Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 279. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1255  —  279. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Úlfarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Svein Hannesson og Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, sem er jafnframt stjórnarformaður í Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, og Jónínu S. Lárusdóttur og Svein Þorgrímsson frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust einnig umsagnir um frumvarpið.
    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi iðnaðarráðherra um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun (þskj. 293, 280. mál) og frumvarpi forsætisráðherra til laga um breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð (þskj. 308, 295. mál).
    Helstu breytingar sem lagðar eru til eru eftirfarandi. Lagt er til að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins muni að meginstefnu til einungis taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þá er lagt til að sjóðurinn hafi heimild til að taka þátt í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum. Í 5. gr. laga nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., er kveðið á um að Nýsköpunarsjóður fái 1.500 millj. kr. viðbótarframlag á árunum 2007–2009 til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun nýrra samlagssjóða með lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Í þessum tilvikum skal leita samþykkis iðnaðar- og sjávarútvegsráðherra, en slíkt samþykki þarf ekki í öðrum tilvikum. Lagt er til að stjórnarmenn skuli ekki skipaðir til lengri tíma en fimm ára. Jafnframt er kveðið á um að eigið fé Nýsköpunarsjóðs skuli að lágmarki vera 3.000 millj. kr., og taki breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Eigið fé, sem ekki er bundið í fjárfestingarverkefnum eða lánum, skal ávaxta í samræmi við fjárfestingarstefnu sem kveðið verður á um í reglugerð og starfsreglum stjórnar. Skylda er lögð á Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að útvista ávöxtun framangreinds eigin fjár. Þá eru í frumvarpinu felld brott ákvæði um tryggingardeild útflutnings, sem verið hefur sérstök deild innan Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
    Í því frumvarpi sem iðnaðarnefnd hefur haft til umfjöllunar er gert ráð fyrir að tryggingardeild útflutnings verði vistuð innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hefur iðnaðarnefnd lagt til breytingu á því frumvarpi þannig að tryggingardeild útflutnings muni áfram vistast hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Þykir því einsýnt að efnahags- og viðskiptanefnd leggi til breytingar á þessu frumvarpi í þeim tilgangi að þau ákvæði falli brott sem kveða á um brottfall þeirra ákvæða laganna sem fjalla um tryggingadeild útflutnings. Þá er í frumvarpinu lagt til að vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verði lögð niður og verður eigið fé hennar hluti af eigin fé Nýsköpunarsjóðs, að sjóðnum verði heimilt að gera afleiðusamninga og að aðeins Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með reikningum sjóðsins og eignum en ekki Fjármálaeftirlitið jafnframt. Að lokum skal nefnt að lagt er til að ákvæði laganna um refsinæmi brota verði fellt brott.
    Í umsögnum og í umræðum í nefndinni var vakin athygli á því að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var upphaflega myndaður að hluta úr eigin fé Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs sem runnu inn í Fjárfestingarbanka Atvinnulífsins (FBA) og viðkomandi starfsgreinar töldu eign sína. Þetta skýrir t.d. tilnefningar í stjórn sjóðsins en tveir af fimm stjórnarmönnum eru skipaðir annars vegar af samtökum atvinnufyrirtækja í iðnaði og hins vegar af samtökum atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi.
    Jafnframt var rætt um það í nefndinni að ráðherra staðfesti reglur um mat á fjárfestingartækifærum, auk umsókna um lán og ábyrgðir. Segja má að þetta sé grundvöllur þess að ráðherra geti sinnt sínu eftirlitshlutverki en það er ekki ætlunin að ráðherra hafi afskipti af störfum sjóðsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      Við 1. gr. Greinin falli brott.
     2.      Við 2. gr. Við efnismálsgrein bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Loks starfrækir sjóðurinn tryggingadeild útflutningslána skv. II. kafla.
     3.      Við 11. gr. Greinin falli brott.
     4.      Við 15. gr. 2. málsl. falli brott.

    Ögmundur Jónasson og Ágúst Ólafur Ágústsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Anna Kristín Gunnarsdóttir og Jóhann Ársælsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 15. mars 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir,


með fyrirvara.


Dagný Jónsdóttir.



Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Drífa Hjartardóttir.


Kjartan Ólafsson.



Birkir J. Jónsson.