Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 295. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1245  —  295. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Árnason frá forsætisráðuneyti. Nefndin kynnti sér einnig umsagnir um málið frá 132. löggjafarþingi (744. mál), en þá bárust umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Rannsóknamiðstöð Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Orkustofnun, Landspítala háskólasjúkrahúsi, Seðlabanka Íslands, Veðurstofu Íslands, Fornleifavernd ríkisins, Háskólanum á Akureyri, Bændasamtökum Íslands, Félagi prófessora í Háskóla Íslands og Félagi háskólakennara, Nýsköpunarsjóði, Raunvísindastofnun Háskólans, Alþýðusambandi Íslands og Fjórðungssambandi Vestfirðinga auk sameiginlegrar umsagnar frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi Vísinda- og tækniráðs verði útvíkkuð með þeim hætti að auk þess að taka til umfjöllunar málefni vísinda, tækni og nýsköpunar hafi það einnig með höndum umfjöllun um málefni atvinnuþróunar. Með breytingunni á starfssviði ráðsins er jafnframt gert ráð fyrir að nafn þess breytist í Vísinda- og nýsköpunarráð. Einnig er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að fulltrúum í ráðinu fjölgi um tvo, úr 14 í 16, og að forsætisráðherra geti kvatt fjóra ráðherra til setu í því í stað tveggja eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Frumvarpið gengur út frá því að þeir tveir fulltrúar sem bætast í ráðið komi úr atvinnulífinu og hafi reynslu eða sérþekkingu sem nýst getur við hagnýtingu rannsókna.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi iðnaðarráðherra um Nýsköpunarmiðstöð Íslands (280. máli) og frumvarpi viðskiptaráðherra um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins (279. máli). Iðnaðarnefnd hefur lagt til að frumvarpi til laga um Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði breytt þannig að í stað þess að Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Byggðastofnun sameinist verði það eingöngu tvær fyrstnefndu stofnanirnar sem sameinast. Því leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu þess efnis að horfið verði frá því að gera breytingar á starfsemi Vísinda- og tækniráðs og breyta heiti þess.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Björgvin G. Sigurðsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 15. mars 2007.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Guðjón Ólafur Jónsson.


Björgvin G. Sigurðsson ,


með fyrirvara.



Birgir Ármannsson.


Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.



Sigurður Kári Kristjánsson.


Sigurjón Þórðarson,


með fyrirvara.