Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 04. júní 2007, kl. 16:29:27 (0)


134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[16:29]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Frú forseti. Mér virtist hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vera í svo miklum ham áðan að ég taldi að það væri allt í lagi að bregða sér frá. Til þess að stytta mál mitt get ég hins vegar tekið undir þau efnislegu sjónarmið sem hann kom með varðandi þau vinnubrögð sem hér hafa verið höfð uppi. Hann rakti þau mjög ítarlega í greinargóðri ræðu og gerði það með þeim hætti að hann vék allt til þess tíma og þeirra sjónarmiða sem dr. Gunnar Thoroddsen hafði uppi og allt fram til þess að víkja að ástandi þorskstofna og rekja þetta saman við samræðustjórnmál og hvernig þetta fléttaðist allt í því. Með hvaða hætti ríkisstjórnin mundi misnota og beita þingmeirihluta sínum sem út af fyrir sig er þess eðlis að það verður að taka undir að hluta til og þó sérstaklega varðandi vinnubrögðin vegna þess að það voru engin vandamál fólgin í því að kjósa þær starfsnefndir þingsins sem um var að ræða og þingsköp fjölluðu um. Það var engin ástæða til þess að beita þeim afbrigðum sem gert var. Það var full ástæða til að verða við því fyrst stjórnarandstaðan fór fram á það að kosið yrði í þingnefndirnar. Það var hins vegar ekki gert og við stöndum frammi fyrir því og uppi með þá ákvörðun.

Hér erum við að ræða um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis þar sem um er að ræða ákveðna hagræðingu og ákveðna leiðréttingu sem við í þingflokki Frjálslynda flokksins viljum styðja og greiða fyrir að gangi sína leið í gegnum þingið. Það er þó atriði sem vert er að vekja athygli á af því að þessi lög, þ.e. annars vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og síðan frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis sem út af fyrir sig styður þau óeðlilegu vinnubrögð sem hér hafa verið höfð uppi. Varðandi þingsköp Alþingis þá er kveðið á um það í 3. gr. að lög þessi öðlist þegar gildi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, er hér lagt fram til samræmis við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969.“

Í 5. gr. frumvarpsins til laga um breytingar á lögum til Stjórnarráðs Íslands segir, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi að frátöldum a–e-lið 1. gr. og 2. gr.“ — sem eru þau atriði sem hljóma saman við frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum — „sem öðlast gildi 1. janúar 2008.“

Það er eiginlega mergurinn málsins og styður mjög það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fjallaði um áðan, að þarna er um það að ræða að það eru óeðlileg vinnubrögð að fara svona að. Fyrst breytingar á lögum um Stjórnarráðið taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2008, þ.e. hvað varðar a–e-lið 1. gr. og 2. gr., þá var það í sjálfu sér lagalega eðlileg framkvæmd og afgreiðsla að kjósa þingnefndirnar og afgreiða það frumvarp um þingsköp sem hér liggur fyrir á haustþingi. Það liggur ekkert á. Það er ekkert sem knýr á um að gera þetta með öðrum hætti.

Það er því hægt að taka undir algjörlega efnislegt sjónarmið varðandi að hér er um óeðlilega framkvæmd að ræða af hálfu stjórnarmeirihlutans og í andstöðu við það sem verður að telja að eigi að vera eðlileg vinnubrögð Alþingis Íslendinga um það hvernig með skuli fara og hvernig samvinna er milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Undir það skal tekið.

En það skal ítrekað hér að þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur fjallað um það frumvarp sem hér er til umræðu og lýsir stuðningi við að vísa því til allsherjarnefndar.