Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 669. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1104  —  669. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Friðriksson og Atla Má Ingólfsson frá landbúnaðarráðuneyti, Jóhannes Sigfússon, Jóhönnu Pálmadóttur, Fanneyju Ólöfu Lárusdóttur og Björn Elíson frá Landssamtökum sauðfjárbænda, Gunnar Sæmundsson frá Bændasamtökum Íslands, Jóhannes Gunnarsson og Ólaf Klemensson frá Neytendasamtökunum og Stefán Úlfarsson frá ASÍ. Þá hefur nefndinni borist umsögn frá Samtökum verslunar og þjónustu.
    Frumvarp þetta er samið á grundvelli samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar milli ríkis og Bændasamtaka Íslands frá 25. janúar 2007. Samningurinn er gerður á grundvelli 30. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, og er markmið hans einkum að efla framþróun innan sauðfjárræktar, stuðla að sjálfbærri nýtingu, tryggja jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, bæta afkomu sauðfjárbænda og styrkja landsbyggðina. Gildistími er til sex ára frá 1. janúar 2008.
    Í samningnum er gerð grein fyrir því hvernig heildarframlög ríkisins til sauðfjárbænda skuli skiptast milli mismunandi flokka, þ.e. beingreiðslu, gæðastýringar, ullarnýtingar, markaðsstarfs og birgðahalds, nýliðunar- og átaksverkefna og svæðisbundins stuðnings. Bændasamtök Íslands munu hafa umsjón með ráðstöfun á hluta þessa fjár og setja sér verklagsreglur um úthlutun greiðslna sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Heildarframlög ríkisins munu lækka ár frá ári út samningstímann, þ.e. munu fara úr 3.348 millj. kr. á ári í upphafi og verða á lokaári samningsins 3.197 millj. kr.
    Samningurinn gerir ráð fyrir að reglur um greiðslumark og aðilaskipti að því haldist óbreyttar. Skráð greiðslumark er ákveðið viðmið sem veitir handhafa rétt til beingreiðslna úr ríkissjóði í réttu hlutfalli við tiltekinn fjölda ærgilda. Greiðslumarkið er bundið við lögbýli og er framsal þess milli lögbýla heimilt að nánar tilgreindum skilyrðum. Lagt er til að jöfnunargreiðslur verði framvegis umreiknaðar í greiðslumark og mun heildargreiðslumark því aukast í samræmi við það og verða 368.457 ærgildi. Heildarbeingreiðslur á ári munu að öðru leyti skiptast hlutfallslega eins milli lögbýla og á árinu 2007. Álagsgreiðslur vegna gæðastýringar munu aukast og greiðslur vegna ullarframleiðslu haldast óbreyttar sem lýsir áframhaldandi áherslu samningsaðila á ullargæði. Aukin áhersla verður lögð á markaðsstarf sauðfjárbænda en þó munu framlög til þessa flokks, að meðtöldu birgðahaldi, lækka á samningstímanum. Framlög til nýliðunar hafa ekki verið útfærð. Af framangreindu leiðir að hlutfall samningsfjárhæðar sem greitt er beint til bænda hækkar á samningstímanum og þá er í samningnum að finna sérstakt ákvæði um búskaparlok sem felur í sér að bændur sem orðnir eru 64 ára eiga þess kost að láta af framleiðslu en halda óskertum beingreiðslum.
    Í samningnum er gengið út frá því að hvor samningsaðili geti óskað eftir viðræðum um endurskoðun á einstökum atriðum samningsins og einnig er fyrirvari gerður um endurskoðun ef forsendur breytast í kjölfar samningaviðræðna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Þrátt fyrir að frumvarp þetta sé samið á grundvelli samnings um skilyrði sauðfjárræktar er í því einnig að finna nokkrar breytingar á ákvæðum laganna sem ekki leiðir beint af efni samningsins, sbr. t.d. 16. og 22. gr. frumvarpsins. Hins vegar ber að geta þess að í tengslum við afnám útflutningsskyldu er lagt til í 21. gr. að samningsskylda Bændasamtaka Íslands og sláturleyfishafa um verkaskiptingu við slátrun og verkun sauðfjár- og stórgripaafurða til sölu á erlendum markaði verði felld brott.
    Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að veigamesta breytingin og sú sem mestur styr hefur staðið um varðar afnám útflutningsskyldu kindakjöts frá 1. júní 2009. Bændasamtökin hafa lýst yfir þeirri skoðun sinni að þrátt fyrir að samkomulag hafi tekist um þetta umdeilda atriði hafi ekki staðið til að leggja fram lagabreytingu þessa efnis fyrr en á hausti komanda. Að öðru leyti eru samningsaðilar á einu máli um að nýi samningurinn sé gegnsærri en gildandi samningur sem jafnframt á að leiða til þess að lagatextinn verði skýrari. Því til stuðnings má benda á þær greinar frumvarpsins sem varða breytingar á fyrirkomulagi gæðastýringar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Bjarnason og Gunnar Örlygsson skrifa undir álitið með fyrirvara. Jón áskilur sér jafnframt rétt til að koma fram með eða styðja breytingartillögu.
    Einar Már Sigurðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Magnús Þór Hafsteinsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Alþingi, 12. mars 2007.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Gunnar Örlygsson,


með fyrirvara.



Guðmundur Hallvarðsson.


Birkir J. Jónsson.


Jón Bjarnason,


með fyrirvara.