Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 450. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 993  —  450. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sesselju Árnadóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félagsmálaráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Starfsgreinasambandi Íslands, Viðskiptaráði Íslands og Jafnréttisstofu.
    Hugsunin með stofnun evrópsks samvinnufélags er sú að losa aðila sem kjósa að reka starfsemi í fleiri en einu ríki Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli slíks félagsforms undan því óhagræði og kostnaðarauka sem fylgir því að þurfa að stofna útibú í samræmi við löggjöf viðkomandi aðildarríkja þar sem starfsemi er fyrirhuguð. Reglugerð ráðsins (EB) 1435, sbr. nú lög nr. 92/2006, gerir því ráð fyrir að evrópskt samvinnufélag þurfi einungis að starfa samkvæmt þeim meginreglum sem þar er lýst, nokkrum viðbótarákvæðum í landslögum skráningarríkisins og félagssamþykktum sínum. Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar kemur fram að óheimilt sé að skrá evrópskt samvinnufélag nema tilhögun á aðild starfsmanna að félaginu sé í samræmi við ákvæði tilskipunar 2003/72/EB. Með frumvarpinu stendur til að innleiða ákvæði umræddrar tilskipunar.
    Stofnun evrópsks samvinnufélags getur borið að með mismunandi hætti en markmið frumvarpsins er að tryggja að réttindi starfsmanna til aðildar gagnvart stofnendunum skerðist ekki við þann gerning. Með aðild er að meginstefnu til átt við rétt starfsmanna til upplýsinga, samráðs og þátttöku í málefnum lögaðila sem þeir starfa hjá.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að eftir að fyrirsvarsmenn stofnenda hafa tilkynnt starfsmönnum sínum fyrirætlanir sínar um stofnun evrópsks samvinnufélags skuli komið á fót sérstakri samninganefnd, skipaðri fulltrúum starfsmanna, sem hefur það hlutverk að ná samkomulagi við stofnendurna um fasta tilhögun aðildar innan evrópska samvinnufélagsins. Er í frumvarpinu mælt fyrir um hvernig haga skuli kjöri fulltrúa í sérstöku samninganefndina og hvernig ákvarðanir eru teknar innan hennar. Samningsaðilar geta einnig samið svo um að um tilhögun aðildar skuli fara eftir ákvæðum III. kafla frumvarpsins þar sem er að finna almenn fyrirmæli um upplýsingamiðlun, samráð og þátttöku. Ákvæði kaflans gilda jafnframt þegar aðilar ná ekki samkomulagi innan tilskilins samningsfrests og þegar sérstaka samninganefndin ákveður að slíta samningaviðræðum.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að engin evrópsk samvinnufélög eru skráð hér á landi og því er ekki líklegt að frumvarpið muni hafa teljandi áhrif á íslenskan vinnumarkað, að minnsta kosti ekki að svo stöddu. Að gefnu tilefni er athygli þó vakin á þeim sjónarmiðum sem fram komu í áliti nefndarinnar frá 29. nóvember 2006 varðandi upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, sbr. núgildandi lög nr. 151/2006.
    Með hliðsjón af tilskipun 2003/72/EB eru lagðar til breytingar á 4., 5., 6., 10. og 14. gr. frumvarpsins sem ætlað er að færa orðalag til betra horfs.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Alþingi, 21. febr. 2007.



Dagný Jónsdóttir,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Lúðvík Bergvinsson.



Einar Oddur Kristjánsson.


Jóhann Ársælsson.


Ellert B. Schram.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Svanhvít Aradóttir.


Valdimar L. Friðriksson.