Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 621. máls.


Þskj. 921  —  621. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lagaákvæðum er varða tollkvóta
við innflutning landbúnaðarafurða.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.
1. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, er orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra úthlutar tollkvótum samkvæmt öðrum skuldbindingum Íslands um innflutning á landbúnaðarvörum í fríverslunar- og milliríkjasamningum en þeim sem tilgreindar eru í 1.–3. mgr. enda sé tollur lagður á vöruna sem magntollur eftir því sem í tollskrá í viðauka I greinir. Um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari málsgrein fer skv. 65. gr. B laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993.

II. KAFLI
Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „tollalög, nr. 55/1987“ í 1. mgr. kemur: tollalög, nr. 88/2005; og í stað orðanna „6. gr. A“ í sömu málsgrein kemur: 12. gr.
     b.      1. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna ,,skv. XIV. kafla tollalaga, nr. 55/1987“ í 4. mgr. kemur: skv. XXII. kafla tollalaga.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. A laganna:
     a.      Í stað orðanna ,,tollalög, nr. 55/1987“ í 1. mgr. kemur: tollalög, nr. 88/2005.
     b.      Í stað orðanna ,,6. gr. A“ í 1. og 2. mgr. kemur: 12. gr.

4. gr.

    Á eftir 65. gr. A laganna kemur ný grein, 65. gr. B, er orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra úthlutar tollkvótum samkvæmt öðrum skuldbindingum Íslands um innflutning á landbúnaðarvörum í fríverslunar- og milliríkjasamningum en þeim sem greinir í 65. gr. og 65. gr. A enda sé tollur lagður á vöruna sem magntollur eftir því sem í tollskrá í viðauka I við tollalög, nr. 88/2005, greinir.
    Um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari grein fer eftir 4. mgr. 12. gr. tollalaga. Úthlutun tollkvóta skal fara eftir ákvæðum 65. gr.
    Landbúnaðarráðherra birtir í reglugerð þær reglur sem gilda um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari grein þar sem m.a. komi fram úthlutunarkvóti, innflutningstímabil, tolltaxtar, viðurlög við misnotkun, sbr. 4. mgr. 65. gr., og aðrir skilmálar sem um innflutninginn skulu gilda.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er landbúnaðarráðherra heimilað að úthluta tollkvótum samkvæmt öðrum skuldbindingum Íslands um innflutning á landbúnaðarvörum í fríverslunar- og milliríkjasamningum en þeim sem tilgreindar eru í 1.–3. mgr. 12. gr. tollalaga.
    Hér má nefna að samkomulag náðist milli Íslands og Evrópusambandsins um sl. áramót um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur en gert er ráð fyrir gildistöku þess 1. mars nk. Samkomulagið er gert á grundvelli 19. gr. EES-samningsins sem kveður á um reglulega endurskoðun á viðskiptum með landbúnaðarafurðir milli EES-aðildarríkjanna og Evrópusambandsins. Umrætt samkomulag er hið fyrsta sem Ísland og Evrópusambandið hafa gert um viðskipti á grundvelli þeirrar greinar. Í samkomulaginu eru m.a. veittir gagnkvæmir tollkvótar.
    Með ákvæði 1. gr. frumvarpsins er landbúnaðarráðherra veitt skýr lagaheimild til að úthluta tollkvótum samkvæmt öðrum skuldbindingum Íslands um innflutning á landbúnaðarvörum en þeim sem lúta að WTO-tollkvótum og viðbótarmagni samkvæmt heimildum er ráðherra hefur í 65. gr. A í búvörulögum.
    Við gildistöku laga nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, var hætt að veita heildsöluleyfi. Því er lagt til í b-lið 2. gr. frumvarpsins að fella brott ákvæðið „Umsókn um tollkvóta má aðeins taka til greina að umsækjandi hafi heildsöluleyfi.“ Samkvæmt ákvæðum laga um verslunaratvinnu er hins vegar skylt að skrásetja verslun í firmaskrá, hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá eða skrá á grundvelli löggjafar um sjálfseignarstofnanir, eftir því sem við á.
    Aðrar breytingar sem frumvarpið felur í sér eru gerðar til samræmis við kafla- og greinaskipan í nýjum tollalögum, nr. 88/2005, sem felldu úr gildi eldri tollalög, nr. 55/1987.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum
er varða tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða.

    Megintilgangur frumvarpsins er að víkka út heimild landbúnaðarráðherra til úthlutunar á tollkvótum fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum. Auk þess eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar orðalagsbreytingar til samræmis við aðrar lagabreytingar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Á hinn bóginn kunna tekjur ríkissjóðs af gjaldi fyrir tollkvóta að aukast en þær ráðast af niðurstöðum útboða.