Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 04. júní 2007, kl. 16:24:05 (0)


134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[16:24]
Hlusta

Flm. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrri hluti ræðu hv. þingmanns fór í það að rekja breytingar á þingsköpum og hvernig þær hefði borið að. Var það í sjálfu sér áhugavert, sögulegt yfirlit. En eftir því sem ég best veit voru formenn flokka kallaðir saman og boðið upp á samráð og samstarf um það hvernig þessu yrði hagað að þessu sinni. Það reyndist ekki áhugi fyrir því en þegar málið kemur hér fullmótað inn í Alþingi þá er kvartað yfir því. En ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður væri í ræðu sinni jafnframt að kvarta yfir því að það hefðu ekki legið fyrir fullmótaðar hugmyndir á fundi formanna flokka fyrir kosningar. Það er því erfitt að gera hv. þingmanni til hæfis.

Í öðru lagi talaði hv. þingmaður að mestu leyti um stjórnarráðsfrumvarpið sem er á dagskrá hér á eftir og væri hægt að fara yfir það. Þær breytingar sem við erum að gera hér á lögunum um þingsköp Alþingis, í frumvarpinu sem liggur fyrir, eru í rauninni bara praktísk niðurstaða af því að annars vegar standa til breytingar á Stjórnarráðinu og hins vegar það sem við þekkjum héðan úr Alþingi að álag á þingnefndum hefur breyst mjög mikið að undanförnu. Þess vegna er þetta algjörlega eðlileg breyting. Verkefnum sem landbúnaðarnefnd og sjávarútvegsnefnd hafa haft til að fjalla um hefur fækkað mjög en hins vegar var mikið álag á efnahags- og viðskiptanefnd og því eðlilegt að skipta þeirri nefnd upp, annars vegar í efnahags- og skattahlutann og hins vegar í viðskiptanefnd.

Ég hvet því til þess (Forseti hringir.) að hv. þingmaður horfi á þetta með þeim augum og íhugi aðeins hvort hann er ekki sáttari við frumvarpið með það fyrir framan sig.