Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 684. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1244  —  684. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Arabíska lýðveldisins Egyptalands.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Friðrik Jónsson og Einar Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Arabíska lýðveldisins Egyptalands, sem undirritaður var í Davos í Sviss 27. janúar 2007.
    Fríverslunarsamningurinn nær fyrst og fremst til vöruviðskipta en einnig eru ákvæði um vernd hugverkaréttinda, fjárfestingar, þjónustustarfsemi, fjármagnsflutninga, samkeppnismál o.fl. Á vörusviðinu er kveðið á um að Egyptar felli niður tolla á aðrar vörur en landbúnaðarvörur í áföngum auk þess sem kveðið er á um tollkvóta fyrir flestar mikilvægustu sjávarafurðir Íslands. Kvótarnir verða stækkaðir í áföngum á sex ára tímabili uns fullri fríverslun verður komið á.
    Sérhvert EFTA-ríki gerir tvíhliða samkomulag við Egyptaland um lækkun eða niðurfellingu tolla á tilteknar landbúnaðarvörur og mun Ísland t.d. fá markaðsaðgang fyrir lifandi hross til Egyptalands og 2000 tonna tollkvóta fyrir lambakjöt.
    Viðskipti milli Íslands og Egyptalands undanfarin ár hafa verið lítil en fullgilding fríverslunarsamningsins eykur vafalaust möguleika á frekari viðskiptum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 15. mars 2007.



Halldór Blöndal,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Jón Gunnarsson.



Jón Kristjánsson.


Bjarni Benediktsson.


Dagný Jónsdóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.