Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 668. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1203  —  668. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti og Braga Guðbrandsson frá Barnaverndarstofu.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Einnig er í frumvarpinu mælt fyrir um stöðu nefndarinnar og valdheimildir hennar. Frumvarpið er til komið vegna nýlegrar umfjöllunar um rekstur vistheimilisins Breiðavíkur á árunum 1950 1980, en rétt þykir að kanna jafnframt hliðstæðar stofnanir og sérskóla sem börn dvöldu í.
    Nefndin bendir á að frumvarpið girðir ekki fyrir að rannsókn nefndarinnar taki til einkaheimila sem börn hafa verið vistuð á fyrir tilstuðlan opinberra aðila. Jafnframt telur nefndin mikilvægt að í nefndina verði skipaður að lágmarki einn aðili með sérþekkingu á sviði barnaverndarmála.
    Nefndin fagnar frumkvæði ríkisstjórnarinnar að því að hefja framangreinda rannsókn en bendir á að jafnframt er rétt að taka mið af þeim upplýsingum sem þegar eru komnar fram þannig að þær geti orðið stjórnvöldum að leiðarljósi við farsæla stjórn og eftirlit með barna- og unglingameðferðarheimilum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Björgvin G. Sigurðsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 13. mars 2007.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Guðjón Ólafur Jónsson.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.



Birgir Ármannsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Kjartan Ólafsson.



Sigurður Kári Kristjánsson.


Sigurjón Þórðarson.