Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 574. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1163  —  574. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010.

Frá samgöngunefnd.



    Á fund nefndarinnar komu Ragnhildur Hjaltadóttir, Kristrún Lind Birgisdóttir, Jóhann Guðmundsson og Eiríkur Bjarnason frá samgönguráðuneytinu, Pétur K. Maack og Halla Sigrún Sigurðardóttir frá Flugmálastjórn Íslands, Þorgeir Pálsson frá Flugstoðum, Hermann Guðjónsson og Sigurður Áss Grétarsson frá Siglingastofnun Íslands og Jón Rögnvaldsson og Eymundur Runólfsson frá Vegagerðinni. Þá komu á fund nefndarinnar fulltrúar frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Eyþingi og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.
    Umsagnir um málið hafa borist frá Félagi hópferðaleyfishafa, Húnavatnshreppi, Akureyrarbæ, Byggðastofnun, Vegagerðinni, Akureyrarflugvelli, Grundarfjarðarbæ, Mýrdalshreppi, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Reykjavíkurborg, Mýflugi hf., Svalbarðsstrandarhreppi, Hafnasambandi Íslands, Hveragerðisbæ, rannsóknarnefnd sjóslysa, Sveitarfélaginu Skagafirði, Samtökum verslunar og þjónustu, Hafnarfjarðarbæ, Djúpavogshreppi, Samtökum iðnaðarins, Borgarbyggð, Landssamtökum hjólreiðamanna, ríkislögreglustjóra, Siglingastofnun Íslands, rannsóknarnefnd umferðarslysa, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Eyjafjarðarsveit, Borgarfjarðarhreppi, Umhverfisstofnun Langanesbyggð og Grundarfjarðarbæ.
    Nefndin leggur ekki til breytingar á flugmálaáætlun. Nefndin leggur hins vegar til breytingar á siglingamálaáætlun og vegáætlun.
     Siglingamálaáætlun: Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á siglingamálaáætlun í samræmi við ákvörðun sem tekin var á ríkisstjórnarfundi 9. mars sl. um að veita 1.600 millj. kr. viðbótarframlag til samgönguáætlunar fyrir árið 2009.
     1.      Lagðar eru til leiðréttingar á töflu 3-3 í kafla 3.2.1.1 Hafnir í grunnneti, ríkisstyrktar og töflu 3-7 í kafla 3.2.1.3 Sjóvarnargarðar.
     2.      Lagt er til framlag til byggingar grjótgarðs út að Tösku á Rifi í Snæfellsbæ og gerðar sandfangara. Með þessari framkvæmd næst að draga úr áhrifum norðaustan- og austanöldu innan Rifshafnar. Nauðsynlegt er að gera sandfangara til að draga úr sandburði. Heildarframkvæmdakostnaður er áætlaður 116,2 millj. kr. og þar af er framlag ríkissjóðs 70 millj. kr. og kemur til framkvæmda árið 2008.
     3.      Lagt er til framlag til dýpkunar innsiglingarrennu og innan hafnar á Vopnafirði. Dýpi innan hafna miðast við 8 m djúprist skip en skipin sem nú fara um höfnina rista yfir 9 m. Með dýpkun ná hin djúpristu nótaveiðiskip HB Granda að taka höfnina í meðalstórstraumsfjöru. Kostnaður við dýpkun er áætlaður 116,2 millj. kr., þar af er framlag ríkissjóðs 70 millj. kr. sem kemur til greiðslu 2008. Stefnt er að því að frestað verði til ársins 2008 að steypa þekju og koma fyrir lýsingu og lögnum til að unnt sé að hefja dýpkun þegar á þessu ári. Dýpkað verður í ár fyrir tæpar 58 millj. kr. og að ári fyrir rúmar 58 millj. kr.
     4.      Lagt er til að veittar verði 60 millj. kr. til stækkunar tollaðstöðunnar á Seyðisfirði á árinu 2008. Aðstaða tollvarða er talin of knöpp og er gert ráð fyrir að stækka húsið um 200 fermetra.
     5.      Í breytingartillögu samgöngunefndar við frumvarp til breytingar á hafnalögum, nr. 61/2003, (sbr. þskj. 998, 366. mál) er lagt til að heimilt verði að veita styrki úr hafnabótasjóði B-hluta vegna tjóns á upptökumannvirkjum. Með hliðsjón af þessari breytingu er nauðsynlegt að veita viðbótarfjármagn í hafnabótasjóð, sem eftir sem áður gegnir því hlutverki að vera varasjóður ef tjón verður á hafnarmannvirkjum sem ekki fæst að fullu bætt úr Viðlagasjóði. Því er lagt til að veitt verði 200 millj. kr. framlag úr ríkissjóði í hafnabótasjóð árið 2008.
     Vegáætlun: Frá því að tillagan var lögð fram á Alþingi hafa fulltrúar Vegagerðarinnar fundað með þingmönnum hvers kjördæmis og kynnt vegáætlun og rætt mögulegar breytingar. Fjárveitingum til almennra verkefna, tengivega og ferðamannaleiða hefur verið skipt á milli einstakra verkefna.
    Nefndin leggur m.a. til eftirfarandi breytingar á vegáætlun í samræmi við niðurstöður þessara aðila:
     1.      Kafli 4.2.1.2 Verkefni á höfuðborgarsvæði:
                  a.      Lagt er til að 5 millj. kr. færist frá Hringvegi (lagfæring gatnamóta) til Hafravatnsvegar á árinu 2008 (Hringvegur–Úlfarsfellsvegur, hringtorg).
                  b.      Lagt er til að 110 millj. kr. fjárveiting til Hlíðarfótar árið 2007 verði felld niður.
                  c.      Lagt er til að fjárveiting til Hafnarfjarðarvegar (Kringlumýrarbraut–Miklabraut) hækki um 110 millj. kr. á árinu 2009. Einnig er lagt til 600 millj. kr. viðbótarframlag í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar sem gerð er grein fyrir hér á eftir. Því er samtals gerð tillaga um 710 millj. kr. hækkun á framlaginu.
                  d.      Lagt er til að 110 millj. kr. færist frá árinu 2009 til ársins 2008 vegna Reykjanesbrautar (gatnamóta við Vífilsstaðaveg).
                  e.      Lagt er til að 110 millj. kr. færist frá árinu 2008 til ársins 2007 vegna Nesbrautar (Bráðabirgðagatnamóta við Kringlumýrarbraut).
     2.      Kafli 4.2.1.3 Verkefni á landsbyggð:
                  a.      Lagt er til að 100 millj. kr. færist frá Hringvegi á Suðurlandi (um Hornafjarðarfljót) til Reykjavegar (Biskupstungnabraut–Laugarvatnsvegur) á árinu 2010.
                  b.      Lagt er til að fjárveiting til Vestfjarðavegar (Svínadalur–Flókalundur) lækki um 100 millj. á árinu 2010.
                  c.      Lagt er til að fjárveiting til Strandavegar (Djúpvegur–Drangsnesvegur) hækki um 100 millj. á árinu 2010.
                  d.      Lagt er til að fjárveiting til Hringvegar á Norðausturlandi (við Egilsstaði) hækki um 50 millj. kr. á árinu 2007.
                  e.      Lagt er til að fjárveiting til Hringvegar á Norðausturlandi (Berufjarðarbotn) lækki um 50 millj. kr. á árinu 2010.
                  f.      Lagt er til að fjárveiting til Hringvegar á Norðausturlandi (Þvottár- og Hvalnesskriður) lækki um 50 millj. kr. á árinu 2007.
                  g.      Lögð er til 50 millj. kr. fjárveiting til Norðfjarðarvegar (snjóflóðavarnir við Grænafell) á árinu 2010.
    Þá leggur nefndin til eftirfarandi breytingar á vegáætlun í samræmi við ákvörðun sem tekin var á ríkisstjórnarfundi 9. mars sl. um að veita 1.600 millj. kr. viðbótarframlag til samgönguáætlunar fyrir árið 2009.
     1.      Lagt er til 200 millj. kr. framlag til Suðurstrandarvegar árið 2009. Með þessu viðbótarframlagi verður hægt að gera nýjan veg frá Þorlákshöfn vestur fyrir Selvog og munu þá helstu farartálmarnir á leiðinni verða úr sögunni þó svo að sjálfum veginum verði ekki að fullu lokið, en vegurinn getur sinnt hlutverki sínu jafnt fyrir þungaflutninga sem og almenna umferð.
     2.      Lagt er til að 200 millj. kr. viðbótarframlag verði veitt í veginn að Dettifossi þannig að heildarframlag á árinu 2009 til þess vegar verði 340 millj. kr. Með þessu framlagi verður unnt að fullgera veginn frá Norðausturvegi að Vesturdalsvegi.
     3.      Lagt er til að 100 millj. kr. viðbótarframlag verði veitt til vegarins um Fróðárheiði á árinu 2009. Lagðir hafa verið verulegir fjármunir í þennan veg og því er aðkallandi að ljúka honum til þess að vegurinn nýtist sem fyrst með eðlilegum hætti.
     4.      Lagt er til að 50 millj. kr. viðbótarframlag verði veitt á árinu 2009 til gerðar Þjóðbrautar á Akranesi sem telst til grunnnets og breytir aðkomuleið inn í bæinn að norðan. Ástæða þessarar tillögu er sú að veruleg uppbygging er fyrirhuguð á því svæði sem vegurinn mun liggja um og því aðkallandi að fjárveitingum til vegarins verði hraðað.
     5.      Lagt er til að veittar verði 50 millj. kr. á árinu 2009 til endurbóta á Miðfjarðarvegi sem er tengivegur. Ástand vegarins fram hjá Melstað er þannig að ekki verður undan því vikist að leggja til þessa viðbótarfjárveitingu.
     6.      Lagt er til 600 millj. kr. viðbótarframlag til gerðar mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar á árinu 2009. Viðbótarframlag þetta mun stuðla að því að unnt verði að ljúka þeirri framkvæmd fyrr en ella.
     7.      Lagt er til 400 millj. kr. viðbótarframlag til gatnamóta Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar á árinu 2009 til að bæta úr bágu umferðarástandi á þessum vegamótum.
    Nefndin hefur fjallað sérstaklega um fjárframlög í samgönguáætlun til höfuðborgarsvæðisins. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu komu á fund nefndarinnar og lýstu yfir áhyggjum sínum af því hversu lítið fjármagn væri veitt í áætluninni til svæðisins. Lögðu þau til að fjárframlag á tímabilinu yrði tvöfaldað því annars mundi umferðarástand á svæðinu versna mjög. Nefndin telur að stefna beri að því að umferðarástand á svæðinu versni ekki á tímabilinu en tekur jafnframt fram að spá samtakanna um framtíðarástand hafi verið málað nokkuð dökkum litum. Jafnframt veltir nefndin því fyrir sér hvort fleira þurfi ekki að koma til en sífellt aukið framboð á stærri og afkastameiri umferðarmannvirkjum og því þurfi að fara að huga að eftirspurninni eða notkuninni sjálfri þegar fram líða stundir. Með nefndaráliti þessu er birt sem fylgisskjal yfirlýsing af hálfu fjármálaráðherra og samgönguráðherra um að í kjölfar undirbúnings og hönnunar stærstu umferðarmannvirkjanna á höfuðborgarsvæðinu, svo sem gatnamóta við Kringlumýrarbraut og á Hafnarfjarðarvegi, verði ákveðin sérstök fjáröflun til þess að hraða framkvæmdum við þau mannvirki á fyrsta tímabili samgönguáætlunar. Vænta má beinnar tillögu um þá sérstöku fjáröflun við næstu endurskoðun samgönguáætlunar fyrir árin 2009–2012.
    Nefndin beinir þeirri áskorun til Vegagerðarinnar og viðkomandi aðila að fara vel yfir umferðaröryggismál við fjölförnustu ferðamannastaði landsins og þá sérstaklega við Geysi í Haukadal. Nefndin leggur til að Vegagerðin taki nú þegar upp viðræður við Ferðamálastofu Íslands til þess að bæta umferðaröryggi á þessum fjölfarna ferðamannastað.
    Að lokum telur nefndin rétt að geta þess til að taka af öll tvímæli að tillaga um sérstaka fjáröflun til Vaðlaheiðarganga í samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010 tekur til verkefna er tengjast undirbúningi ganganna.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Anna Kristín Gunnarsdóttir, Kristján L. Möller, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Alþingi, 13. mars 2007.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Anna Kristín Gunnarsdóttir,


með fyrirvara.



Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Guðjón Hjörleifsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.



Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Jón Kristjánsson.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.






Fylgiskjal.


Yfirlýsing samgönguráðherra og fjármálaráðherra.


    Samgönguráðherra og fjármálaráðherra lýsa því yfir vegna afgreiðslu samgönguáætlunar 2007–2018, að við endurskoðun fjögurra ára samgönguáætlunar árið 2009 verði samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu tekin til sérstakrar athugunar.
    Við endurskoðunina liggi fyrir áætlun um framkvæmdir þar sem greind hafa verið brýnustu samgönguverkefnin á höfuðborgarsvæðinu. Þegar sú greining liggur fyrir verður leitast við að tryggja fjármagn til nauðsynlegra aðgerða við uppbyggingu vegakerfis höfuðborgarsvæðisins þannig að eðlileg framvinda verði í því verkefni.
    Samgönguráðherra mun hlutast til um að koma á samráði á milli samgönguráðs og þar með talið Vegagerðarinnar annars vegar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hins vegar í því skyni að ná sem bestum árangri við að hraða uppbyggingu vegakerfis höfuðborgarsvæðisins og bæta þar með afköst og umferðarflæði á svæðinu.

Reykjavík, 9. mars 2007.

Sturla Böðvarsson.
(sign.)

Árni Mathiesen.
(sign.)