Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 644. máls.

Þskj. 962  —  644. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og lögum nr. 116/2006,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, með síðari breytingum.
1. gr.

    4. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Við upplýsinga- og gagnaöflun samkvæmt þessari grein skal gæta meðalhófsreglu og að kröfur um upplýsingar og gögn séu í samræmi við tilefni. Upplýsingar og gögn má einungis nýta vegna úrskurðar í einstökum málum, almennum tilgangi skv. 3. gr. eða til að undirbúa ákvarðanir sem Verðlagsstofa skiptaverðs tekur samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

2. gr.

    1. málsl. 6. gr. laganna orðast svo: Verðlagsstofa skiptaverðs skal með athugun einstakra mála og úrtakskönnunum fylgjast með því að við uppgjör á aflahlut áhafna sé lagt til grundvallar söluverðmæti afla með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum og samningum á hverjum tíma.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
3. gr.

    Í stað 4. og 5. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks til fiskiskips skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum. Samningur um fiskverð skal uppfylla kröfur Verðlagsstofu skiptaverðs sem gerðar eru samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, með síðari breytingum. Leiði athugun Verðlagsstofu skiptaverðs í ljós að útgerð skips hafi ekki gert upp við skipverja í samræmi við samning um fiskverð skal stofan þó ekki veita staðfestingu sína nema úr því hafi verið bætt eða hlutaðeigandi útgerð hafi sett fullnægjandi tryggingu fyrir réttu uppgjöri. Þá skal Verðlagsstofa skiptaverðs ekki veita staðfestingu sína hafi útgerð skips ekki veitt stofunni upplýsingar eða afhent henni gögn, sem hún hefur krafist, samkvæmt heimildum í lögum nr. 13/1998, með síðari breytingum, til að ganga úr skugga um að gert hafi verið upp við skipverja í samræmi við samning um fiskverð.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Verðlagsstofa skiptaverðs hefur samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, víðtækar heimildir til að krefjast upplýsinga og gagna til að sinna hlutverki sínu sem er „að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna“, sbr. 1. gr. laganna. Mikilvægur liður í því eftirliti er að fylgjast með því að útgerðir láti skipverja ekki taka þátt í kostnaði af kaupum á veiðiheimildum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Til að koma í veg fyrir það er m.a. mælt svo fyrir í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, að Fiskistofa skuli ekki staðfesta flutning aflamarks nema hún hafi fengið staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs á því að fyrir liggi samningur hlutaðeigandi útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum, sem uppfyllir kröfur sem Verðlagsstofa gerir samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998. Til að fylgjast með því að útgerðarmenn geri upp við áhafnir í samræmi við samninga hefur Verðlagsstofa m.a. beitt úrtakskönnunum. Í því hefur fólgist mikilvægt aðhald fyrir þá sem hlut eiga að máli. Nokkur brögð munu þó hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð og hefur Verðlagsstofa ekki haft nægilega virk úrræði til að bregðast við þegar slík mál hafa komið upp. Það er því þörf á að Verðlagsstofa leggi meiri áherslu á að fylgjast með einstökum útgerðum, sem ástæða er til að ætla að geri ekki upp við áhafnir í samræmi við samninga og fái jafnframt virkari úrræði til að fylgja slíkum málum eftir. Lagafrumvarpi þessu er ætlað að bæta úr þeirri þörf. Verði frumvarpið að lögum mun Verðlagsstofu ekki aðeins vera heimilt og skylt að hafa eftirlit með að fullgildir samningar um fiskverð liggi fyrir heldur ber henni jafnframt, eftir því sem tilefni er til og mögulegt er, að hafa eftirlit með og fylgja því eftir að gert sé upp við skipverja samkvæmt þeim samningum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að ákvæðum 4. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1998 verði breytt þannig að skýrt verði að heimildir Verðlagsstofu skiptaverðs til að krefjast upplýsinga og gagna samkvæmt greininni og að nýta slíkar upplýsingar og gögn nái til þess að undirbúa ákvarðanir um hvort stofan staðfestir samninga um fiskverð en slík staðfesting er forsenda þess að aflamark verði flutt til fiskiskips, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. 3. gr. þessa frumvarps.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að 1. málsl. 6. gr. laganna verði breytt þannig að skýrar verði á um það kveðið en gert er í núgildandi lögum að Verðlagsstofa skiptaverðs skuli með því að athuga einstök mál fylgjast með því að uppgjör á aflahlut áhafnar sé í samræmi við gildandi lög og samninga. Þessi breyting er í samræmi við það markmið lagafrumvarpsins að Verðlagsstofa leggi meiri áherslu á það en stofan hefur hingað til gert að fylgjast með einstökum útgerðum, sem ástæða er til að ætla að láti skipverja taka þátt í kostnaði af kaupum á aflaheimildum.
    

Um 3. gr.

    Hér eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er varða staðfestingar Verðlagsstofu skiptaverðs á samningum um fiskverð. Í núgildandi lögum er kveðið á um að áður en Fiskistofa staðfesti flutning aflamarks skuli hún fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum. Í samræmi við tilgang þessa ákvæðis, sem er að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kostnaði af kaupum á veiðiheimildum, hefur ákvæðinu verið framfylgt þannig að Fiskistofa hefur ekki staðfest flutning aflamarks til fiskiskips nema að fenginni umræddri staðfestingu Verðlagsstofu. Hér er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við þá framkvæmd. Þá er lagt til að við málsgreinina verði bætt ákvæðum þess efnis að leiði athugun Verðlagsstofu skiptaverðs í ljós að útgerð skips hafi ekki gert upp við skipverja samkvæmt samningum um fiskverð skuli stofan ekki staðfesta fiskverðssamning gagnvart Fiskistofu en það hefur þau áhrif að aflamark verður ekki flutt til hlutaðeigandi fiskiskips. Gert er ráð fyrir að í slíkum tilvikum muni Verðlagsstofa ekki veita staðfestingu sína fyrr en útgerð skips hefur leiðrétt uppgjörið eða sett fullnægjandi tryggingu fyrir að réttilega verði gert upp við skipverja ef ágreiningur er um rétt uppgjör með Verðlagsstofu og hlutaðeigandi útgerð. Þá er samkvæmt frumvarpinu gert ráð fyrir að Verðlagsstofa muni ekki heldur veita staðfestingu sína ef útgerð skips hefur ekki veitt stofunni upplýsingar og/eða gögn sem hún hefur krafist samkvæmt heimild í lögum nr. 13/1998, með síðari breytingum, og nauðsynleg eru til að hafa eftirlit með að réttilega sé gert upp við skipverja.
    Um undirbúning og töku ákvarðana Verðlagsstofu um að hafna að staðfesta samninga um fiskverð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og eru þær ákvarðanir kæranlegar til sjávarútvegsráðuneytisins.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að kveða skýrar á um heimildir Verðlagsstofu skiptaverðs til að hafa eftirlit með því að útgerðir geri upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum, og veita stofunni virkari úrræði til að bregðast við séu þeir samningar ekki haldnir.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að vinna hjá Verðlagsstofu skiptaverðs aukist eitthvað og er gert ráð fyrir að sá kostnaður rúmist innan núverandi fjárveitinga stofunnar.