Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 532. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 978  —  532. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um fornleifaskráningu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er staða fornleifaskráningar á Íslandi? Hversu mikið hefur verið skráð af fornleifum skv. 11. gr. þjóðminjalaga, nr. 107/2001, og hvað er eftir?

    Svar þetta byggist á upplýsingum frá Fornleifavernd ríkisins sem hafði samband við þá aðila sem stunda fornleifaskráningu og óskaði eftir nýjustu upplýsingum um hversu mikið af fornleifum (mannvistarleifum) er skráð í gagnagrunna þeirra. Hér er einungis um að ræða fornleifar sem kannaðar hafa verið á vettvangi og staðsettar á korti og þar með vitað að þær eru enn til staðar. Auk þessa hafa vísbendingar um tugi þúsunda fornleifa verið skráðar úr rituðum heimildum en eftir er að kanna þær á vettvangi. Einnig ber að geta þess að hér er ekki um nákvæmar tölur að ræða, en þær ættu þó að vera nokkuð nærri lagi.

Stofnun/fyrirtæki Fjöldi skráðra fornleifa Gagnagrunnur
Þjóðminjasafn Íslands 5.000 Sarpur*
Fornleifastofnun Íslands 20.000 Ísleifur**
Minjasafn Reykjavíkur 1.900 Sarpur/eigin gagnagrunnur
Byggðasafn Skagfirðinga 6.000 Sarpur/eigin gagnagrunnur
Byggðasafn Árnesinga 470 Sarpur
Fornleifafræðistofa Íslands 3.000 Fornleifaskrá Fornleifafræðistofu Íslands
Byggðasafn Hafnarfjarðar 590 Fornleifur
Byggðasafn Reykjaness 450 Fornleifaskrá Byggðasafns Reykjaness
Fornleifavernd ríkisins 500 Sarpur/eigin grunnur***
Að auki hafa verið skráð um 450 minningarmörk í 20 kirkjugörðum í Kjalarnes- og Borgarfjarðarprófastdæmum á vegum Fornleifaverndar ríkisins.
*    Mikið af fornleifum er skráð frá fyrri tíð á vegum Þjóðminjasafns, en upplýsingar einungis handskrifaðar.
**    Fornleifastofnun áætlar að við þetta muni bætast uþb 2500 fornleifar fyrir sumarið vegna verkefna sem þegar eru hafin.
***    Hér er að mestu um að ræða friðlýstar fornleifar.

    Alls hafa því verið skráðar uþb. 38.400 fornleifar á landinu öllu. Þessari tölu ber þó að taka með ákveðnum fyrirvara þar sem vegna fjölda gagnagrunna er líklegt að einhverjar fornleifar hafi verið tví- og jafnvel þrískráðar.
    Ómögulegt er að segja með einhverri vissu til um fjölda þeirra fornleifa sem eftir er að skrá. Áætlanir gera ráð fyrir að allt frá 150.000 upp í 250.000 fornleifar séu á landinu. Þó er hægt að komast nærri fjölda ákveðinna tegunda fornleifa eins og til dæmis minningarmarka (legsteina, girðinga og umbúnaðar leiða) í kirkjugörðum. Um það bil 260 kirkjugarðar eru þekktir í landinu. Að meðaltali eru um 10 minningarmörk í hverjum garði sem eru eldri en 100 ára og enn til staðar í görðunum. Því má ætla að fornleifar af þessari gerð einni séu u.þ.b. 2600 talsins. Fornleifavernd hefur látið skrá öll minningarmörk í Hólavallagarði, bæði þau sem eru 100 ára og eldri og eins yngri minningarmörk. Fyrir nokkrum árum hafði Þjóðminjasafn Íslands látið skrá öll minningarmörk sem voru á þeim tímapunkti eldri en 100 ára og voru þau 223. Það sem Fornleifavernd hefur af minningarmörkum og gerðum reyndust vera 7465 minjar og eru þá meðtalin 223 minningarmörk sem skráð voru af Þjóðminjasafninu.
    Ef gert er ráð fyrir að fornleifar í landinu séu 200.000 talsins hafa einungis tæp 20% þeirra verið skráð. Það er þó afar misjafnt eftir sveitarfélögum hversu mikið hefur verið skráð. Sum hafa nær lokið skráningu og í öðrum hefur engin skráning farið fram.