Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 7. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1290  —  7. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um kaup og rekstur á færanlegri sjúkrastöð í Palestínu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Félaginu Ísland – Palestína, landlækni, Rauða krossi Íslands og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fjármálaráðherra beiti sér fyrir því að fé verði veitt til kaupa og reksturs á færanlegri sjúkrastöð í Palestínu.
    Alþingi ályktaði síðast um deilur Ísraels og Palestínumanna 30. apríl 2002 (þskj. 1446, 734. mál 127. löggjafarþings) en þar var m.a. lögð áhersla á að mannréttindi væru virt og öryggi óbreyttra borgara tryggt.
    Talið er mikilvægt að kaupa og reka færanlega sjúkrastöð þar sem almenningur á örðugt með að sækja heilbrigðisþjónustu af því að hann hefur ekki fullt ferðafrelsi vegna ófriðar- ástands. Af þeim sökum er hentugast að hægt sé að færa sjúkrastöðina þangað sem þörfin er í Palestínu hverju sinni og má líta á það sem eins konar neyðaraðstoð vegna þess sérstaka ástands sem þarna ríkir.
    Íslenska ríkið hefur stutt við Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn (UNRWA). Undanfarin ár hafa framlögin verið hækkuð umtalsvert. Árið 2006 voru þau hækkuð úr rúmum 3 millj. kr. í 7 millj. kr. og nýlega tilkynnti utanríkisráðherra að framlögin yrðu tvöfölduð fyrir árið 2007 og næmu alls 14 millj. kr.
    Nefndin fagnar þessum áherslum og telur rétt að frekari aðstoð verði veitt við Palestínumenn. Umsagnir sem nefndinni bárust voru auk þess undantekningarlaust jákvæðar og telur nefndin rétt að ríkisstjórnin beiti sér fyrir frekari aðstoð með kaupum á færanlegri sjúkrastöð eins og hér er lagt til.
    Utanríkisráðuneyti fer með þróunarsamvinnu Íslands við önnur ríki og hefur ráðherra þegar lýst yfir aukinni aðstoð við flóttamannaaðstoðina.
    Nefndin leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 15. mars 2007.



Halldór Blöndal,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Drífa Hjartardóttir.



Jón Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson.


Bjarni Benediktsson.


                                  

Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.