Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 83. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 986  —  83. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um útvíkkun fríverslunarsamnings Færeyja og Íslands (Hoyvíkur-samningsins).

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Þórarinsson frá Vestnorræna ráðinu og Berglindi Ásgeirsdóttur og Friðrik Jónsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina, í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að ræða möguleikann á því að löndin geri með sér samkomulag um að útvíkka fríverslunarsamninginn sem Færeyjar og Ísland hafa gert með sér. Með ályktun nr. 1/2006 sem Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundi 21. ágúst 2006 var samþykkt að skora á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að gera samkomulag um útvíkkun fríverslunarsamningsins.
    Markmið Hoyvíkur-samningsins er að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja og tekur samningurinn til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, staðfesturéttar, samkeppni, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa auk fleiri atriða. Við fullgildingu samningsins á 132. löggjafarþingi, lýsti nefndin þeirri skoðun sinni í nefndaráliti (þskj.1223, 683. mál) að samningurinn væri mikilvægur áfangi í samvinnu og auknum viðskiptum milli Vestur-Norðurlanda og lagði áherslu á að kannað yrði að veita Grænlandi aðild að samningnum eins og 11. gr. hans gerði ráð fyrir og mynda þannig eitt vestnorrænt efnahagssvæði.
    Nefndin áréttar fyrri afstöðu sína og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 21. febr. 2007.



Jón Kristjánsson,


varaform., frsm.


Jón Gunnarsson.


Drífa Hjartardóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Bjarni Benediktsson.