Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 04. júní 2007, kl. 16:03:50 (0)


134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[16:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er óhjákvæmilegt að gera hér í byrjun athugasemdir við þau vinnubrögð sem meiri hlutinn ástundar í þessum efnum og það hefðarrof sem nú á sér stað með því að ekki er einu sinni haft fyrir því að kanna hvort áhugi sé á því eða vilji til staðar til að eiga þverpólitískt samstarf um breytingu á þingsköpum eins og ætíð hefur verið gert að ég held svo langt aftur sem skráðar heimildir ná.

Hér kemur frumvarp, flutt af formönnum þingflokka stjórnarliðsins, um breytingu á þingsköpum, sem er sprottið af ákvörðunum stjórnarflokkanna við ríkisstjórnarmyndun og er klæðaskerasaumað að því og því einu að falla að pólitísku samkomulagi stjórnarflokkanna og hrossakaupum um ráðherraskipan og ráðuneytaskipan til þess að hægt sé að halda sömu tölu ráðherra hjá báðum flokkum og menn lenda út á hallærisbrautir eins og þær að skipta upp ráðuneyti sem verið hefur saman um langt árabil og þvert á kosningaloforð og yfirlýsingar beggja flokka um að fækka ráðuneytum. Menn geta tæpast gefið sjálfum sér lengra nef en þeir gera með þessum hætti.

Það hlýtur að vera stórbrotið fyrir þá hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson og hæstv. ráðherra Björgvin G. Sigurðsson að birtast nú þjóðinni sem hálfdrættingar á við þá iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem setið hafa í því ráðuneyti að undanförnu. Nú veit ég ekki hvort verkum verður skipt alveg til helminga milli þeirra og ekki verður hlutur sá sem minna ber úr býtum skárri við það ef hann er kannski þriðjungsdrættingur. Kannski það sé þá þannig að hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson eigi að draga tvo þriðju hluta og hæstv. ráðherra Björgvin Sigurðsson einn þriðja. En það skiptir ekki öllu máli.

Þetta gengur algerlega þvert gegn því sem flokkar hafa boðað, sérstaklega þessir tveir sem reynt hafa að slá keilur á því í pólitískum umræðum undanfarið og sérstaklega nú í aðdraganda kosninganna að þeir vilji hagræða, fækka ráðuneytum og endurskipuleggja Stjórnarráðið á einhverjum slíkum grunni. En hér er sem sagt brotið í blað og pólitíkin færð innar og nær þinginu sjálfu en sennilega oftast áður. Auðvitað er það með miklum endemum að ríkisstjórnin skuli hefja svona samskipti sín við þingið. Eins og ég vék að í upphafi er það þannig að hér er rofin órofa hefð, áratugahefð um að leitað sé eftir samkomulagi og helst algerri þverpólitískri samstöðu um breytingar á skipulagi innan þings.

Síðast þegar þingsköpum var breytt á síðastliðnu vori, á 133. löggjafarþingi, hverjir fluttu þá frumvarp til breytinga á lögum um þingsköp? Það voru hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Hjálmar Árnason, Ögmundur Jónasson og Magnús Þór Hafsteinsson. Hverjir voru þetta? Þetta var forseti þingsins og formenn allra þingflokka.

Hvernig var þetta næst á undan þegar meiri háttar breyting var gerð á þingsköpum? Á 117. löggjafarþingi fluttu frumvarpið um breytingu á lögum um þingsköp hv. þingmenn Geir H. Haarde, og við vitum hver hann er, Páll Pétursson, Rannveig Guðmundsdóttir, Ragnar Arnalds og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formenn allra þingflokka.

Hvernig var þetta næst þar á undan þegar meiri háttar breyting var gerð á árunum 1992–1993, á 116. löggjafarþingi? Þá voru flutningsmenn hv. þingmenn Páll Pétursson, Geir H. Haarde, Svavar Gestsson, Össur Skarphéðinsson og Kristín Ástgeirsdóttir. Aftur formenn allra þingflokka.

Næstu meiri háttar breytingar þar á undan voru á 114. löggjafarþingi og þá fluttu frumvarpið á vorþinginu 1991, ef ég man rétt, hv. þingmenn Páll Pétursson, Geir H. Haarde, Guðrún Helgadóttir, Össur Skarphéðinsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson. Þannig að meira að segja sömu forustumennirnir stóðu aftur og aftur að því að stuðla að þverpólitískri sátt um þessi mál og öðruvísi mér áður brá. Eru þeir stoltir af arfleifð sinni nú í þessum efnum, hv. þingmenn, hæstv. ráðherrar Geir H. Haarde og Össur Skarphéðinsson, sem í fyrri hlutverkum sínum sem formenn þingflokka höfðu aftur og aftur tekið þátt í að læsa saman þverpólitíska samstöðu um þessa hluti?

Það má meira að segja fara enn þá lengra aftur ef út í það er farið. 1985 varð breyting á þingskapalögum. Málið flutti forsætisráðherra og í athugasemdum við lagafrumvarpið stóð þetta: „Frumvarp þetta er flutt samkvæmt samkomulagi þingflokkanna.“ Sama skipan var á oft á undan. Árið 1983 flutti forsætisráðherra mál og greinargerðin hefst á þessum orðum: „Frumvarp þetta er flutt samkvæmt samkomulagi allra þingflokka.“ 1978, um haustið, fluttu breytingu á þingskapalögum eftirtaldir hv. þingmenn: Lúðvík Jósepsson, Gunnar Thoroddsen, Sighvatur Björgvinsson og Halldór E. Sigurðsson. Ég get farið lengra aftur ef menn vilja. Hefðin er sem sagt þessi, órofin, að menn leita samstöðu um breytingar á þingskapalögum og frumvörpin yfirleitt án undantekninga annaðhvort flutt af forsætisráðherra eða forseta þingsins fyrir hönd allra þingflokka á grundvelli samkomulags þar um eða að formenn þingflokkanna og forseti flytja þau saman. Nú er það liðin tíð og hæstv. ríkisstjórn kýs að hefja samskipti sín við þingið með þessum hætti.

Það alvarlega er í sjálfu sér ekki þessi atburður, enda frumvarpið ekki mikið að vöxtum, að breyta nöfnum á nokkrum þingnefndum, það alvarlega er hugarfarið sem á bak við býr. Þetta er þrælmengað af því hugarfari sem hefur farið versnandi og ágerst undanfarin ár, og allt frá 1991 þegar hér var vissulega brotið í blað í sögum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds með ýmsum hætti og á árunum sem á eftir fylgdu, að Alþingi sé ekkert annað en afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Það virðist fara versnandi með hverju kjörtímabilinu sem líður og í hvert skipti sem ríkisstjórn með sterkan meiri hluta á bak við sig sest að völdum hegðar hún sér og telur sjálfsagt að hegða sér eins og henni komi þingið ekki við að öðru leyti en því að hún þurfi að koma þar málum í gegn og þá skuli þingið veskú gera það sem til er ætlast af því í þessum efnum.

Þetta er auðvitað sama hugarfarið og er á ferðinni í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, sem ég hafði ætlað að hafa með mér í púltið en ég held ég muni nú orðrétt hvað þar stóð, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að setja ráðherrum og alþingismönnum og öðrum slíkum siðareglur. Ríkisstjórnin ákvað það um það leyti sem hún var að verða til að setja alþingismönnum siðareglur. Síðan hvenær varð það hlutverk ríkisstjórnar og framkvæmdarvalds að hlutast til um innri málefni þingsins með þessum hætti? Hvað segja forsetar þingsins? Er það svona sem þeir vilja standa að verki hvað varðar heiður og sóma Alþingis, að hér sé ekki um neitt annað að ræða en stimpil, afgreiðslustofnun fyrir það sem ríkisstjórninni dettur í hug? Útkomuna höfum við m.a. séð strax efnislega í því að þingið er ekki starfhæft með eðlilegum hætti, hér vantar fagnefndir til að takast á við þau mál sem á þeirra verksviði eru. Það er engin sjávarútvegsnefnd til á Alþingi við þær aðstæður að ein mestu ótíðindi í upp undir aldarfjórðung hvað varðar ástand þorskstofnsins koma fram og er þó þingið að störfum. Í raun og veru eru lög brotin með því að hér skuli ekki starfa þingnefnd með umboði á þessu sviði.

Þetta er líka angi af sama hugarfari og birtist í því að meiri hlutinn er ekki öruggari um sig en svo, þó að hann telji 43 menn, að hann passar upp á að stjórnarandstaðan komi hvergi nokkurs staðar nálægt neinu sem lýtur að forustustörfum í þinginu, ekki í einu einasta tilviki svo ég viti til hefur meiri hlutinn lyft litla fingri til þess að sýna að hann vilji að minni hlutinn eigi einhverja hlutdeild, einhverja aðild, hafi einhverja rödd varðandi skipulag og forræði mála hér innan dyra.

Það hefði mátt hugsa sér svo dæmi séu tekin að meiri hlutinn hefði af örlæti sínu boðið upp á að 1. varaforseti þingsins kæmi úr röðum stjórnarandstöðunnar. En nei, nei, nei, það verður að vera stjórnarsinni líka af því að hlutföllin segja að þannig skuli það vera. Það hefði mátt hugsa sér að meiri hlutinn hefði talið veldi sínu ekki stofnað í verulega hættu þó að stjórnarandstöðunni, minni hlutanum, hefði verið boðin ein og ein varaformennska í þingnefnd. Nei, það er of mikið, það væri hættulegt, þá væri fyrst vá fyrir dyrum ef þessi mikli meiri hluti með þetta stóra hjarta mundi missa frá sér eina og eina varaformennsku. Nei, það er ekki hægt.

Af öllu sem við höfum upplifað hingað til verður ekki annað ráðið en að það sé ætlun þessa meiri hluta að beita valdi sínu af ýtrustu hörku, gera ekkert með sjónarmið minni hlutans og halda áhrifum hans eins niðri og takmörkuðum og mögulegt er. Það vissi auðvitað ekki á gott þegar brotin var strax á fyrsta degi sú grunnregla þingskapanna að afbrigðum sé ekki beitt nema í samkomulagi. Hver er hugsunin á bak við það að afbrigði frá þingsköpum séu ekki veitt nema tveir þriðju hlutar þingmanna samþykki? Hún er auðvitað sú að meiri hluti og minni hluti, a.m.k. einhver hluti stjórnarandstöðunnar, minni hlutans á hverjum tíma, sé því sammála, vegna þess að í þingsögunni er það afar fátítt að svo sterkur meiri hluti standi að baki ríkisstjórn að hún geti meira að segja farið fram hjá þessu ákvæði.

En þurftu menn að hugsa sig um hérna á fimmtudaginn var hvort þeir ætluðu að beita þessu afli? Nei, það var ekki einu sinni gert fundarhlé. Forseti svaraði ekki hugmyndum um að menn veltu því fyrir sér hvort fresta mætti kosningunni fram á mánudag þannig að menn gætu aðeins velt þessu fyrir sér. Þannig er nú lýðræðisástin og þingræðisástin djúprætt í brjóstum meiri hlutans. Hvar eru samræðustjórnmálin núna? Hvar er lýðræðisblaðrið í Samfylkingunni eða Mogganum? Hvernig ætlar Mogginn að standa við bakið á þessari fáliðuðu stjórnarandstöðu? Með því að ráðast á hana og rægja hana. Það er aðferð Morgunblaðsins, það er stuðningur þeirrar stofnunar sem telur sig stundum hafa prókúru í þeim efnum þegar kemur að stjórnarandstöðunni núna.

Ég held að meirihlutamenn ættu aðeins að velta því fyrir sér hvort þeir vaxi af þessari framgöngu sinni. Það er enginn vandi að beita afli sínu og allra síst ef það er mjög mikið en það er vandasamt að fara með það og kunna sér hóf og bera virðingu fyrir öðrum grundvallargildum sem þarf líka að hafa í huga eins og þeim að lýðræðið snýst ekki síst um það að vernda rétt minni hluta, að tryggja að skoðanafrelsi ríki, að eðlilegt samráð sé haft um hlutina eftir því sem hægt er. Það þarf enginn af efast um hver ræður að lokum, allra síst við aðstæður eins og þær sem núna eru uppi þegar aflsmunurinn eða liðsmunurinn er jafnmikill og raun ber vitni. Reyndar er ekki endilega víst að það eigi eftir að reynast svo mikill styrkleikamunur þegar upp er staðið því að það er ekki alltaf sama magn og gæði. Þeir ættu að hugleiða það, meirihlutamenn. Það er nefnilega ekki alltaf sama.

Aðalvandinn er sá, virðulegur forseti, að tímaröðin á þessum hlutum er algjörlega fráleit, hún er lítilsvirðing við Alþingi. Síðasta frumvarpið í þessum pakka sem á að takast til umræðu og afgreiðast er þingskapabreytingin, að sjálfsögðu, vegna þess að fyrst á framkvæmdarvaldið að koma með hugmyndir sínar til Alþingis um breytingar á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Alþingi tekur við því, samþykkir það eftir atvikum eða gerir á því breytingar, því að löggjafarvaldið er hér, frú forseti, er það ekki? Þannig er það a.m.k. að nafninu til. Síðan skoða menn í framhaldinu hvort rétt sé að gera breytingar á skipan mála innan þings í samræmi við það sem ákveðið hefur verið um Stjórnarráðið en það er ekki sjálfgefið að Alþingi hafi nefndaskipan sína algerlega eins og ákveðið hefur verið að ráðuneytum og verkefnum þeirra sé skipt. Það er nefnilega ekki þannig. Það væri í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að hér störfuðu áfram aðskildar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndir þó að þau mál væru í einu ráðuneyti og öfugt. Hér hafa iðulega verið dæmi í gegnum þingsöguna um nefndir, fleiri en eina og fleiri en tvær, sem hafa eftir atvikum tekið við verkefnum frá fleiri en einu ráðuneyti og öfugt. Það er því engin ein hrein lína í því. Alþingi kynni vel að vilja skoða það og ákveða sjálft hvernig það skipaði málum í framhaldi af því að niðurstaða væri fengin hvað varðar verkaskiptinguna í Stjórnarráðinu. Þetta er fullkomlega öfug röð á hlutunum, óeðlileg og niðurlægjandi fyrir Alþingi. Það er bara þannig, frú forseti, og sómi meiri hlutans verður ekki mikill af þessu að mínu mati.

Nú er upplýst að mér er tjáð, og það væri fróðlegt ef einhverjir aðstandendur málsins úr stjórnarliðinu aðrir en formenn þingflokka — ég sé að ráðherrabekkurinn er fljótur að gerast þunnskipaður, þeir hafa ekki meiri ást á þingskyldum sínum, nýju ráðherrarnir, en svo að þeir máttu hér varla við bindast í hálftíma eða meira — er það rétt sem sagt hefur verið að ekki einu sinni reglugerðir muni breytast fyrr en um næstu áramót, að þetta sé eingöngu nafnbreyting, táknræn aðgerð fram að næstu áramótum að öllu öðru leyti en því að Samfylkingin fær sína sex stóla? Þetta var verið að upplýsa mig um í dag, að það yrði engin breyting á neinu innan Stjórnarráðsins fyrr en um næstu áramót. Ráðherrar biðja að vísu um að fá að mæta af því að þeir séu tilvonandi ráðherrar byggðamála eða tilvonandi ráðherrar málefna sveitarfélaganna frá og með næstu áramótum en ekki fyrr. Til hvers er þá Alþingi að rjúka til og breyta nefndum sínum? Af hverju höfum við þær ekki í samræmi við gildandi lög og verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins fram að næstu áramótum? Það er auðvitað vandræðaleg viðbára að það sé eitthvert vandamál að kjósa núna í nefndirnar samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru og hafa fyrirkomulagið þannig fram að næstu áramótum. Eða hvað? Við hvað ráða menn ekki í þeim efnum? Var kannski svona erfitt að hnoða saman tillögunum um það í hvaða nefndir stjórnarliðar færu að menn treysta sér ekki til að taka það upp? Var kannski búið að ákveða skiptinguna á grundvelli þess sem Alþingi ætti að gera þegar því yrði sagt fyrir verkum? Eða hvað er svona erfitt við þetta? Hvað er svona óskaplega erfitt við að kjósa aftur í þessar nefndir um næstu áramót? Ekki neitt annað en að pólitískur vilji stjórnarflokkanna stendur bara til að gera þetta einhvern veginn öðruvísi og þá á Alþingi auðvitað að taka við því.

Niðurstaðan er auðvitað sú að þetta mál er sýndarmennska, þetta mál er pólitísk sýndarmennska. Ríkisstjórnin er ekki búin að koma sér saman um þetta eiginlega að neinu leyti. Það er bara eitt sem ríkisstjórnin er búin að ákveða: Það skulu vera tólf ráðherrar, tólf stólar, tólf pláss við borðið. Það er útgangspunkturinn, restin er óútkljáð, kemur bara síðar, verður afgreitt einhvern tíma fyrir áramótin, vonandi. Og sagt er jafnvel að ráðherrarnir segi, ef að þeim er saumað, að þetta sé nú allt ómótað enn þá. En Alþingi á að tefla hér við blindan og afgreiða þetta án þess að hafa neitt í höndunum annað en pólitísk áform ríkisstjórnarinnar um að einhvern veginn svona hugsi hún sér að hafa þetta. Það sé hennar meining að ráðuneytin heiti um það bil þetta og þingnefndirnar þar með. Það eina sem komin er niðurstaða í varðandi fjölda og nöfn, hitt er óútkljáð, hitt er autt blað. Er það þá eðlilegt að Alþingi fari að breyta skipulagi sínu án þess að hafa fyrirliggjandi hina efnislegu niðurstöðu?

Hvað nákvæmlega af þessum viðfangsefnum á að færast þarna á milli? Hvað tilheyrir tryggingaþættinum og fer úr heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið? Hvað fer frá landbúnaðarráðuneytinu undir menntamálaráðuneytið nákvæmlega, hvað fer til umhverfisráðuneytisins og hvað verður eftir? Verður eitthvað hróflað við sjávarútvegsráðuneytinu, verður eitthvað hróflað við iðnaðarráðuneytinu? Er verið að stofna eitthvað í áttina að eiginlegu atvinnuvegaráðuneyti? Nei, það á bara að taka landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, ekki atvinnuvegaþættina sem heyra undir samgönguráðuneytið eða væntanlega iðnaðarráðuneytið þegar ferðamálin flytjast þangað og svo iðnaðinn sjálfan. Af hverju er þetta gert svona? Þetta er auðvitað algjör óskapnaður, óunnið verk, ekki einu sinni hálfkarað eins og menn segja, af því að sauðburði er rétt að ljúka má kannski nota þá líkingu að þetta er sko ekki einu sinni hálfkarað. Það er ekki hægt að gefa þessum vinnubrögðum háa einkunn á nokkurn hátt.

Hæstv. forsætisráðherra sló um sig á landsfundi Sjálfstæðisflokksins með því að það væri alveg sérstakt keppikefli hans að fækka ráðuneytum og gerði síðan kosningabaráttuna að mínu mati mjög ómaklega út á það að hann spurði að því í eitt einasta skipti á fundi okkar formanna flokkanna hvort samkomulag væri um að gera slíkar breytingar fyrir kosningar þannig að það lægi fyrir eftir kosningar. Inntur að því hvaða hugmyndir hæstv. ráðherra hefði um það þá varð nú fátt um svör og niðurstaðan varð sú að málið koðnaði niður og engum datt í hug um það bil sem fundinum lauk að þetta væru raunhæfar hugmyndir. Það var ekkert í kortunum til þess að afgreiða fyrir kosningar í þessum efnum, enda málið algjörlega óunnið eins og best kemur í ljós núna að ekki einu sinni forsætisráðherra sjálfur, þegar hann hefur aðstöðu til, er með mótaðar eða útfærðar hugmyndir á nokkurn hátt um hvernig skuli gera þetta. Að minnsta kosti á hann, sá góði maður, hæstv. ráðherra, greinilega eftir að semja um það við samstarfsflokkinn.

Langeðlilegast er, frú forseti, að vísa þessum pakka öllum saman frá, biðja hæstv. ríkisstjórn að vinna vinnuna sína í sumar og koma að hausti með mótaðar hugmyndir um þetta þannig að hægt sé að taka á þeim efnislega og afgreiða þetta mál með einhverjum sómasamlegum hætti. Þá getum við haft þetta sumarþing mjög stutt, þetta er hvort sem er allt saman sýndarmennska og við getum lokið störfum hér upp úr miðjum degi á morgun.