Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 655. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1191  —  655. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Samtstarfs í þágu friðar o.fl.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Veturliða Stefánsson og Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti.
    Allsherjarnefnd skilaði nefndinni umsögn um málið samkvæmt beiðni.
    Við brotthvarf varnarliðs Bandaríkjanna frá Íslandi 30. september 2006 leituðu íslensk stjórnvöld eftir samstarfi við aðrar þjóðir um varnir landsins. Af þeim sökum er nauðsynlegt að lögfesta lágmarksreglur um framkvæmd tiltekinna þjóðréttarsamninga sem varða réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Samstarfs í þágu friðar o.fl.
    Með frumvarpinu er lagt til að ríkisstjórninni verði heimilað að fullgilda fyrir Íslands hönd samning frá 19. júní 1951 milli aðila að Norður-Atlantshafssamningnum um réttarstöðu liðsafla þeirra og samning frá 19. júní 1995 milli aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins og annarra ríkja sem eru aðilar að Samstarfi í þágu friðar, um réttarstöðu liðsafla þeirra ásamt bókunum við þann samning frá 19. júní 1995 og 19. desember 1997. Samningurinn frá 1951, svonefndur „SOFA“-samningur, er grundvallarsamningur í alþjóðlegri hernaðar- og friðargæslu og nauðsynlegt fyrir Ísland að fullgilda samninginn ef unnt á að vera að leita til annarra ríkja um aðstoð eða hafa samvinnu á þessu sviði. Hið sama gildir um samninginn um Samstarf í þágu friðar ásamt viðbótarbókunum hans.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er að finna heimild fyrir utanríkisráðherra til að ákveða með auglýsingu að ákvæði laganna skuli einnig gilda um annan erlendan liðsafla sem dvelur á Íslandi og fellur ekki undir þá samninga sem tilgreindir eru í 1. gr. frumvarpsins. Samkvæmt 69. gr. stjórnarskrárinnar er óheimilt að refsa mönnum nema fyrir hafi verið gild refsiheimild í lögum þegar verknaður var framinn. Að fengnu áliti allsherjarnefndar telur nefndin að ákvæðið fái staðist enda verði auglýsing ráðherra birt með fullnægjandi hætti, sbr. lög nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Meiri hlutinn telur þó rétt að styrkja ákvæðið með því að hnykkja á því að heimild ráðherra taki aðeins til alþjóðasamninga sem eru skuldbindandi fyrir Ísland að þjóðarétti.
    Í 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að það varði refsingu að skýra frá án leyfis, taka eða birta myndir af tilteknum mannvirkjum, búnaði eða aðgerðum. Gáleysisbrot og ásetningsbrot eru lýst refsiverð. Í áliti allsherjarnefndar er vakin athygli á því að rétt sé að gera þá kröfu að svæði þar sem slík mannvirki er að finna verði ætíð tryggilega merkt. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og leggur til breytingar á 3. mgr. 6. gr. þess efnis að skýrt verði kveðið á um skyldu til að girða af bannsvæði eða merkja tryggilega það svæði sem ákvæðið nær til svo ekki fari á milli mála að sérstakar reglur gildi um það.
    Össur Skarphéðinsson, Jón Gunnarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir rita undir nefndarálitið með fyrirvara.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. mars 2007.



Halldór Blöndal,


form., frsm.


Össur Skarphéðinsson.


með fyrirvara.


Jón Kristjánsson.



Drífa Hjartardóttir.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.


Sæunn Stefánsdóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.