Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 465. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1009  —  465. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Róbert Ragnar Spanó prófessor, Pál Winkel frá embætti ríkislögreglustjórans, Svein I. Magnússon og Steinar Adolfsson frá Landssambandi lögreglumanna og Guðbjörn Guðbjörnsson frá Tollvarðafélagi Íslands. Umsagnir bárust um málið frá Tollvarðafélagi Íslands, ríkissaksóknara, Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi lögreglumanna, ríkislögreglustjóranum, Lögmannafélagi Íslands og refsiréttarnefnd.
    Í frumvarpinu er lagt til að refsihámark 106. gr. almennra hegningarlaga sem tekur til brota gegn valdstjórninni verði hækkað úr allt að sex ára fangelsi í allt að átta ára fangelsi þegar um er að ræða brot gegn opinberum starfsmanni sem hefur heimild samkvæmt lögum til líkamlegrar valdbeitingar. Með þessari breytingu er stefnt að því að refsingar fyrir brot gegn þessum aðilum verði þyngri, en eins og fram kemur í fylgiskjali I með frumvarpinu hefur sú refsivernd sem veitt er með ákvæði 106. gr. ekki endurspeglast nægjanlega vel í dómaframkvæmd.
    Nefndin tók til sérstakrar umræðu hvort bæta ætti við frumvarpið bundinni refsihækkunarheimild sem mælti fyrir um tiltekna lágmarksrefsingu fyrir alvarleg brot þar sem efasemdir voru uppi meðal nefndarmanna um að það mundi nægja eitt og sér að hækka hámarksrefsingu fyrir þau brot sem frumvarpið tekur til. Þetta á sérstaklega við í ljósi þess að refsiramminn virðist illa nýttur af dómstólum. Eftir nokkra umræðu varð niðurstaðan hins vegar sú að með frumvarpinu væru send skýr skilaboð um þyngri dóma fyrir brot af þessu tagi. Því leggur nefndin ekki til að svo stöddu að bundinni lágmarksrefsingu verði bætt við ákvæði frumvarpsins, en leggur áherslu á að breytingin nái tilgangi sínum og að þyngri refsingum verði beitt í málum af þessu tagi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 27. febr. 2007.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Guðjón Ólafur Jónsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Björgvin G. Sigurðsson.


Birgir Ármannsson.


Ellert B. Schram.



Kjartan Ólafsson.


Ingvi Hrafn Óskarsson.


Sigurjón Þórðarson.