Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 84. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 987  —  84. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Þórarinsson frá Vestnorræna ráðinu og Berglindi Ásgeirsdóttur og Friðrik Jónsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi beini þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hún, í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, móti sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd. Með ályktun nr. 4/2006 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 21. ágúst 2006 samþykkti ráðið að beina þeim tilmælum til ríkisstjórna Íslands, Færeyja og Grænlands að mótuð yrði sameiginleg stefna í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd sem svæði en í því fælist m.a. sameiginleg markaðssetning og aukið samstarf um ferðamálamenntun.
    Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað er talið brýnt að loftferðasamningar verði teknir til endurskoðunar og endurnýjunar til að auka möguleika ferðaþjónustuaðila við að gera Vestur-Norðurlönd að raunhæfum og aðlaðandi valkosti í ferðaþjónustu og gildir það einkum um flugumferð til og frá Grænlandi. Nefndin vekur athygli á því að rétt sé að taka þetta atriði til sérstakrar skoðunar við stefnumótunina.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 21. febr. 2007.



Jón Kristjánsson,


varaform., frsm.


Jón Gunnarsson.


Drífa Hjartardóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Bjarni Benediktsson.