Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1334  —  80. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá stýrihópi Kvennakirkjunnar, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Alþjóðahúsinu ehf., Kvenréttindafélagi Íslands, embætti ríkissaksóknara, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Útlendingastofnun, embætti ríkislögreglustjórans, Amnesty International á Íslandi og Kvenfélagasambandi Íslands.
    Í tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að fullgilda samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali, en hann var samþykktur og lagður fram til undirritunar á þriðja leiðtogafundi ráðsins í Varsjá 16. maí 2005. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu samninginn sama dag en hann öðlast ekki gildi fyrr en tíu ríki hafa fullgilt hann, og þar af þurfa a.m.k. átta að vera aðildarríki Evrópuráðsins. Þetta markmið hefur ekki enn náðst.
    Mansal er mikið vandamál í Evrópu. Í því sambandi bendir nefndin m.a. á að á vorfundi Evrópuráðsþingsins í Strassborg dagana 10. 13. apríl 2006 var mansal kvenna og barna til kynlífsþrælkunar í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram undan var í Þýskalandi til sérstakrar umræðu, en tugþúsundir kvenna voru seldar mansali þangað í tengslum við keppnina. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum minnti Evrópuráðsþingið á samninginn og hvatti ríkisstjórnir ríkja Evrópuráðsins til að staðfesta hann án tafar. Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2006 (551. mál).
    Nefndin leggur til smávægilega orðalagsbreytingu á tillögugreininni í því skyni að veita ríkisstjórninni ráðrúm til að hefja undirbúning að fullgildingu samningsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að fullgildingu samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali sem undirritaður var í Varsjá í Póllandi 16. maí 2005.

    Sigurjón Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 17. mars 2007.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Guðjón Ólafur Jónsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Björgvin G. Sigurðsson.


Birgir Ármannsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Kjartan Ólafsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.