Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1128  —  273. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um embætti landlæknis.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur og Ágúst Geir Ágústsson frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Karl Steinar Guðnason og Ingibjörgu Þorsteinsdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins, Þórdísi Kristmundsdóttur frá Háskóla Íslands, Jóhannes M. Gunnarsson og Jóhannes Pálmason frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Önnu Elísabetu Ólafsdóttur og Jakobínu H. Árnadóttur frá Lýðheilsustöð.
    Umsagnir um málið hafa borist frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla, MND-félaginu, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Kennaraháskóla Íslands, Persónuvernd, Heilbrigðisstofnun Blönduósi, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Iðjuþjálfafélagi Íslands, umboðsmanni barna, Bandalagi íslenskra græðara, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Lýðheilsustöð, Sjónarhóli, Þroskahjálp, Hjartaheillum, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Sjúkranuddarafélagi Íslands, Félagi geislafræðinga, Alþýðusambandi Íslands, Lífsvog, Matvæla- og næringarfræðafélagi Íslands, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, Tannlæknafélagi Íslands, Krabbameinsfélagi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Heilbrigðisstofnun Austurlands, landlækni, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Tryggingastofnun ríkisins, Háskóla Íslands og Lögmannafélagi Íslands.
    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu. Með frumvarpinu er lagt til að ýmis efnisákvæði laga um heilbrigðisþjónustu og annarra laga er kveða á um hlutverk landlæknis verði færð yfir í sérstök lög um landlækni. Markmið frumvarpsins er að kveða skýrar á um ráðgjafarhlutverk landlæknis, eftirlit hans með heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisþjónustu, upplýsingasöfnun og skýrslugerð á heilbrigðissviði sem og meðferð kvartana og kæra almennings vegna heilbrigðisþjónustu.
    Nokkur umræða var í nefndinni um 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins sem felur í sér heimild notenda heilbrigðisþjónustu og aðstandenda þeirra til að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu og ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanna. Nefndin telur að auk framangreindra aðila heimili ákvæðið heilbrigðisstarfsmönnum, heilbrigðisstofnunum og opinberum aðilum að koma á framfæri ábendingum til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka heilbrigðisstarfsmanna.
    Auk orðalagsbreytinga og breytinga á uppsetningu einstakra ákvæða leggur nefndin til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra skuli, að fengnum tillögum landlæknis, mæla fyrir um faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu á einstökum sviðum í reglugerð. Nefndin leggur til að ráðherra skuli hafa samráð við viðkomandi heilbrigðisstéttir við slíka reglusetningu, enda búa þær yfir sérþekkingu, hver á sínu sviði.
     2.      Í 1. málsl. 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að landlæknir staðfesti hvort fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf. Lagt er til að við ákvæðið bætist nýr málsliður þar sem kveðið verði á um að hið sama gildi þegar ráðherra endurnýjar samninga við heilbrigðisstofnanir. Nefndin telur eðlilegt að landlæknir gangi úr skugga um að rekstur heilbrigðisþjónustu uppfylli faglegar kröfur og skilyrði laga þegar samningar við heilbrigðisstofnanir eru endurnýjaðir í samræmi við eftirlitshlutverk hans.
     3.      Í 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu. Lagt er til að 7. mgr. 6. gr. um greiðsluþátttöku ríkisins í kostnaði við heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan heilbrigðisstofnana sem ríkið rekur falli brott, enda tengist umrætt ákvæði ekki faglegum kröfum til reksturs heilbrigðisþjónustu. Sambærilegt ákvæði er í 7. mgr. 26. gr. frumvarps til laga um heilbrigðisþjónustu sem lagt var fram á Alþingi samhliða frumvarpi þessu og telur nefndin nægilegt að framangreint ákvæði verði að finna þar.
     4.      Í 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins er að finna tæmandi upptalningu á heilbrigðisskrám sem landlæknir skipuleggur og heimilt er að færa í upplýsingar um nöfn sjúklinga, kennitölur og önnur tiltekin persónuauðkenni án samþykkis sjúklinga. Lagt er til að skrá um taugasjúkdóma bætist við þessa upptalningu og að í hana verði skráðar upplýsingar um alla taugasjúkdóma sem greinast á Íslandi. Einnig er lagt til að þar séu m.a. skráðar upplýsingar um sjúkdóminn, meðferð og árangur meðferðar og afdrif sjúklinga. Upplýsingar í skrána skulu koma frá heilbrigðisstofnunum, rannsóknastofum og sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum auk þess sem upplýsingar eru unnar upp úr dánarvottorðum. Úr skránni skulu m.a. unnar upplýsingar um algengi og nýgengi taugasjúkdóma. Nefndin telur að framangreind breyting sé mikilvæg í því skyni að gefa aðilum kost á afla upplýsinga og stunda rannsóknir á taugasjúkdómum hér á landi.
     5.      Lagt er til að þeir mælikvarðar sem kveðið er á um í 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins verði settir af ráðherra með reglugerð.
     6.      Lagt er til að á eftir 1. málsl. 5. mgr. 12. gr. bætist nýr málsliður þar sem kveðið verði á um heimild sérfræðinga og landlæknis að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Nefndin áréttar þó mikilvægi þess að við beitingu slíkrar heimildar verði ekki gengið lengra en nauðsynlegt er með tilliti til sjónarmiða um friðhelgi einkalífs og sjálfsákvörðunarréttar einstaklinga.
     7.      Lagt er til að í 1. mgr. 13. gr. frumvarpsins verði kveðið á um að landlæknir hafi eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar við störf sín og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við á. Nefndin telur mikilvægt að eftirlit landlæknis lúti ekki eingöngu að því að heilbrigðislöggjöf sé uppfyllt heldur einnig að heilbrigðisstarfsmenn uppfylli þær skyldur sem kunna að vera lagðar á þær í öðrum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.
     8.      Lagt er til að fyrirsögn 15. gr. frumvarpsins verði: „Svipting og brottfall starfsleyfis“ enda tekur ákvæðið til beggja tilvika. Auk þessa eru lagðar til breytingar á orðalagi og uppsetningu ákvæðisins.
     9.      Lagt er til að í stað orðsins „leyfis“ í 1.–2. málsl. 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins komi: „réttar“, enda er ekki gefið út sérstakt leyfi til lækna og tannlækna til að ávísa lyfjum. Í samræmi við þetta er lagt til að á eftir orðunum „afturkallað sviptingu“ í 20. gr. komi: „réttar“.
     10.      Lagt er til að heiti frumvarpsins verði breytt í frumvarp til laga um landlækni.
     11.      Samkvæmt 23. gr. frumvarpsins munu lögin öðlast gildi 1. júlí 2007. Lagt er til að gildistöku frumvarpsins verði frestað til 1. september 2007 svo að nægur tími gefist til undirbúnings.
     12.      Lögð er til breyting á 30. gr. læknalaga, nr. 59/1988, í samræmi við þær breytingar sem leiðir af frumvarpi þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Valdimar L. Friðriksson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 12. mars 2007.



Guðjón Ólafur Jónsson,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir.



Guðrún Ögmundsdóttir.


Pétur H. Blöndal.


Kristján L. Möller.



Gunnar Örlygsson.


Sæunn Stefánsdóttir.