Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 436. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 1039  —  436. mál.
Texti felldur brott.




Nefndarálit



um frv. til breyt. á l. um fjarskipti, nr. 81/2003.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl Alvarsson, Jón Eðvald Malmquist og Kristrúnu Lind Birgisdóttur frá samgönguráðuneytinu, Hrafnkel V. Gíslason og Björn Geirsson frá Póst- og fjarskiptastofnun, Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, Pál Ásgrímsson frá Símanum hf., Dóru Sif Tynes frá Og fjarskiptum ehf. og Ísak Jón Benjamínsson frá INTER – samtökum aðila er veita internetþjónustu. Umsagnir um málið hafa borist frá Neytendasamtökunum, Og fjarskiptum ehf., Samtökum atvinnulífsins, Persónuvernd, Ríkisútvarpinu, Símanum hf., Bændasamtökum Íslands, talsmanni neytenda og Herði Einarssyni.
    Megintilgangur þessa frumvarps er að auka öryggi í fjarskiptum og neytendavernd og styrkja þau ákvæði fjarskiptalaga, nr. 81/2003, sem fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs. Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er rýmkun á skilgreiningu hugtaksins fjarskiptaþjónusta með því að fella tölvupóstsþjónustu og netaðgang þar undir. Einnig er lagt til að kveðið verði á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að skjalfesta hvernig staðið er að upplýsingaöryggi. Þá er lagt til að bannað verði að koma fyrir njósnahugbúnaði, vefhlerunarbúnaði eða öðrum slíkum búnaði í endabúnaði notenda án vitundar þeirra og að reglur um óumbeðin fjarskipti verði einnig látnar gilda um smáskilaboð. Auk framangreinds eru lögð til ýmis ákvæði um neytendavernd, m.a. um að fjarskiptafyrirtækjum sé óheimilt að semja við áskrifendur um lengri binditíma en sex mánuði.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagðar eru til smávægilegar orðalagsbreytingar í b-lið 8. gr. frumvarpsins.
     2.      Lagt er til að 3. mgr. b-liðar 9. gr. frumvarpsins verði skipt upp í tvær málsgreinar þannig að síðari málsliður ákvæðisins verði sérstök málsgrein. Er þetta gert í því skyni að tryggja skýrari framsetningu ákvæðisins.
     3.      Auk þess er lagt til að bætt verði við ákvæðið að notandi hafi rétt til að hafna notkun njósnahugbúnaðar, vefhlerunarbúnaðar eða annars slíks búnaðar sem komið er fyrir í endabúnaði hans til að fá aðgang að upplýsingum, safna földum upplýsingum eða fylgjast með athöfnum hans. Er þetta í samræmi við ákvæði 3. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/58/EB um vinnslu persónuupplýsinga og einkalífsvernd í fjarskiptum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 6. mars 2007.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.



Kristján L. Möller.


Guðjón Hjörleifsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Jón Kristjánsson.


Guðjón A. Kristjánsson.