Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 571. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1092  —  571. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2006, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 127/2006 frá 22. september 2006, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB frá 26. október 2005 um samruna hlutafélaga yfir landamæri.
    Markmið tilskipunarinnar er að auðvelda hlutafélögum samruna milli landa en lagalegir og stjórnsýslulegir erfiðleikar hafa hamlað á þessu sviði þrátt fyrir það lagaumhverfi sem áður hefur verið komið á með EES-gerðum á sviðinu. Til þess að reglur tilskipunarinnar eigi við um samruna þarf að vera um samruna hlutafélaga frá minnst tveimur EES-ríkjum að ræða.
    Lagafrumvarp sem ætlað er að innleiða efni tilskipunarinnar í íslenskan rétt hefur verið til meðferðar á Alþingi (þskj. 779, 516. mál) og mælti efnahags- og viðskiptanefnd með samþykkt þess á fundi 8. mars sl. Nefndin vekur athygli á að verði það mál að lögum er enn eftir að innleiða ákvæði 16. gr. tilskipunarinnar sem er á málefnasviði félagsmálaráðuneytis, en lagafrumvarp verður ekki lagt fram fyrr en á haustþingi. Frestur til að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt er til 15. desember 2007, sbr. 19. gr. hennar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. mars 2007.



Jón Kristjánsson,


varaform., frsm.


Össur Skarphéðinsson.


Drífa Hjartardóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Sæunn Stefánsdóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.