna og rannsaka og fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra. Óski nefnd þess að gera ítarlega rannsókn á tilteknu máli getur hún kosið undirnefnd eða komið á fót vinnuhópi til að afla um það upplýsinga. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tillagna, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tillögum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þingsins við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form og meðal formlegra samskipta má nefna formleg svör við tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins, ávarp framkvæmdastjóra bandalagsins á vorfundum og ársfundum þingsins, aukafundi nefnda í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og einnig Evrópusambandsins, og loks fundi forustumanna í þinginu og Norður-Atlantshafsráðinu til gagnkvæmra skoðanaskipta.

Aukaaðild og samskiptin við ríkin í austri.
    Eins og Atlantshafsbandalagið sjálft hefur þingið endurskoðað hlutverk sitt í ljósi mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á þörf fyrir bandalagið og hið einstæða samband sem það felur í sér milli þjóða beggja vegna Atlantsála er þörf fyrir breytingar til aðlögunar að nýjum aðstæðum. Umfram allt kallar þetta á fyrirkomulag í öryggismálum sem byggist á samvinnu og umræðum fremur en árekstrum. Við upphaf tíunda áratugarins var þjóðþingum nokkurra Austur-Evrópuþjóða veitt aukaaðild að þinginu. Með aðild margra þessara ríkja að NATO og NATO-þinginu hefur enn fleiri ríkjum, m.a. á Kákasussvæðinu, verið veitt aukaaðild. Auk þess hefur á undanförnum árum verið lögð aukin áhersla á samskipti ríkjanna við Miðjarðarhafið og hefur nokkrum ríkjum í Norður-Afríku og Miðausturlöndum verið veitt svokölluð Miðjarðarhafsaðild, m.a. var Máritaníu, Alsír, Jórdaníu og Ísrael veitt slík aðild árið 2005 og heimastjórnarþingi Palestínu var veitt áheyrnaraðild.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 248 þingmenn frá aðildarríkjunum 26. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í öllum störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 59 þingmenn frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Í upphafi árs 2006 skipuðu Íslandsdeild NATO-þingsins Össur Skarphéðinsson formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Einar Oddur Kristjánsson varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Hinn 2. október 2006 við upphaf 133. þings tók Dagný Jónsdóttir sæti Magnúsar Stefánssonar sem aðalmaður í Íslandsdeild og Sæunn Stefánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, tók sæti Dagnýjar sem varamaður. Á fundi Íslandsdeildar hinn 5. október voru Össur Skarphéðinsson og Einar Oddur Kristjánsson endurkjörnir sem formaður og varaformaður.
    Stígur Stefánsson gegndi starfi ritara Íslandsdeildar á starfsárinu.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í starfi allra nefnda þess. Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2006 var þannig:

Stjórnarnefnd: Össur Skarphéðinsson.
Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Stjórnmálanefnd: Einar Oddur Kristjánsson.
Til vara: Kjartan Ólafsson.
Varnar- og öryggismálanefnd: Magnús Stefánsson og
Dagný Jónsdóttir frá 2. október
Til vara: Dagný Jónsdóttir og
Sæunn Stefánsdóttir frá 2. október.
Félagsmálanefnd: Össur Skarphéðinsson.
Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
Efnahagsnefnd: Magnús Stefánsson og
Dagný Jónsdóttir frá 2. október.
Til vara: Dagný Jónsdóttir og
Sæunn Stefánsdóttir frá 2. október.
Vísinda- og tækninefnd: Össur Skarphéðinsson.
Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
Miðjarðarhafshópur: Einar Oddur Kristjánsson.

4. Íslandsdeildin og varnar- og öryggismál Íslands.
    Íslandsdeildin tók varnar- og öryggismál Íslands upp með kröftugum hætti á vettvangi NATO-þingsins eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti 15. mars um brotthvarf varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli fyrir lok september 2006. Meðlimir Íslandsdeildar tóku málið upp í bréfaskriftum, í fyrirspurnum og á fundum nefnda NATO-þingsins, m.a. á tveimur stjórnarnefndarfundum, fundum stjórnmálanefndar og efnahagsmálanefndar auk þess sem sérstök
utandagskrárumræða var haldin um varnir Íslands á fundi varnar- og öryggismálanefndar á vorfundi NATO-þingsins í París. Tvenns konar áherslur komu einkum fram í málflutningi þingmanna Íslandsdeildar. Annars vegar var varað við því að Ísland yrði eina aðildarríki NATO sem ekki hefði loftvarnir og að hluti loftvarnarsvæðis NATO á Norður-Atlantshafi yrði óvarið við þessa breytingu. Það hefði auk þess áhrif á öryggi almenns farþegaflugs á flugstjórnarsvæðinu á Norður-Atlantshafi þar sem umferð er gríðarlega mikil og gæti aukið hættu á hryðjuverkum. Hins vegar var lögð áhersla á að öryggi siglinga um Norður-Atlantshafið minnkaði verulega með einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar. Í þessu sambandi var bent á að búist er við mikilli aukningu á siglingum umhverfis Ísland í kjölfar aukinnar olíu- og gasvinnslu í Barentshafi og öðrum hlutum Norðurskautssvæðisins. Því hefur bæði verið vísað til mikilvægis hernaðarmáttar Bandaríkjanna, en einnig þess hlutverks sem þyrlubjörgunarsveit varnarliðsins hefur gegnt undanfarna áratugi. Þingmennirnir hafa bent á að Íslendingar munu eiga í erfiðleikum með að fylla í skarð Bandaríkjamanna með svo skömmum fyrirvara.
    Málinu var fyrst hreyft á fundi stjónarnefndar NATO-þingsins í Gdynia 25. mars þar sem Össur Skarphéðinsson vakti athygli á fyrirhuguðu brotthvarfi varnarliðsins og áhrifum þess. Kynnti hann ákvörðun Bandaríkjastjórnar, viðbrögð íslenskra stjórnvalda og stöðu varnarmála á Íslandi. Fór hann fram á það við forseta NATO-þingsins, Pierre Lellouche, að málið yrði tekið fyrir á vorfundi NATO-þingsins í París sem fram undan var 26.–30 maí.
    Til undirbúnings fyrir vorfundinn sendi Íslandsdeildin formönnum allra landsdeilda NATO-þingsins bréf þar sem atburðarásin var skýrð og grein gerð fyrir afstöðu og áhyggjum Íslands vegna fyrirhugaðs brotthvarfs varnarliðsins. Þrátt fyrir að ekki væri farið fram á svör við bréfinu fengust skrifleg svör frá formönnum landsdeilda Lettlands, Þýskalands, Lúxemborgar og Frakklands. Í bréfi lettnesku landsdeildarinnar var bent á að loftvarnareftirlit NATO sér um loftvarnir Eystrasaltsríkjanna og að nauðsynlegt væri að styrkja og stofnanabinda loftvarnareftirlit á vegum NATO þannig að það tæki til allra NATO-ríkja sem ekki eiga flugher til þess að standa undir nauðsynlegu eftirliti.
    Á vorfundi NATO-þingsins var efnt til sérstakrar utandagskrárumræðu um varnar- og öryggismál Íslands á fundi varnar- og öryggismálanefndar. Var það gert samkvæmt samkomulagi Íslandsdeildar við Pierre Lellouche, forseta NATO-þingsins, og Joel Hefley formann varnar- og öryggismálanefndar. Össur Skarphéðinsson flutti framsögu í þeirri umræðu en Össur tók málið einnig upp í almennum umræðum stjórnmálanefndar NATO-þingsins. Í málflutningi sínum í utandagskrárumræðunni sagði Össur að íslensk stjórnvöld hörmuðu einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um brotthvarf hersins auk þess sem hann og ýmsir aðrir stjórnmálamenn teldu hana brot á varnarsamningnum. Össur lagði áherslu á að tvíhliða varnarsamningurinn væri enn í gildi og að fyrir dyrum stæðu nýjar viðræður við Bandaríkjamenn um hvernig þeir hygðust standa við skuldbindingar sínar um varnir Íslands. Hann benti á að frumskylda og tilgangur NATO væri að tryggja varnir og öryggi aðildarríkjanna en útlit væri fyrir að Ísland stæði senn varnarlaust eitt NATO-ríkja. Því þyrfti að leita eftir aðkomu NATO ef tvíhliða viðræður Íslands og Bandaríkjanna bæru ekki árangur. Össur minnti einnig á að NATO hefði komið að því að tryggja loftvarnir þeirra NATO-ríkja sem ekki eiga eigin flugher, þ.e. Eystrasaltsríkjanna, Slóveníu og Lúxemborgar. Magnús Stefánsson tók einnig til máls í utandagskrárumræðunni. Hann gerði öryggisumhverfi Íslands og mögulegar ógnir að umræðuefni og sagði að Íslendingar stæðu frammi fyrir nýjum ógnum eftir lok kalda stríðsins líkt og aðrar NATO-þjóðir. Magnús lagði áherslu á að landfræðileg lega Íslands sem útvörður NATO í norðanverðu Atlantshafi væri engin vernd í sjálfu sér og að varnarleysi landsins og einangrun gætu gert landið að skotmarki hryðjuverkamanna. Helsta hættan að hans mati væri árás sem beindist gegn flugsamgöngum og flugsamgöngukerfum en íslenska flugstjórnarsvæðið er eitt hið stærsta í heimi með hátt í 100.000 flugvélar á ári á flugi yfir Atlantsála. Magnús nefndi einnig að með fyrirhugaðri olíu- og gasvinnslu Norðmanna í Barentshafi og mögulegri norðursiglingaleið frá Asíu mætti búast við aukinni skipaumferð á Atlantshafi og það krefðist öryggisráðstafana.
    Joel Hefley, formaður sendinefndar fulltrúadeildar bandaríska þingsins og formaður varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins, svaraði ummælum Össurar og Magnúsar. Hann sagðist hafa rætt varnir Íslands við embættismenn úr bandaríska varnarmálaráðuneytinu Pentagon og að það lægi ljóst fyrir að Bandaríkjamenn mundu verja Ísland og standa við varnarsamninginn þótt þeir hefðu ekki fast herlið á landinu. Auk Hefleys tóku þingmenn frá Noregi, Lettlandi og Litháen til máls um brotthvarf varnarliðsins og lýstu allir yfir stuðningi við málstað Íslands og að öryggi landsins yrði tryggt. Norski þingmaðurinn Marit Nybakk sagði að ef ekki fengist lausn á vörnum Íslands í viðræðunum við Bandaríkjamenn væru Norðmenn tilbúnir að styðja að NATO kæmi sérstaklega að vörnum Íslands. Það væru líka hagsmunir Noregs að tryggja öryggi á norðanverðu Atlantshafi. Guntis Berzins, formaður lettnesku landsdeildarinnar, hvatti einnig til þess að varanleg lausn yrði fundin á loftvörnum þeirra NATO-ríkja sem ekki hafa flugher. Rasa Jukneviciene frá Litháen tók undir tillögu Berzins. Norðmaðurinn Per Ove Width sagði varnarmál Íslands ekki tvíhliða mál milli Íslands og Bandaríkjanna heldur mál sem varðaði NATO þar sem varnarlaust Ísland mundi draga mjög úr öryggi á norðanverðu Atlantshafinu.
    Á vorfundinum sat Norður-Atlantshafsráðið og framkvæmdastjóri NATO, Jaap de Hoop Scheffer, fyrir svörum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fyrir hönd Íslandsdeildar spurði Össur de Hoop Scheffer um aðkomu hans og mögulega aðkomu NATO að því að tryggja varnir Íslands. De Hoop Scheffer sagðist fylgjast grannt með gangi viðræðna Íslands og Bandaríkjanna og að hann hefði rætt um þessi mál við Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde. De Hoop Scheffer sagðist ekki geta sagt neitt um aðkomu NATO meðan á tvíhliða viðræðunum stæði en áréttaði að Ísland væri fullgildur aðili að NATO og að bandalagið mundi beita sér í samræmi við það.
    Á stjórnarnefndarfundi NATO-þingsins í Brussel 29. september gerði Össur Skarphéðinsson grein fyrir samkomulagi sem náðst hefði í tvíhliða viðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda um viðskilnað varnarliðsins og nýja varnaráætlun sem ætlað er að tryggja varnir Íslands með hreyfanlegum viðbúnaði og liðsafla. Þá væri ætlunin að halda árlegar tvíhliða eða fjölþjóðlegar heræfingar á Íslandi auk þess sem reglubundnum samráðsfundum um varnar- og öryggismál yrði komið á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Eftir brotthvarf varnarliðsins og hið nýja samkomulag við Bandaríkin væri Ísland engu að síður í mjög sérstakri stöðu innan NATO. Þar sem Ísland hefur ekki eigin her væri landið nú eina NATO- ríkið sem ekki hefði neins konar varanlegar varnir á landssvæði sínu. Enn fremur væri Ísland eina NATO-ríkið án loftvarna þó landið sé langt í frá eina aðildarríki bandalagsins sem ekki á flugher.
    Á ársfundi NATO-þingsins í Quebec 13.–18. nóvember fjallaði efnahagsnefndin sérstaklega um orkuöryggi en það málefni hefur orðið æ fyrirferðarmeira í öryggismálaumræðu á síðustu missirum. Varað hefur verið við því að einstök NATO-ríki verði háð einum eða fáum birgjum við að uppfylla orkuþarfir sínar. Dagný Jónsdóttir kvaddi sér hljóðs og setti málið í samhengi við öryggismál á norðanverðu Atlantshafi og brotthvarfs varnaliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Benti Dagný á að stór hluti ónýttra orkubirgða heimsins væru á norðurskautssvæðinu og að t.d. væri von á stóraukinni olíu- og gasvinnslu Norðmanna í Barentshafi á næstu árum sem væri mikilvægur þáttur í því að tryggja orkuöryggi NATO-ríkjanna. Þessi vinnsla auk mögulegrar norðursiglingaleiðar á milli Asíu annars vegar og Evrópu og austurstrandar Bandaríkjanna hins vegar mun stórauka skipaumferð á Norður-Atlantshafi en umferð risavaxinna tankskipa með gas og olíu hefur þegar aukist mjög. Dagný sagði það því slá skökku við að á sama tíma hefði verið dregið úr öryggisviðbúnaði á Norður-Atlantshafi með lokun herstöðvar Bandaríkjamanna í Keflavík. Aukið vægi Norður-Atlantshafssvæðisins hvað varðar orkuöryggi NATO kallaði á að ráðstafanir yrðu gerðar til að tryggja öryggi orkuflutninga og annarra samgangna á svæðinu.
    Nánari umfjöllun um hvernig Íslandsdeildin tók varnar- og öryggismál Íslands upp á einstaka fundum NATO-þingsins má sjá í umfjöllun í næsta kafla.

5. Fundir sem Íslandsdeild sótti á árinu.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Auk þess fundar stjórnarnefnd sérstaklega ár hvert, ýmist í lok mars eða byrjun apríl. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Á árinu 2006 hélt stjórnarnefndin sérstakan aukafund í september til undirbúnings leiðtogafundar NATO sem haldinn var í Ríga í lok nóvember. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega námsstefnur og fundi á milli þingfunda. Á árinu voru haldnar tvær Rose Roth námsstefnur.
    Árið 2006 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í Gdynia í mars, vor- og ársfundum þingsins í París og Quebec, aukafundi stjórnarnefndar í Brussel í september og árlegum fundi um Atlantshafssamstarfið í Washington í desember, auk almennra nefndarfunda utan þingfunda.

Febrúarfundir.
    Dagana 19.–21. febrúar sl. var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel. Fyrirkomulag fundanna var með venjubundnum hætti, þ.e. að embættismenn Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins héldu erindi um afmörkuð málefni og gáfu svo þingmönnum færi á að beina til þeirra spurningum. Að auki átti stjórnarnefnd NATO-þingsins fund með Norður-Atlantshafsráðinu og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Einar Oddur Kristjánsson og Magnús Stefánsson fundina, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Framtíðarhlutverk og umbreyting NATO var mjög í brennidepli fyrsta fundardaginn. Martin Erdmann, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, og Jamie Shea, yfirmaður stefnumótunarskrifstofu framkvæmdastjóra NATO, fluttu þá framsöguerindi. Að því loknu tóku þrír NATO-sendiherrar, Victoria Nuland frá Bandaríkjunum, Rüdiger Reyeis, Þýskalandi, og Richard Duqué, Frakklandi, þátt í hringborðsumræðu með þingmönnum. Rauður þráður í framsögum og umræðunum var að bandalagið gengur í gegnum róttækt umbreytingarskeið nú, ekki síður en gerðist við lok kalda stríðsins, þó það fari hljóðar í fjölmiðlum. Aðgerðum utan hefðbundins athafnasvæðis hefur fjölgað stórlega og teygja sig yfir fleiri heimsálfur eins og verkefni og aðgerðir í Pakistan, Afganistan, Írak og Darfúr sýna glögglega. Langumfangsmesta verkefni NATO er í Afganistan en það er um leið tákngervingur hinna miklu breytinga sem eiga sér stað á bandalaginu. Mikil eftirspurn er eftir aðstoð NATO enda er það svo að mörg önnur svæðisbundin samtök hafa ekki bjargir eða bolmagn til að taka að sér friðargæslu- eða uppbyggingarverkefni. Bandalagið hefur aðlagað sig breyttu öryggisumhverfi og byggt upp hernaðarlega getu til að bregðast hratt og sveigjanlega við nýjum óhefðbundnum ógnum. Fyrirhugaður leiðtogafundur NATO í Ríga í nóvember mundi bera yfirskriftina Umbreytingafundur (Transformation Summit). Þá væri vonast til að hægt yrði að tilkynna að hraðlið bandalagsins væri að fullu starfhæft.
    Annan fundardag var sjónum einkum beint að hernaðarlegri getu og viðbúnaði NATO. Marshall Billingslea, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO fyrir fjárfestingar í vörnum, og John P. Colston, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO fyrir stefnumótun í varnarmálum, héldu framsögur og ræddu herstjórnarkerfi bandalagsins og tæknilega samþættingu herja ólíkra ríkja þess þegar til aðgerða er gripið. Þá fór fram fundur með Norður-Atlantshafsráðinu þar sem helstu umræðuefni voru aðgerðin í Afganistan, umsóknarlönd sem knýja dyra hjá NATO og fyrirhugaður leiðtogafundur í Ríga. Þingmennirnir hvöttu til þess að samskipti og samstarf NATO og ESB yrðu bætt til að koma í veg fyrir ólíðandi tvíverknað og sóun á skattfé en fundarmenn voru sammála um að samstarf þessara tveggja stofnana hefur ekki gengið sem skyldi undanfarin ár.
    Síðasta fundardag voru skrifstofur framkvæmdastjórnar ESB heimsóttar og áttu NATO- þingmenn fund með Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórninni, Stefano Sannino, yfirmann viðbraga við neyðarástandi, og Paulo Casaca, formaður nefndar Evrópuþingsins sem sér um samskipti við NATO-þingið. Var einkum rætt um hvernig bæta mætti samskipti NATO og ESB. Rehn lagði í máli sínu áherslu á að stofnanirnar hefði átt gott samstarf í Bosníu og Kosovo þó rétt væri að það þyrfti að bæta. Varðandi næstu stækkun ESB sagði Rehn ekki hægt að bera hana saman við útvíkkun NATO þar sem mun flóknari skilyrði væru fyrir ESB-aðild sem næðu til allra þátta samfélags þeirra þjóða sem í það ganga. Útvíkkun ESB og NATO styrktu þó hvor aðra þar sem ESB stækkun þýddi í raun útbreiðslu lýðræðislegra stjórnarhátta og stöðugleika í álfunni um leið og NATO tryggði hernaðarlegar varnir út á við.

Fundur stjórnarnefndar.
    Laugardaginn 25. mars kom stjórnarnefnd NATO-þingsins saman til fundar í Gdynia í Póllandi. Fundinn sat af hálfu Íslandsdeildar Össur Skarphéðinsson formaður og Stígur Stefánsson ritari. Pierre Lellouche, forseti NATO-þingsins, stýrði fundi nefndarinnar.
    Fyrsta dagskrármálið var umbætur á starfsháttum NATO-þingsins. Á ársfundi NATO- þingsins í Kaupmannahöfn í nóvember 2005 ákvað stjórnarnefndin að koma á fót vinnuhópi til þess að gera tillögur um umbætur. Vinnuhópurinn var undir stjórn kanadíska þingmannsins Pierre Claude Nolin sem kynnti bráðabirgðaskýrslu hópsins. Fyrsti kafli skýrslunnar fjallaði um samhæfingu og forgangsröðun í starfi NATO-þingsins. Að mati skýrsluhöfunda skorti á samhæfingu í starfi þingsins og leiddi það til óþarfa tvíverknaðar. Auk þess beinir þingið sjónum sínum of víða og væri kröftum þess betur varið ef horft væri til færri og afmarkaðri verkefna. Í skýrslunni var lagt til að stjórnarnefndin fengi aukið vald til að sjá um samhæfingu nefnda NATO-þingsins og að hún fengi starfsáætlanir þeirra til samþykktar. Þá var lagt til að fundur framkvæmdastjórnar og allra formanna nefnda og undirnefnda yrði haldinn við upphaf vor- og ársþings. Enn fremur var lagt til að dregið yrði úr kosningaeftirliti á vegum NATO-þingsins. Í öðrum kafla skýrslunnar var fjallað um málefnanefndirnar. Lagt var til að staða svokallaðs Miðjarðarhafshóps yrði óbreytt og að hann yrði ekki gerður að sérstakri nefnd. Lagt var til að fjölda undirnefnda yrði takmarkaður þannig að hver nefnd geti einungis haft eina undirnefnd innan sinna vébanda. Á móti gætu nefndirnar notað sérstaklega skipaða skýrsluhöfunda (special rapporteurs) í auknum mæli. Umboð undirnefnda ætti að endurnýja árlega til að tryggja að þær beini sjónum sínum að þeim málefnum sem efst eru á baugi. Í umræðum sem á eftir fylgdu ríkti óeining um nauðsyn þess að fækka undirnefndum. Þá lögðu skýrsluhöfundar til að leitað yrði leiða til að bæta starf sameiginlegrar þingmannanefndar NATO og Rússlands. Þriðji kafli skýrslunnar fjallaði um vor- og haustfundi NATO-þingsins. Ekki var samstaða í vinnuhópnum um hvort stytta bæri fundina. Í fjórði kafla var fjallað um tímatakmarkanir á setu í embættum NATO-þingsins. Lagt var til að takmörkunum yrði ekki breytt fyrir framkvæmdastjórnina en ef tillaga um fækkun undirnefnda næði fram að ganga þá skyldi takmarka embættistíma formanna nefnda og undirnefnda við 3 ár. Ákveðið var að ræða nánar um umbætur á starfsemi NATO-þingsins á vorfundinum í París 26.–30. maí.
    Næst var rætt um starfsáætlun NATO-þingsins fyrir árið 2006 og gerðu nefndaformenn stuttlega grein fyrir áætlunum sinna nefnda. Össur Skarphéðinsson tók til máls og vakti athygli fundarmanna á hinni nýju stöðu sem upp var komin í varnarmálum Íslendinga. Bandaríkjastjórn hefði ákveðið einhliða að draga sveitir sínar frá Keflavíkurflugvelli en þar hefði Bandaríkjaher haft herstöð samkvæmt tvíhliða varnarsamningi ríkjanna frá 1951. Samningurinn kveður á um að Bandaríkin sjái, fyrir hönd NATO, um varnir Íslands. Ákvörðun Bandaríkjastjórnar kom þvert ofan í varnarviðræður sem stóðu yfir á milli landanna. Össur sagði íslensk stjórnvöld harma þessa ákvörðun og að hann og ýmsir aðrir stjórnmálamenn teldu hana brot á varnarsamningnum. Ísland væri eina NATO-ríkið sem ekki hefði her og því væri útlit fyrir að landið yrði varnarlaust í september þegar liðsveitir Bandaríkjahers hyrfu á braut. Össur lagði áherslu á að tvíhliða varnarsamningurinn væri enn í gildi og að fyrir dyrum stæðu nýjar viðræður við Bandaríkjamenn um hvernig þeir hygðust standa við skuldbindingar sínar um varnir Íslands. Ef viðræðurnar bæru ekki árangur þyrfti að leita eftir aðkomu NATO. De Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, hefði tekið málið upp á fundi með Bush Bandaríkjaforseta en nú væri beðið átekta eftir því hvað kæmi út úr tvíhliða viðræðum ríkjanna. Össur harmaði að lokum að engin fulltrúi bandarísku landsdeildarinnar væri á fundinum enda hefði hann viljað ræða málið við bandaríska þingmenn. Taldi Össur blasa við að varnarmál Íslands þyrfti að ræða á vorfundi NATO-þingsins sem fram undan var í maí. Pierre Lellouche, forseti NATO-þingsins, sagði tíðindin koma á óvart og ljóst að málið ætti heima á borði varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins á vorfundinum. Auk þess kvaðst Lellouche ætla að skrifa formanni bandarísku landsdeildarinnar bréf og vekja athygli bandarískra þingmanna á málinu.
    Þá var rætt um hvernig bregðast skyldi við úrslitum þingkosninga á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna sem fram fóru 25. janúar 2006. Þingi Palestínumanna var veitt áheyrnaraðild að NATO-þinginu á ársfundi þess í Kaupmannahöfn haustið 2005. Pierre Lellouche, forseti NATO-þingsins, taldi erfiðleikum bundið að bjóða fulltrúum palestínska þingsins á fyrirhugaðan vorfund NATO-þingsins í maí eftir kosningasigur Hamas-samtakanna. Hamas væru á alþjóðlegum listum yfir hryðjuverkasamtök og ófært væri að bjóða palestínska þinginu og þar með Hamas á vorfundinn. Miklar umræður spunnust um málið og töldu sumir nefndarmenn að ótækt væri að taka upp samstarf við palestínska þingið, hvetja til lýðræðis og frjálsra kosninga og slíta svo samstarfinu af því sigurvegarar kosninganna eru ekki samkvæmt óskum Vesturlanda. Niðurstaðan var sú að ekki yrði hróflað við áheyrnaraðild palestínska þingsins að NATO-þinginu. Sérstakur fulltrúi NATO-þingsins mundi heimsækja sjálfstjórnarsvæði Palestínumanna og kanna hvort palestínska þingið samþykkti að senda sendinefnd á vorfundinn án Hamasliða. Annars yrði þinginu ekki boðið að senda fulltrúa á vorfundinn.
    Næst var rætt um samstarf NATO-þingsins við Kínverja. Ekki var vilji til að bjóða sendinefnd frá Alþýðuþinginu á vorfundinn í París. Í staðinn var ákveðið að bjóða breiðari sendinefnd með fulltrúum frá ólíkum lögum kínversks samfélags á vorfundinn.
    Þá samþykkti stjórnarnefndin harðorða yfirlýsingu um forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi. Þær einkenndust annars vegar af grófum mannréttindabrotum, ofbeldi gagnvart stjórnarandstöðunni og lokunar óháðra fjölmiðla og hins vegar af stórfelldu kosningasvindli. Kosning Ljúkasjenkó forseta væri því ólögleg og stjórnarnefndin styður kröfuna um nýjar frjálsar kosningar. Jafnframt hvetur stjórnarnefndin öll bandalagsríki NATO til þess að styðja við bakið á lýðræðisöflum í Hvíta-Rússlandi.
    Að lokum var farið yfir fundi fram undan. Sleit Pierre Lellouche svo fundi með því að bjóða alla viðstadda velkomna á vorfund NATO-þingsins sem fram undan var í París í lok maí.

Vorfundur.
    Dagana 26.–30. maí sl. var vorfundur NATO-þingsins haldinn í París. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Össur Skarphéðinsson formaður og Magnús Stefánsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Íslandsdeild lagði sérstaka áherslu á varnar- og öryggismál Íslands á NATO-þinginu eftir ákvörðun Bandaríkjastjórnar frá 15. mars um að kalla varnarliðið heim frá herstöðinni í Keflavík. Upptaka málsins á þinginu var vandlega undirbúin, annars vegar með því að Össur Skarphéðinsson kynnti málið á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins 25. mars og hins vegar með því að Íslandsdeild sendi formönnum allra landsdeilda NATO-þingsins bréf þar sem atburðarásin var skýrð og grein gerð fyrir afstöðu Íslands. Samþykkt var að sérstök umræða færi fram um málið á fundi varnar- og öryggismálanefndar þingsins. Auk þess voru öryggis- og varnarmál Íslands tekin upp í almennri umræðu á fundi stjórnmálanefndarinnar og í fyrirspurnatíma Norður-Atlantshafsráðsins.
    Í almennum stjórnmálaumræðum við upphaf fundar stjórnmálanefndar kvaddi Össur Skarphéðinsson sér hljóðs og greindi frá því að þrátt fyrir að frumskylda og tilgangur NATO væri að tryggja varnir og öryggi aðildarríkjanna væri nú útlit fyrir að Ísland stæði senn varnarlaust eitt NATO-ríkja. Bandaríkjastjórn hefði lýst yfir einhliða ákvörðun sinni um að draga herafla sinn heim mitt í samningaviðræðum við íslensk stjórnvöld og þessi framkoma varpaði skugga á annars nána vináttu þessara tveggja stofnríkja NATO. Össur sagði það mat margra að einhliða ákvörðun Bandaríkjanna væri brot á varnarsamningi ríkjanna frá árinu 1951. Nýjar viðræður stæðu yfir við Bandaríkjamenn um það hvernig þeir hygðust standa við skuldbindingar sínar um að tryggja varnir Íslands samkvæmt varnarsamningnum. Össur taldi víst að ef þær viðræður skiluðu ekki ásættanlegri niðurstöðu þá yrðu Íslendingar að snúa sér til NATO og óska eftir virkri aðkomu bandalagsins að vörnum landsins. Joel Hefley, formaður sendinefndar fulltrúadeildar bandaríska þingsins og formaður varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins, sagði að Bandaríkin hefðu engin áform um annað en að standa við varnarsamninginn. Hins vegar væri hernaðartækni og sýn manna á hernaðarógnir að breytast og hægt væri að fara ólíkar leiðir til að tryggja öryggi Íslands. Verið væri að loka herstöðvum Bandaríkjanna víða um heim en annars vísaði Hefley til fyrirhugaðrar umræðu um þessi mál á fundi varnar- og öryggismálanefndar. Marit Nybakk frá Noregi tók þá til máls og sagði Norðmenn styðja Íslendinga í að ná fram tvíhliða lausn með Bandaríkjunum. Ef það tækist ekki væru Norðmenn tilbúnir að styðja að NATO kæmi sérstaklega að vörnum Íslands. Það væru líka hagsmunir Noregs að tryggja öryggi á norðanverðu Atlantshafi, svæðið væri mjög mikilvægt m.a. með tilliti til framtíðarmöguleika á sviði orkuvinnslu.
    Af öðrum dagskrárliðum stjórnmálanefndar má nefna að lagðar voru fram skýrslur um Afganistan og framtíð NATO, hlutverk NATO varðandi öryggismál í Mið-Asíu og loks um mögulega kjarnorkuvæðingu Íran og afleiðingar þess fyrir samstarfið yfir Atlantsála. Þá var staða Kosovo rædd sérstaklega auk möguleika Úkraínu á að ganga í NATO. Loks flutti Alexander Milinkevich, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, erindi. Össur tók þátt í umræðunni um Afganistan og sagði að þó Íslendingar ættu ekki her þá legðu þeir sitt af mörkum til aðgerða NATO þar í landi og nefndi rekstur Kabúl-flugvallar í því sambandi. Hann sagði tón skýrslunnar of bjartsýnan og ástandið í Afganistan mjög óstöðugt. Forgangsverkefni til að vinna hug og hjörtu afgönsku þjóðarinnar væri að tryggja atvinnu- og tekjumöguleika fyrir hina fátækustu, t.d. smábændur sem standa uppi allslausir þegar valmúaakrar þeirra eru eyðilagðir. Þá væri samræmingu aðgerða herjanna í Afganistan ábótavant.
    Á fundi varnar- og öryggismálanefndar var eins og fyrr sagði efnt til sérstakrar umræðu um varnarmál Íslands. Össur flutti framsögu og lýsti því að þótt varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna væri tvíhliða samningur þá væri hann gerður innan ramma NATO-samstarfsins enda kæmi skýrt fram í honum að Bandaríkin tækju að sér varnir Íslands fyrir hönd NATO. Eftir einhliða ákvörðun Bandaríkjanna um að kalla her sinn heim sæi Ísland fram á að vera varnarlaust eitt NATO-ríkja sem ekki væri ásættanlegt. Sú staða kynni að kalla á virka þátttöku NATO í að tryggja öryggi og varnir landsins. Össur sagðist ekki vilja vera með getgátur um það með hvaða hætti aðkoma NATO gæti orðið en minnti á að NATO hefur komið að því að tryggja loftvarnir þeirra NATO-ríkja sem ekki eiga eigin flugher, þ.e. Eystrasaltsríkjanna, Slóveníu og Lúxemborgar. Joel Hefley, formaður varnar- og öryggismálanefndarinnar, sagðist hafa rætt varnir Íslands við embættismenn úr bandaríska varnarmálaráðuneytinu Pentagon og að það lægi ljóst fyrir að Bandaríkjamenn mundu verja Ísland þó þeir hefðu ekki fast herlið á landinu. Guntis Berzins, formaður lettnesku landsdeildarinnar, tók þá til máls og studdi málstað Íslands og hvatti til þess að varanleg lausn yrði fundin á loftvörnum þeirra NATO-ríkja sem ekki hafa flugher. Rasa Jukneviciene frá Litháen tók undir tillögu Berzins. Hún minnti á að Ísland hefði leikið mikilvægt hlutverk með því að vera fyrst NATO-ríkja til þess að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og lýsti stuðningi við að fundin yrði lausn á öryggismálum Íslands innan NATO ef ekki næðist viðunandi samkomulag milli Íslands og Bandaríkjanna. Norðmaðurinn Per Ove Width sagði varnarmál Íslands ekki tvíhliða mál milli Íslands og Bandaríkjanna heldur mál sem varðaði NATO þar sem varnarlaust Ísland mundi draga mjög úr öryggi á norðanverðu Atlantshafinu. Erfitt væri að spá fyrir um pólitíska þróun í Rússlandi og þó samskipti Rússa og Vesturlanda hefðu verið góð að undanförnu væri engin trygging fyrir því að svo yrði áfram og það þyrfti að hafa í huga. Magnús Stefánsson tók þá til máls og gerði öryggisumhverfi Íslands og mögulegar ógnir að umræðuefni. Öllum væri ljóst að þungamiðja hefðbundinna átaka og ógna hefði flust í austur eftir lok kalda stríðsins og mikil endurskipulagning á herafla NATO stæði yfir til þess að mæta breyttu öryggisumhverfi. Nýjar óhefðbundnar ógnir hefðu leyst hinar hefðbundnu af hólmi og Íslendingar stæðu frammi fyrir þessum ógnum eins og allar aðrar NATO- þjóðir. Magnús lagði áherslu á að landfræðileg lega Íslands sem útvörður NATO í norðanverðu Atlantshafi væri engin vernd í sjálfu sér. Sagði Magnús allt eins hægt að færa rök fyrir því að einangrun Íslands gæti gert landið að skotmarki hryðjuverkamanna ef varnir væru ekki fyrir hendi eða svo langt undan sem nemur viðbragðs- og flugtíma herþota frá erlendum herflugvöllum þúsundir kílómetra í burtu. Helsta hættan væri árás sem beindist gegn flugsamgöngum og flugsamgöngukerfum en íslenska flugstjórnarsvæðið er eitt hið stærsta í heimi með hátt í 100.000 flugvélar á ári á flugi yfir Atlantsála. Þá nefndi Magnús að með fyrirhugaðri olíu- og gasvinnslu Norðmanna í Barentshafi og mögulegri norðursiglingaleið frá Asíu mætti búast við aukinni skipaumferð á Atlantshafi og það krefðist öryggisráðstafana.
    Af öðrum dagskrárliðum varnar- og öryggismálanefndar má nefna skýrslur um lærdóm sem draga má af yfirstandandi aðgerðum NATO, um eflingu hraðaliðs Bandaríkjanna og áhrif þess á samstarfið innan NATO og um hlutverk NATO á Suður-Kákasussvæðinu.
    Á þingfundi NATO-þingsins sat Norður-Atlantshafsráðið og framkvæmdastjóri NATO, Jaap de Hoop Scheffer, fyrir svörum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fyrir hönd Íslandsdeildar spurði Össur de Hoop Scheffer um aðkomu hans og mögulega aðkomu NATO að því að tryggja varnir Íslands. De Hoop Scheffer sagðist fylgjast grannt með gangi viðræðna Íslands og Bandaríkjanna og að hann hefði rætt um þessi mál við Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde. De Hoop Scheffer sagðist ekki geta sagt neitt um aðkomu NATO meðan á tvíhliða viðræðunum stæði en áréttaði að Ísland væri fullgildur aðili að NATO og að bandalagið mundi beita sér í samræmi við það.
    Af öðrum helstu málum vorfundar NATO-þingsins má nefna umbætur á starfsemi þingsins og ályktanir sem samþykktar voru til stuðnings NATO-aðildar Georgíu annars vegar og Albaníu, Króatíu og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu hins vegar.

Aukafundur stjórnarnefndar.
    Föstudaginn 29. september kom stjórnarnefnd NATO-þingsins saman til sérstaks aukafundar í Brussel. Fundinn sat af hálfu Íslandsdeildar Össur Skarphéðinsson formaður, auk Stígs Stefánssonar ritara. Pierre Claude Nolin, varaforseti NATO-þingsins, stýrði fundi nefndarinnar.
    Aðaldagskrármál fundarins var að samþykkja yfirlýsingu um leiðtogafund NATO sem fram undan var í Ríga 28.–29. nóvember. Að öllu jöfnu samþykkir NATO-þingið og sendir frá sér tilmæli og ályktanir á ársfundi sínum að hausti. Sökum þess hve stutt var á milli ársfundar NATO-þingsins í Quebec 13.–17. nóvember og leiðtogafundarins í Ríga var ákveðið að efna til sérstaks aukafundar stjórnarnefndarinnar til að viðhorf NATO-þingsins kæmu fram með meiri fyrirvara. Yfirlýsingin var hugsuð sem innspil NATO-þingmanna til umræðna á leiðtogafundinum. Í yfirlýsingunni var m.a. lögð rík áhersla á að aðgerðir NATO í Afganistan væru prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og nýtt öryggisumhverfi. Styrkja þyrfti aðgerðirnar með fjölgun hermanna og betri búnaði. Þá var í yfirlýsingunni lögð áhersla á að koma á kerfi til þess að kostnaður við aðgerðir NATO yrði greiddur sameiginlega af öllum aðildarríkjum en ekki einungis af þeim ríkjum sem takast á hendur einstök verkefni eins og verið hefur. Enn fremur var í yfirlýsingunni rætt um mikilvægi aðgerða NATO til að tryggja stöðugleika á vestanverðum Balkanskaga. Hvað varðar samskiptin við Rússland var tortryggni sögð standa í vegi fyrir nánara samstarfi en áhersla var jafnframt lögð á að ræða mál eins og mannréttindi, orkuöryggi og nágrannaríki Rússlands á opinskáan hátt. NATO á að vera opið fyrir ríkjum sem deila grunngildum bandalagsins og leiðtogarnir voru hvattir til að gefa skýrt til kynna hvenær Albanía, Króatía og fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedónía gætu vænst boðs um aðild.
    Í fundarlok kvaddi Össur Skarphéðinsson sér hljóðs og gerði grein fyrir stöðu varnar- og öryggismála á Ísland. Össur vísaði til þess að hann hefði tekið fyrirhugað brotthvarf Bandaríkjahers frá Íslandi upp á fundi stjórnarnefndarinnar í Gdynia í Póllandi í mars og á fundum stjórnmálanefndar og varnarmálanefndar NATO-þingsins á vorfundinum í París í maí. Össur sagði síðustu bandarísku hermennina vera að yfirgefa herstöðina í Keflavík enda ætti að loka henni fyrir lok september. Eftir að Bandaríkjamenn tilkynntu það einhliða í mars að stöðinni yrði lokað hófust viðræður bandarískra og íslenskra stjórnvalda um hvernig Bandaríkin hygðust standa við varnarsamninginn frá 1951 þar sem Bandaríkin taka að sér að tryggja varnir Íslands fyrir hönd NATO. Össur upplýsti að samkomulag hefði tekist sem fæli í sér að Bandaríkin hefðu gert varnaráætlun sem ætlað væri að tryggja varnir landsins með hreyfanlegum viðbúnaði og liðsafla. Þá væri ætlunin að halda árlegar tvíhliða eða fjölþjóðlegar heræfingar á Íslandi auk þess sem reglubundnum samráðsfundum um varnar- og öryggismálum yrði komið á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Össur sagðist persónulega telja samkomulagið lélegt. Eftir brotthvarf bandaríska hersins og hið nýja samkomulag við Bandaríkin væri Ísland í mjög sérstakri stöðu innan NATO. Þar sem Ísland hefur ekki eigin her væri landið nú eina NATO-ríkið sem ekki hefði neins konar varanlegar varnir á landssvæði sínu. Enn fremur væri Ísland eina NATO-ríkið án loftvarna þó landið sé langt í frá eina aðildarríki bandalagsins sem ekki á flugher. Loftvarnareftirlit NATO sér um eftirlit með lofthelgi annarra NATO-ríkja sem ekki eiga flugher en það nær ekki til Íslands. Í lokin þakkaði Össur þeim þingmönnum sem hafa stutt málstað Íslands þegar varnar- og öryggismál landsins hafa verið til umræðu á vettvangi NATO-þingsins undanfarna mánuði og tiltók sérstaklega Eystrasaltríkin og Noreg í því sambandi.

Ársfundur.
    Dagana 13.–18. nóvember var ársfundur NATO-þingsins haldinn í Quebec í Kanada. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Össur Skarphéðinsson formaður, Dagný Jónsdóttir og Kjartan Ólafsson í forföllum Einars Odds Kristjánssonar, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Össur sat fundi stjórnmálanefndar, stjórnarnefndar og samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússneska þingsins. Dagný sótti fundi varnar- og öryggismálanefndar og efnahagsnefndar og Kjartan tók þátt í fundum félagsmálanefndar og vísindanefndar. Málefni Afganistans voru í forgrunni á ársfundinum en NATO hefur nýverið aukið umsvif sín í landinu. Af öðrum málum sem voru í brennidepli má nefna kjarnorkuvæðingu Írans og þörfina á sameiginlegum viðbrögðum NATO-ríkjanna gegn henni; samstarfið við þau ríki sem sækjast eftir fullri aðild að NATO, til að mynda Króatíu, Albaníu og Makedóníu sem talið er að verði með í næstu stækkun; og stöðu mála í Kosovo. Auk þess var m.a. rætt um þróun mála í Georgíu og Úkraínu og samband þessara ríkja við Rússland.
    Á fundum stjórnmálanefndar var lögð fram skýrsla um Afganistan og umsvif NATO þar. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003. NATO stækkaði aðgerðasvæði sitt verulega á þessu ári þegar bandalagið tók við stjórn herliðs í suðurhéruðum Afganistans í júlí og austurhluta landsins í október. Sveitir NATO taka nú til alls landsins og í þeim eru 31.000 menn frá 26 NATO-ríkjum og 11 samstarfsríkjum. Aðgerðin í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta í sögu bandalagsins. Hollenski þingmaðurinn Bert Koenders var framsögumaður skýrslunnar og lagði áherslu á að aðgerðirnar í Afganistan væru prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og nýtt öryggisumhverfi. Ýmsar blikur væru á lofti í landinu, árásum vígamanna á öryggissveitirnar og óbreytta borgara fjölgaði í sumar og sjálfsmorðssprengjuárásir sem áður voru óþekktar í Afganistan væru orðnar tíðari. Þá hefði ópíumrækt aukist stórlega og næmu tekjur af eiturlyfjaframleiðslu nú meira en helmingi vergrar landsframleiðslu. Koenders sagði í fyrsta lagi nauðsynlegt að þróa aðgerðir NATO á þann veg að aukið samræmi yrði á milli öryggisaðgerða og uppbyggingarstarfs. Í öðru lagi þyrfti að auka við herlið og búnað í suður- og austurhluta Afganistans til að berjast gegn vígamönnum talíbana og tryggja öryggi. Í þriðja lagi yrði að gera strangar kröfur um að reglum Genfarsáttmálans væri fylgt í öllu starfi NATO til þess að vinna hug og hjörtu afgönsku þjóðarinnar. Í fjórða lagi yrði að knýja á um það við Pakistan að stöðva liðsöflun og þjálfun talíbana þar í landi. Að síðustu væri nauðsynlegt að berjast gegn fíkniefnaframleiðslu og tryggja smábændum aðra möguleika á lífsviðurværi en ópíumrækt.
    Málefni Írans voru einnig á dagskrá stjórnmálanefndarinnar og lagði þýski þingmaðurinn Ruprecht Polenz fram skýrslu um kjarnorkuvæðingu landsins. Í máli hans kom fram að stjórnin í Teheran gæti dregið sig út úr samningnum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna með þriggja mánaða fyrirvara. Kæmist Íran yfir kjarnorkuvopn mundi það leiða til vopnakapphlaups í Miðausturlöndum og auka enn á óstöðugleikann á svæðinu. Þrátt fyrir spennu í samskiptum Írans og Vesturlanda ættu þessi ríki margvíslega sameiginlega hagsmuni sem gætu orðið grunnur að samkomulagi til þess að fá Íran ofan af því að þróa kjarnorkuvopn. Hagkerfi og olíuútflutningur Írans eru háð stöðugleika og friði fyrir botni Persaflóa og Íranir þurfa á erlendri fjárfestingu og tækniþekkingu að halda til að þróa áfram olíuvinnslu sína og taka á miklu atvinnuleysi sem talið er vera um 30%. Íran þarf því á aðgangi að alþjóðlegum mörkuðum og fjármagni að halda. Polenz taldi að hægt væri að koma til móts við Írani í þessum efnum en forsenda þess væri að Vesturlönd mótuðu sér sameiginlega stefnu gagnvart landinu sem kæmi í veg fyrir að stjórnin í Teheran gæti spilað á óeiningu innan bandalagsins. Norður-Atlantshafsráðið væri kjörin vettvangur til slíkrar stefnusamræmingar. Össur Skarphéðinsson tók til máls og kvaðst vonsvikinn að fulltrúar Bandaríkjaþings væru gengnir af fundi. Áhrif nýafstaðinna kosninga í Bandaríkjunum á utanríkisstefnu landsins væru óljós og gætu haft úrslitaþýðingu um það hvort forsendur væru fyrir sameiginlegri stefnu NATO- ríkjanna gagnvart Íran. Össur vitnaði til bandaríska öldungadeildarþingmannsins Gordons Smith sem talað hafði í almennum umræðum nefndarinnar fyrr um daginn og verið opinn fyrir hernaðaraðgerðum gagnvart Íran. Jafnframt benti Össur á það mat sérfræðinga að einfaldar hernaðaraðgerðir, svo sem loftárásir á valin skotmörk sem talin eru tengjast kjarnorkuáætlun Írans, mundu í besta falli tefja en ekki koma í veg fyrir að Íranir komi sér upp kjarnorkuvopnum sé það einbeittur ásetningur þeirra.
    Efnahagsnefnd tók meðal annars fyrir skýrslu um orkuöryggi en það málefni hefur orðið æ fyrirferðarmeira í öryggismálaumræðu á síðustu misserum. Í skýrslunni er m.a. hvatt til samráðs NATO og ESB um hvernig tryggja megi orkuöryggi. Þá er hvatt til samvinnu við Rússland um orkumál, annars vegar til að bæta skilvirkni í orkuvinnslu þar í landi og hins vegar til að hvetja leiðtoga Rússlands til þess að líta á orkuútflutning sinn út frá efnahagslegu sjónarmiði eingöngu en ekki sem diplómatískt vopn. Varað er við því að einstök NATO-ríki verði háð einum eða fáum birgjum við að uppfylla orkuþarfir sínar. Dagný Jónsdóttir tók til máls og benti á að stór hluti ónýttra orkubirgða heimsins væru á norðurskautssvæðinu og að t.d. væri von á stóraukinni olíu- og gasvinnslu Norðmanna í Barentshafi sem væri mikilvægur þáttur í því að tryggja orkuöryggi NATO-ríkjanna. Dagný benti á að þessi vinnsla, auk mögulegrar norðursiglingaleiðar á milli Asíu annars vegar og Evrópu og austurstrandar Bandaríkjanna, mun stórauka skipaumferð á Norður-Atlantshafi en umferð risavaxinna tankskipa með olíu og gas hefur þegar aukist mjög. Það slær því skökku við að á sama tíma hefur NATO dregið úr öryggisviðbúnaði á Norður-Atlantshafi með lokun herstöðvar Bandaríkjamanna í Keflavík. Dagný sagði hegðun Bandaríkjanna í aðdraganda lokunarinnar reyndar vera á mörkum þess sem talist gætu eðlileg samskipti vinaþjóða. Aukið vægi Norður-Atlantshafssvæðisins hvað varðar orkuöryggi NATO kallaði á að ráðstafanir yrðu gerðar til að tryggja öryggi orkuflutninga og annarra samgangna á svæðinu.
    Á fundi stjórnarnefndar tók Össur Skarphéðinsson til máls um starfsáætlun NATO-þingsins fyrir árið 2007 og spurðist fyrir um málstofu um öryggi norðurskautssvæðisins sem mögulega ætti að halda á árinu. Össur benti á aukið vægi svæðisins hvað orkuöryggi varðar og auknar skipasamgöngur. Kvað hann það augljóst hagsmunamál NATO að taka öryggismál nyrstu svæða bandalagsins til endurskoðunar í ljósi þessa og að aukið vægi svæðisins væri í hrópandi mótsögn við minnkaðan öryggisviðbúnað. Fulltrúi Kanada tók undir orð Össurar og staðfesti að málstofan yrði skipulögð og haldin af kanadísku landsdeildinni í ágúst 2007. Í lok fundarins var rætt um næsta ársfund NATO-þingsins sem fram fer í Reykjavík 5.–9. október nk. Össur gerði grein fyrir undirbúningi fundarins. Hann sagði að Ísland væri hið eina af gömlu aðildarríkjunum í NATO sem ekki hefði haldið slíkan fund og sérlega ánægjulegt væri að gera breytingu þar á. Því næst bauð Össur nefndarmenn velkomna til ársfundar í Reykjavík að ári.
    Þingfundur NATO-þingsins fór fram á síðasta degi ársfundarins. Var fundurinn með hefðbundnu sniði, tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Gordon O'Connor, varnarmálaráðherra Kanada, Kolinda Grabar- Kitarovic, utanríkisráðherra Króatíu, og Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO. Þá var hollenski þingmaðurinn Bert Koenders sjálfkjörinn sem forseti NATO-þingsins til næstu tveggja ára og tók hann við embættinu af Frakkanum Pierre Lellouche. Í ræðu sinni lagði Koenders áherslu á mikilvægi aðgerða NATO í Afganistan sem prófsteins fyrir bandalagið. Auk þess ræddi Koenders hlutverk NATO-þingsins gagnvart samstarfslöndum bandalagsins, einkum hvað varðar aðstoð við lönd sem eru að umbreyta efnahags- og stjórnkerfum sínum. Áfram þyrfti að starfa náið með löndunum þremur á Balkanskaga sem sótt hafa um aðild að NATO auk þess sem styrkja þyrfti tengslin við samstarfslöndin á Kákasussvæðinu. Því næst samþykkti þingfundurinn breytingar á þingsköpum. Þá fluttu skýrsluhöfundar framsögur með þeim ályktunum sem málefnanefndirnar lögðu fram og voru þær allar samþykktar. Að lokum samþykkti þingfundurinn formlega yfirlýsingu NATO-þingsins vegna leiðtogafundar NATO í Ríga sem fram undan var 28.–29. nóvember. Listi yfir samþykktar ályktanir er fylgiskjal með skýrslu þessari.

„Transatlantic Forum“.
Dagana 11.–12. desember efndi NATO-þingið og Atlantshafsráð Bandaríkjanna, ásamt National Defence University, til árlegs fundar um helstu málefni Atlantshafssamstarfsins í Washington D.C. Fundurinn nefnist „Transatlantic Forum“ og fór fram í húsakynnum National Defence University í McNair-virki í Washington var þetta í fimmta sinn sem slíkur fundur var haldinn. Þátttakendur voru þingmenn aðildarríkja og aukaaðildarríkja NATO- þingsins auk embættismanna og sérfræðinga í alþjóðamálum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Einar Oddur Kristjánsson varaformaður og Dagný Jónsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Segja má að megintilgangur „Transatlantic Forum“ sé að gera fulltrúum NATO-þingsins kleift að ræða sameiginleg málefni er varða öryggi og varnir Evrópu og Bandaríkjanna við þá aðila í bandaríska stjórnkerfinu sem næstir eru ákvörðunartökuferlinu. Þátttaka hefur verið afar góð á þessum fundum og umræður hreinskiptnar og upplýsandi. Fundurinn var skipulagður á þann hátt að nokkur svið alþjóðamála sem hátt hafði borið á undangengnum missirum voru tekin fyrir. Þar má nefna stöðu NATO-samstarfsins eftir leiðtogafund NATO í Ríga 28.–29. nóvember, hugsanlegar breytingar á utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar eftir þingkosningarnar 7. nóvember þar sem demókratar unnu meiri hluta í báðum deildum Bandaríkjaþings, aðgerðir NATO í Afganistan og framtíðarhorfur þar í landi og ástand mála í Mið- Austurlöndum og baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi. Tilhögun fundarins var sú að bandarískir sérfræðingar héldu framsögur um málefnin og svöruðu svo spurningum þingmanna og annarra þátttakenda á fundinum.
    Umræðan um leiðtogafund NATO í Ríga tengdist umræðunni um ástandið í Afganistan en margir þátttakendur lýstu vonbrigðum sínum með að ekki hefði tekist samkomulag leiðtoganna um að afnema þá fyrirvara og skorður sem mörg aðildarríki hafa sett við því hvernig beita megi hersveitum þeirra í Afganistan. Þessar takmarkanir kveða á um hvers konar aðgerðum hersveitir mega taka þátt í, á hvaða landsvæðum þær mega vera, hvers konar vopnum þær mega beita o.s.frv. Þessir fyrirvarar hafa bundið hendur herforingja NATO-herliðsins og komið veg fyrir að því megi beita af fullu afli og á skilvirkan hátt. Fyrir leiðtogafundinn þrýsti framkvæmdastjóri og herstjórn NATO mjög á um að fyrirvörum yrði fækkað en einungis var komið til móts við þessar kröfur að hluta. Mjög var deilt á fyrirvarana á „Transatlantic Forum“ fundinum. Einn breskur þingmaður sagði þá tifandi tímasprengju og að almenningsálitið í NATO-löndunum gæti snúast gegn bandalaginu ef t.d. hersveitir eins aðildarríkis gætu ekki komið hersveitum annars til bjargar við neyðaraðstæður vegna slíkra fyrirvara. Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, ávarpaði fundinn og tók svo djúpt í árinni að líkja fyrirvörunum við krabbamein innan bandalagsins. Óásættanlegt væri til lengdar að 5–6 aðildarríki bæru hitan og þungan af bardögum á meðan hersveitir annarra sætu hjá. Hann minnti á að ólíkt friðargæsluverkefnum NATO, þar sem hersveitir væru sendar til að standa vörð um frið milli stríðandi fylkinga, þá væri aðgerðin í Afganistan hefðbundin hernaðaraðgerð, sú fyrsta sinnar tegundar í sögu bandalagsins, þar sem NATO- sveitir berðust við vígamenn talíbana. Aukinn liðstyrk þyrfti til landsins auk þess sem aðrar alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankinn og ESB yrðu að koma af fullum krafti að þróunar- og uppbyggingarstarfi í landinu enda væri slíkt ekki á sérsviði NATO. Burns kvað aðgerðina í Afganistan langtímaverkefni og sagðist búast við að sveitir NATO yrðu enn í landinu að 10 árum liðnum.
    Nokkuð var rætt um skiptar skoðanir leiðtoga NATO um samstarf við ríki utan bandalagsins. Sumir telja að leggja skuli áherslu á formlegt samstarfi við ríki utan Evró-Atlantshafssvæðisins sem deila lýðræðisgildum bandalagsins. Í þessu sambandi hefur verið bent á að fjarlæg ríki eins og Japan, Ástralía, Nýja-Sjáland og Suður-Kórea leggja ríkulega til aðgerða NATO, sérstaklega í Afganistan, og deila gildum NATO-ríkjanna á sviði lýðræðis, réttarríkis og mannréttinda. Nicholas Burns sagði Bandaríkjastjórn leggja áherslu á hnattrænt samstarf NATO við þessi ríki og að það hefði verið niðurstaðan á leiðtogafundinum í Ríga. Aðrir fundarmenn bentu á þetta væri ekki óumdeilt, önnur aðildarríki legðu megináherslu á samstarf við ríki innan hins hefðbundna Evró-Atlantshafssvæðis og að orðalag í lokayfirlýsingu leiðtogafundarins væri veikt þegar rætt væri um hnattrænt samstarf og engin ríki væru nefnd á nafn.
    Nancy Pelosi ávarpaði fundinn sem verðandi forseti fulltrúadeild Bandaríkjaþings en við því embætti tók hún 4. janúar 2007. Hún sagði öryggishugtakið sífellt víðara og taka til fleiri sviða og að nú beindust áhyggjur manna ekki síst að efnahagslegu öryggi og öryggisvanda sem getur komið til samfara miklum breytingum á umhverfinu og þá einkum loftslagi. Pelosi sagði að þegar nýtt þing kæmi saman undir forystu demókrata mundi hún beita sér fyrir að skapa þverpólitíska samstöðu um að taka á öryggismálum sem tengjast loftslagsbreytingum og orkuöryggi auk þess að vinna að hefðbundnum sviðum öryggismála
    Dennis Ross, fyrrverandi sendiherra og sérlegur fulltrúi Bandaríkjastjórnar varðandi málefni Mið-Austurlanda, var gestur fundarins. Hann færði rök fyrir því að Bandaríkin ættu að beita sér á ný af fullum þunga fyrir diplómatískri lausn átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Í því sambandi þyrfti í fyrsta lagi að koma á vopnahléi á milli Palestínumanna og Ísraelsmanna og það yrði ekki gert öðruvísi en með nánu samstarfi öryggissveita beggja aðila. Í öðru lagi yrði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu á meðal Palestínumanna um tveggja ríkja lausnina þar sem sjálfstæðu ríki Palestínu yrði komið á fót samhliða fullri viðurkenningu á tilvistarrétti Ísraels. Ross sagði að ekki væri lengur hægt að ganga út frá stuðningi við tveggja ríkja lausnina vísum í ljósi aðgerða Hamas og Hizbollah á undanförnum missirum. Því þyrfti að vinna hörðum höndum að því að tryggja stuðning við lausnina á meðal Palestínumanna. Í þriðja lagi yrði að semja við Sýrland um að láta af öllum stuðningi við Hamas og Hizbollah gegn því að Ísraelsmenn dragi herlið sitt tilbaka frá Gólanhæðum.

Nefndarfundir.
Fulltrúar Íslandsdeildar sóttu einnig nefndarfundi á árinu. Magnús Stefánsson sótti fundi öryggis- og varnarmálanefndar NATO-þingsins í Washington D.C. og San Diego í lok janúar. Össur Skarphéðinsson og Einar Oddur Kristjánsson sóttu fund Miðjarðarhafshóps NATO í Napólí í júlí.

Alþingi, 12. febr. 2007.



Össur Skarphéðinsson,


form.


Einar Oddur Kristjánsson.


Dagný Jónsdóttir.





Fylgiskjal.

Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2006.


Vorfundur í París, 26.–30. maí:
          Yfirlýsing um samband Georgíu og NATO.
          Yfirlýsing til stuðnings NATO-aðildar Albaníu, Króatíu og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu.

Ársfundur í Quebec, 13.–18. nóvember:
          Ályktun um leiðtogafund NATO í Ríga.
          Ályktun um framtíð Bosníu-Herzegóvínu í Evró-Atlantshafssamfélaginu.
          Ályktun um samband Georgíu og Rússlands.
          Ályktun um ítrekun markmiða NATO í Afganistan.
          Ályktun um að efla hnattrænt orkuöryggi.
          Ályktun um 50 ára afmæli uppreisnarinnar í Ungverjalandi árið 1956 og baráttu fyrir frelsi.
          Ályktun um framtíðarstöðu Kosovo.
          Ályktun um samhæfingargetu í aðgerðum.
          Ályktun um kjarnorkutilraunasprengingar Norður-Kóreu.