Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 617. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1107  —  617. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Frey Guðmundsson og Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneytinu. Nefndinni bárust einnig umsagnir um málið.     
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem nauðsynlegt er að gera til að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 frá 27. október 2004, um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd, en fyrir þinginu liggur nú frumvarp til laga um innleiðingu á þeirri reglugerð.
    Breytingar frumvarpsins miða að því að tryggja að þau stjórnvöld sem fara með framkvæmd þeirra laga sem reglugerðin tekur til og tilnefnd hafa verið af Íslands hálfu sem lögbær stjórnvöld hafi þær heimildir sem gerð er krafa um í reglugerðinni. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja eftirfylgni við lagaákvæði á sviði neytendaverndar, einkum þegar um viðskipti yfir landamæri er að ræða.
    Nefndin leggur til að þær heimildir Neytendastofu til vettvangsrannsókna sem mælt er fyrir um í frumvarpinu nái einnig til heimildar Neytendastofu til að leggja hald á gögn sem kunna að finnast við vettvangsrannsókn. Þá leggur nefndin til að nokkur ákvæði falli brott þar sem þau hafa verið færð yfir í annað frumvarp sem hún hefur haft til meðferðar (378. mál).
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      Á eftir orðunum „lög þessi taka til“ í 1. efnismgr. 1. gr. komi: og lagt hald á gögn.
     2.      II.–IV. kafli falli brott.

    Jóhanna Sigurðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. mars 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Birkir J. Jónsson.


Lúðvík Bergvinsson.



Birgir Ármannsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Ásta Möller.



Sæunn Stefánsdóttir.


Ögmundur Jónasson.