Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1208  —  387. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Þegar frumvarp um vátryggingarsamninga var til umfjöllunar á 130. löggjafarþingi voru ákvæði í 82. gr. þess frumvarps nokkuð umdeild. Það sem helst var um deilt voru ákvæði þess efnis að heimila mætti söluaðilum persónutrygginga að leita upplýsinga um heilsufar annarra einstaklinga en tryggingartaka. Persónuvernd gerði verulegar athugasemdir við þetta og lagði til að orðin „eða annarra einstaklinga“ aftast í 2. mgr. 82. gr. frumvarpsins yrðu felld brott. Undir þetta tók minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar og fluttu þau Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Ágúst Ólafur Ágústsson og Ögmundur Jónasson breytingartillögu, samhljóða tillögu Persónuverndar. Sú breytingartillaga var felld.

Túlkun Persónuverndar á 82. gr. laga nr. 30/2004.
    Vátryggjendur hafa á grundvelli þessarar lagagreinar farið fram á að vátryggingartakar veiti upplýsingar um heilsufar og sjúkrasögu foreldra sinna og systkina. Persónuvernd hefur frá því að lögin voru samþykkt í apríl 2004 gefið út álit (nr. 2005/103) þar sem meðal annars er metið lögmæti þess að afla heilsufarsupplýsinga um foreldra og systkini umsækjenda um líf- og sjúkdómatryggingar. Í því áliti kemur skýrt fram að Persónuvernd telur að um persónugreinanlegar upplýsingar sé að ræða:
    „Enda þótt eyðublað geri ekki ráð fyrir því að umsækjandi nafngreini þessa ættingja eru þetta persónuupplýsingar, enda að jafnaði ljóst hverjir í hlut eiga.“
    Um heimildarákvæði 2. mgr. 82. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, segir Persónuvernd í áðurnefndu áliti:
    „Af framangreindu ákvæði og skýringum við það í athugasemdum frumvarpsins má ráða að tryggingafélagi sé heimilt að afla upplýsinga um heilsufar skyldmenna til þess að meta hvort athuga þurfi heilsufar þess sem óskar vátryggingar. Vátryggjendum er m.ö.o. heimilt að spyrja um þessi atriði í þeim tilgangi að meta hvort rannsaka þurfi frekar núverandi eða fyrra heilsufar þess sem óskar vátryggingar. Enga heimild er hins vegar að finna fyrir vátryggjendur til að afla upplýsinga um hvort vátryggður sé líklegur til þess að fá eða þróa með sér tiltekna sjúkdóma í framtíðinni. Þvert á móti er vátryggjendum óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar um erfðaeiginleika manns og áhættu á því að hann þrói með sér eða fái sjúkdóma. Í ljósi þess banns verður að líta svo á að vátryggingafélagi sé óheimilt að afla upplýsinga um heilsufar skyldmenna sem eru til þess fallnar að veita vitneskju um erfðaeiginleika umsækjandans. Ber hér að hafa í huga að margir algengir sjúkdómar orsakast af samspili erfða- og umhverfisþátta. Verður því að líta svo á að öflun upplýsinga um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina jafngildi öflun upplýsinga um erfðaeiginleika umsækjandans sjálfs. Verður enda vart komið auga á það í hvaða tilgangi öðrum vátryggingafélag ætti að sækjast eftir upplýsingum um slíka sjúkdóma hjá einstaklingum.“
    Í niðurstöðuorðum ofangreinds álits Persónuverndar segir:
    „2. Öflun upplýsinga um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina umsækjenda er óheimil.“

Umsögn Persónuverndar um fyrirliggjandi frumvarp.
    Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu hefur risið vafi um ofangreint atriði. Þá segir í greinargerð að markmið þessa frumvarps sé að eyða þessum vafa. Í umsögn Persónuverndar frá 12. febrúar 2007 um fyrirliggjandi frumvarp kemur fram að stofnunin geri ekki athugasemdir við frumvarpið út frá sjónarmiðum um skýrleika. Í umsögn frá 2. mars 2007 frá Persónuvernd segir að stofnunin telji mikilvægt að ákvæði um umrædda upplýsingavinnslu beri skýrlega með sér vilja löggjafans. Engu að síður kemur skýrt fram í báðum umsögnum Persónuverndar að stofnunin telji varhugavert að veita þessa heimild til upplýsingaöflunar. Í fyrri umsögn Persónuverndar segir:
    „Skýrt skal tekið fram að Persónuvernd telur að meginstefnu varhugavert að heimila aðilum utan heilbrigðiskerfisins umfangsmikla skráningu eða aðra meðferð heilsufarsupplýsinga án þess að til komi upplýst samþykki hlutaðeigandi einstaklinga. Þá skal því haldið til haga að, eftir því sem Persónuvernd veit best, er sjaldgæft í framkvæmd að upplýsingar um heilsufar skyldmenna vátryggingartaka eða vátryggðs leiði til þess að tryggingafélög óski eftir frekari rannsókn á heilsufari umsækjanda á því tímamarki sem hann sækir um vátryggingu. Þvert á móti eru upplýsingarnar í reynd notaðar til þess að rökstyðja hærra iðgjald, setningu sérskilmála eða synjun um vátryggingu vegna þess að tryggingafélög telja líklegt að umsækjandi þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm í framtíðinni.“
    Þá segir einnig í umsögninni:
    „… bendir Persónuvernd á að útfrá sjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs er æskilegra að þessara upplýsinga sé ekki aflað. Persónuvernd bendir einnig á að engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á hversu miklar afleiðingar það kynni að hafa í för með sér fyrir vátryggingamarkaðinn að afla ekki upplýsinga um heilsufar skyldmenna s.s. um hversu mikið iðgjöld myndu hækka …“

Farið gegn sjónarmiðum Persónuverndar.
    Minni hlutinn tekur undir ofangreind sjónarmið Persónuverndar. Þá má vera ljóst að með samþykki þessa frumvarps er meiri hlutinn að taka afstöðu gegn sjónarmiðum persónuverndar og friðhelgi einkalífsins. Það harmar minni hlutinn og bendir á að fjölmargir umsagnaraðilar eru andsnúnir frumvarpi þessu og markmiðum þess. Má þar nefna Læknafélag Íslands sem galt varhug við umræddum ákvæðum 82. gr. laganna við afgreiðslu þeirra 2004. Læknafélagið hefur sent nú sent nokkrar umsagnir við fyrirliggjandi frumvarp sem fylgja áliti þessu sem fylgiskjöl. Í þessum umsögnum segir Læknafélagið og áréttar það nú síðast í umsögn frá 12. mars 2007 að félagið telji að ákvæðið brjóti gegn mannréttindasáttmála Evrópu og íslensku stjórnarskránni. Er þetta sjónarmið rökstutt í umsögnum sem eru fylgiskjöl með áliti þessu.

Mikil andstaða við málið.
    Fjölmargar umsagnir bárust um málið og eru margar þeirra andsnúnar umræddri heimild. Neytendasamtökin telja of langt gengið að heimila vátryggingafélögum að óska eftir upplýsingum um sjúkdóma í fjölskyldu vátryggingartaka. ASÍ leggst gegn frumvarpinu og segir m.a. í umsögn frá 8. mars sl.:
    „82. gr. laganna eftir breytingu gengur því tvímælalaust gegn þeirri vernd sem stjórnarskrá og alþjóðlegir sáttmálar eiga að veita borgurunum …“
    Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggst gegn þessari heimild. Krabbameinsfélagið leggst gegn samþykkt frumvarpsins og leggur til að upplýsingaöflun um heilsufar annarra einstaklinga verði óheimil. Talsmaður neytenda sendi inn umsögn þar sem lagt var til að afgreiðslu málsins yrði frestað og haft yrði víðtækara samráð við alla hagsmunaaðila áður en málið yrði afgreitt frá Alþingi.

Of langt seilst við upplýsingaöflun.
    Minni hlutinn telur ljóst að deilurnar sem staðið hafa um ákvæði það sem fjallað er um í fyrirliggjandi frumvarpi munu ekki leysast þrátt fyrir að skýrleiki ákvæðisins sé aukinn. Afar umdeilanlegt er að löggjafinn veiti heimildir til upplýsingaöflunar um heilsufar einstaklinga án upplýsts samþykkis þeirra. Þá er ljóst að þrátt fyrir samþykkt fyrirliggjandi frumvarps verður þeirri staðreynd ekki eytt að tilgangur upplýsingaöflunar vátryggingarsala um heilsufar skyldmenna er til þess fallið að meta hvort umsækjandi þrói með sér ákveðna sjúkdóma. Ekki verður séð hvernig slíkri upplýsingaöflun sé ætlað að veita vitneskju um annað en erfðaeiginleika umsækjandans. Þannig er innbyrðis þversögn í lagagreininni sjálfri, a.m.k. eru mörkin afar óljós. Þá telur minni hlutinn of mikinn vafa leika á því að verið sé að brjóta alþjóðasamninga og stjórnarskrá líkt og Læknafélagið og ASÍ benda á og að þann þátt málsins þurfi að skoða mun betur en meiri hluti nefndarinnar hefur gert.
    Í þessu máli vegast á annars vegar viðskiptahagsmunir tryggingasala og hins vegar persónuvernd og friðhelgi einstaklinga. Frumvarp þetta tekur afstöðu með viðskiptahagsmunum tryggingasala. Minni hlutinn styður hins vegar meginsjónarmið persónuverndar einstaklinga. Minni hlutinn telur of langt seilst í upplýsingaöflun um heilsufar einstaklinga og leggur því til breytingartillögu þar sem farið er fram á að foreldrar og systkini þurfi að veita samþykki sitt fyrir því að heilsufarsupplýsingar um þá séu veittar tryggingasölum. Auk þess leggur minni hlutinn til þá breytingartillögu að börn tryggingartaka verði undanskilin kröfu tryggingasala um heilsufarsupplýsingar nánustu fjölskyldumeðlima.

Alþingi, 12. mars 2007.



Katrín Júlíusdóttir,


frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Lúðvík Bergvinsson.



Ögmundur Jónasson.






Fylgiskjal I.


Umsögn frá Læknafélagi Íslands.
(8. febrúar 2007.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn frá Læknafélagi Íslands (um breytingartillögu).
(22. febrúar 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Umsögn frá Læknafélagi Íslands (um breytingartillögu).
(6. mars 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Umsögn frá Læknafélagi Íslands (um breytingartillögu).
(8. mars 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Athugasemd frá framkvæmdastjóra Læknafélags Íslands.
(12. mars 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Athugasemd frá framkvæmdastjóra Læknafélags Íslands.
(12. mars 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VII.


Umsögn frá Alþýðusambandi Íslands.
(8. febrúar 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VIII.


Umsögn frá Krabbameinsfélagi Íslands.
(12. febrúar 2007.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IX.


Athugasemd frá verkefnisstjóra hjá Krabbameinsfélagi Íslands.
(16. febrúar 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal X.


Umsögn frá Krabbameinsfélagi Íslands (um breytingartillögu).
(27. febrúar 2007.)





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XI.


Umsögn frá Persónuvernd.
(12. febrúar 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XII.


Umsögn frá Persónuvernd.
(2. mars 2007.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XIII.


Umsögn frá Neytendasamtökunum.
(12. febrúar 2007.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XIV.


Umsögn frá Neytendasamtökunum (um breytingartillögu).
(26. febrúar 2007.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal XV.


Umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.
(15. febrúar 2007.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XVI.


Umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga
(um breytingartillögu).

(26. febrúar 2007.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XVII.


Umsögn frá talsmanni neytenda.
(24. febrúar 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.