Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 660. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1259  —  660. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um skattlagningu kaupskipaútgerðar.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Halldórsdóttur, Jón Guðmundsson og Ragnheiði Snorradóttur frá fjármálaráðuneyti og Steinþór Haraldsson frá embætti ríkisskattstjóra.
    Með frumvarpinu er lögð til sérstök löggjöf um skattlagningu á kaupskip en með kaupskipi er átt við skip sem flytur farm eða farþega gegn endurgjaldi í siglingum milli landa og farmflutningum innan lands og er 100 brúttótonn eða stærra. Skattlagningin tekur mið af stærð skipa en ekki af afkomu rekstrar útgerðarinnar. Lagður er á tonnaskattur og ákvarðast skattstofninn af nettótonnafjölda þeirra skipa sem teljast til kaupskipaútgerðar. Jafnframt er lögð til opinber aðstoð við hlutafélög og einkahlutafélög sem gera út kaupskip skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá og eru skattskyld hér á landi. Aðstoðin svarar til 90% tekjuskatts og útsvars af launum áhafna, að teknu tilliti til persónuafsláttar og sjómannaafsláttar. Þar sem ekkert kaupskip er núna skráð hér á landi renna allir þessir skattar núna til annarra ríkja.
    Tilgangur frumvarpsins er að stuðla að því að kaupskipaútgerðin flytjist aftur til landsins en nú er svo komið að kaupskip Íslendinga í millilandasiglingum sigla öll undir erlendum fánum.
    Samhliða frumvarpi þessu leggur samgönguráðherra fram frumvarp um stofnun íslenskrar alþjóðlegrar skipaskrár (667. mál) en tilgangur þess er að stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi.
    Nefndin leggur til breytingu á skattstiga til einföldunar þannig að skattstofninn verði 30 kr. á hver 100 nettótonn að 25.000 nettótonnum. Af þeirri fjárhæð verði svo greiddur 18% skattur. Breytingin veldur mest 1.360 kr. lægri skatttekjum miðað við frumvarpið.
    Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Í stað 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. komi einn nýr töluliður sem orðist svo: Til og með 25.000 NT: 30 kr. á hver 100 NT.

Alþingi, 15. mars 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir


með fyrirvara.


Dagný Jónsdóttir.



Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson


með fyrirvara.



Ásta Möller.


Sæunn Stefánsdóttir.