Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 430. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1028  —  430. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur og Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Ólöfu Emblu Einarsdóttur frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tillagan var sent út til umsagnar og bárust umsagnir frá Kauphöll Íslands, Samtökum fjárfesta, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2005 frá 30. september 2005, um breytingu á IX. Viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í hann tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB.
    Tilskipunin mælir fyrir um samræmingu reglna um birtingu reglulegra og viðvarandi upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað. Samkvæmt tilskipuninni skal útgefandi gera reglulega opinberar tilteknar upplýsingar en það eru ársskýrsla, hálfsársuppgjör og skýrsla framkvæmdastjórnar. Þá er gert ráð fyrir viðvarandi upplýsingaskyldu um breytingar á yfirráðum yfir verulegum eignarhluta, atkvæðisrétti o.fl. Í tilskipuninni felst lágmarkssamræming á reglum en einstök ríki geta gert strangari kröfur.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi en lagafrumvarp þess efnis hefur enn ekki verið lagt fram á Alþingi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.


Alþingi, 28. febr. 2007.

Jón Kristjánsson,
varaform., frsm.
Össur Skarphéðinsson.
Jón Gunnarsson.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Sigurrós Þorgrímsdóttir.