Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 641. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1240  —  641. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um losun gróðurhúsalofttegunda.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berg Sigurðsson frá Landvernd, Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Huga Ólafsson og Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti og Davíð Egilson og Helga Jensson frá Umhverfisstofnun. Nefndinni bárust einnig umsagnir um málið.
    Í frumvarpi þessu er fellt inn efni laga um að skrá losun gróðurhúsalofttegunda en í þeim lögum er kveðið á um þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi um bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi. Í öðru lagi er í þeim lögum ákvæði um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir og í þriðja lagi er þar kveðið á um upplýsingaskyldu fyrirtækja sem losa verulegt magn gróðurhúsalofttegunda. Ákvæði þessara laga munu að mestu haldast óbreytt.
    Helsta nýmæli sem kveðið er á um í þessu frumvarpi er að tveimur flokkum atvinnurekstrar, annars vegar staðbundinni orkuframleiðslu með brennslu jarðefnaeldsneytis sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega og hins vegar staðbundinni iðnaðarframleiðslu sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega, verði óheimilt að starfa á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012, nema aflað sé losunarheimilda vegna losunar koldíoxíðs.
    Lagt er til að þriggja manna úthlutunarnefnd, sem skipuð verði af umhverfisráðherra og í munu sitja fulltrúar iðnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis og fjármálaráðuneytis, geri áætlun um úthlutun losunarheimilda vegna atvinnurekstrar sem fellur undir gildissvið laganna. Nefndin hefur það hlutverk að gera áætlun um úthlutun á losunarheimildum fyrir skuldbindingartímabilið, þ.e. fimm ár. Atvinnurekstur sem þegar er starfandi eða mun hefja starfsemi fyrir upphaf skuldbindingartímabilsins mun hafa forgang.
    Samkvæmt frumvarpinu er kveðið á um margþætt hlutverk Umhverfisstofnunar. Eins og samkvæmt lögum um að skrá losun gróðurhúsalofttegunda er stofnuninni ætlað að sjá um bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi, auk skráningarkerfisins þar sem losunarheimildir Íslands eru færðar inn. Við þessi verkefni bætist að Umhverfisstofnun er falið að fara yfir umsóknir sem berast frá atvinnurekstri um losunarheimildir, að sjá um reikninga atvinnurekstrar og annarra lögaðila í skráningarkerfinu og fara yfir skýrslur atvinnurekstrar um losun koldíoxíðs.
         Meiri hlutinn telur að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref í þá átt að móta lagaumgjörð um þennan mikilvæga málaflokk og búa til stjórntæki fyrir stjórnvöld til að skapa skilyrði fyrir því að staðið verði við alþjóðlegar skuldbindingar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 15. mars 2007.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Guðjón Ólafur Jónsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Kjartan Ólafsson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.