Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 591. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1188  —  591. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt, nr. 90/2003, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Dórotheu Jóhannsdóttur, Jón Guðmundsson, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti og Steinþór Haraldsson frá embætti ríkisskattstjóra. Nefndinni bárust einnig umsagnir um málið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þríþættar breytingar. Er í fyrsta lagi lagt til að inn í skattalöggjöf verði bætt ákvæðum um svonefnda starfstengda eftirlaunasjóði en nú er til meðferðar í þinginu frumvarp um heimild til starfrækslu slíkra sjóða hér á landi (568. mál). Lagt er til að starfstengdir eftirlaunasjóðir verði undanþegnir skattskyldu og staðgreiðslu á fjármagnstekjur á sama hátt og lífeyrissjóðir. Jafnframt er lagt til að í skattalegu tilliti verði farið með framlag launagreiðanda til starfstengdra eftirlaunasjóða og skattlagningu einstaklinga sem greiða í slíkan sjóð með sama hætti og gildir um greiðslur í lífeyrissjóð og til aðila sem hafa heimild til að taka á móti viðbótarlífeyrissparnaði. Í öðru lagi er lagt til að lögaðilum með takmarkaða skattskyldu á Íslandi sem eru heimilisfastir í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins verði heimilt að draga móttekinn arð frá skattskyldum tekjum. Hingað til hafa þessir aðilar greitt 15% afdráttarskatt af arði. Áfram mun verða til staðar heimild til að halda eftir 15% tekjuskatti af arðgreiðslum til lögaðila sem eru heimilisfastir í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á skilyrðum fyrir samsköttun sambúðarfólks. Ástæðan er sú að með 11. gr. laga nr. 65/2006 um breyting á lögum sem varða réttarstöðu samkynhneigðra var sú breyting gerð að skráning óvígðrar sambúðar í Þjóðskrá varð fortakslaust skilyrði þess að samsköttun samkvæmt lögum um tekjuskatt væri heimil. Þessi breyting mun standa í vegi fyrir því að fjöldi sambúðarfólks sem hefur verið samskattað á liðnum árum en er ekki skráð í sambúð uppfylli skilyrði til samsköttunar. Breytingin hefði jafnframt haft áhrif á ákvörðun vaxta- og barnabóta.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birgir Ármannsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. mars 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Dagný Jónsdóttir.



Lúðvík Bergvinsson.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Ásta Möller.


Sæunn Stefánsdóttir.