Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 04. júní 2007, kl. 16:41:34 (0)


134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[16:41]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hér eiga sér í rauninni stað alveg fáheyrðir atburðir í þingsögunni, og á margan hátt mjög einstakir, bæði hvað varðar þingsköp Alþingis og þá breytingu sem þar er fyrirhuguð og hvað Stjórnarráð Íslands varðar.

Það er fáheyrt að tveir forustumenn í stjórnmálaflokkum skuli taka sér það vald á Þingvöllum við myndun ríkisstjórnar að taka sér bæði þingræðisvaldið í hendur og taka að sér einir og sjálfir að breyta Stjórnarráði Íslands án samkomulags við nokkurn annan. Hæstv. forsætisráðherra, sem enn gegnir því starfi, og sem við framsóknarmenn vorum í samstarfi við, leitaði eftir því í mars, ef ég man rétt, við forustumenn annarra stjórnmálaflokka hvort þeir vildu ganga til breytinga á Stjórnarráðinu. Það var ekki samkomulag um það þá en nú liggur fyrir að menn varðar ekkert lengur um neitt sem heitir samkomulag.

Á nokkrum vordögum á Þingvöllum semja forustumenn þessarar nýju ríkisstjórnar um stórkostlegar breytingar, einir og sjálfir, á Stjórnarráðinu, eftir sínu höfði, eftir því hvað hentar flokkum þeirra en ekki hvað hentar lýðræðinu, hvað hentar þeim ályktunum sem allir flokkar hafa verið sammála um, þ.e. að breytinga væri þörf í Stjórnarráðinu, ekki síst til þess að fækka ráðherrum, kannski úr 12 niður í 10. Nú var það ekki á dagskrá því að nýja helmingaskiptaríkisstjórnin þurfti á því að halda að hafa þá 12 áfram og lét það eftir sér. Hún tekur í rauninni Stjórnarráðið og rífur það í þá snepla sem fáheyrt er að horfa á. Það er mjög undarlegt af jafnreyndum stjórnmálamönnum að leyfa sér þá ósvinnu að búta Stjórnarráðið upp og niður eftir því hvað hentar flokkunum.

Ég beið eftir því að Samfylkingin fengi ráðherra án ráðuneytis. Minnsta ráðuneytið var allt í einu eitthvað sem hægt var að skipta upp, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, til þess að koma tveimur vinum og félögum úr öðrum flokknum þar inn og þeir gætu átt þar félagsskap með örfáum embættismönnum. Síðan var hægt að ráðast að grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, landbúnaðinum.

Hér er svo margt óljóst við upphaf þessarar umræðu, m.a. um þingsköpin. Þau ættu náttúrlega að koma á eftir, menn ættu að ræða Stjórnarráðið fyrst því að við höfum ekki hugmynd um hvað er á bak við þá samninga sem gerðir voru á Þingvöllum.

Auðvitað er fáheyrt, hæstv. forseti, að forustumenn þessara ríkisstjórnarflokka, þeir sem svo véluðu um þessi mál á Þingvöllum, skuli ekki sitja hér í þessum sal. Á ég við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Sannarlega er það nú svo að það hefur ekki komið upp úr pökkunum hvað stendur í rauninni til í kringum Stjórnarráðið. Við vitum að það eru margar breytingar í aðsigi en við vitum að þeir ætla að fá reglugerðarvald til að gera nánast það sem þeim dettur í hug. Þess vegna ætti náttúrlega að vera krafa þingsins að þessari umræðu yrði frestað og farið yfir málið með nýjum hætti.

Allir stjórnmálaflokkarnir voru sammála um að breytinga væri þörf. Við vorum kannski ekki alveg á einni línu um hvaða breytingar ættu að eiga sér stað. Flestir flokkar voru þó á því, og stjórnmálamenn, að ráðuneyti yrðu u.þ.b. 10, það væri jafnræði á milli ráðuneytanna og að verkefni sem væru lík og skyld færðust til. Um þetta höfðu þing flokkanna fjallað og farið yfir.

Ég verð að segja hér, hæstv. forseti, að mér finnst það mikið virðingarleysi af hæstv. forsætisráðherra sem í mars fundaði með stjórnarandstöðu um þetta mál, og taldi þá skipta að reyna að ná samstöðu um það, að hafa síðan setið nokkrar vornætur á Þingvöllum með forustumanni Samfylkingarinnar og samið um það fyrir hönd flokka sinna og Alþingis Íslendinga.

Ég veit það sem ég stend hér að margir af þingmönnum stjórnarliðsins, hvort sem það eru sjálfstæðismenn eða samfylkingarmenn, hafa ekki hugmynd um hvað er í þeim pökkum sem þetta háttvirta kærustupar á Þingvöllum skrifaði undir. Það er leynilisti sem ekki hefur verið gefinn upp.

Það hlýtur að vera skýr krafa okkar sem þingmanna í æðstu stofnun Íslendinga á hinu háa Alþingi að frá þessum pökkum verði leyst og frá því skýrt hvað í vændum er í málinu. Fyrr er í rauninni ekki hægt að halda áfram störfum þingsins.

Við heyrum alls konar gróusögur, bæði úr þingflokkum stjórnarliðanna, hvað þar er og hverju þeir eru á móti, hvað þeir ætli að snúa niður, hverju breyta fram til áramóta og hafa með öðrum hætti. Þess vegna er mikið óráð að halda þessum fundi áfram, hæstv. forseti.

Ég verð að segja fyrir mig að mér finnst það mikið virðingarleysi, hæstv. forseti, að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera við þessa umræðu. Þetta er fólkið sem veit hvað í þessum pökkum er. Hvort á eggið eða hænan að koma á undan? Auðvitað hljótum við að fjalla hér fyrst um breytingarnar á Stjórnarráðinu. Síðan sníðum við þingskapalögin að því sem við ákveðum um breytingarnar á Stjórnarráðinu.

Ég verð að segja fyrir mig að miðað við það sem stendur í stjórnarsáttmála, miðað við það sem sagt hefur verið hér í stefnuræðum ríkisstjórnarinnar, er í mínum huga ekkert ljóst í málinu. Mér er sagt að mörg þörf verkefni sem í Stjórnarráðinu hafa verið séu að fara í ferðalag. Um þetta eru óljósar kjaftasögur sem engin leið er fyrir Alþingi Íslendinga að sætta sig við. Það er t.d. sagt að málefni sveitarfélaganna fari í samgönguráðuneytið, eins og þau séu vegagerðarmál. Það er sagt að skógrækt og landgræðsla séu höggnar af landbúnaðinum þótt það liggi fyrir að skógrækt og landgræðsla um allan heim séu landbúnaðarmál, málefni atvinnuvegarins og skipta miklu máli. Þetta verðum við að fá á hreint. Það er jafnvel sagt að búvörusamningarnir séu að fara inn í fjármálaráðuneytið. Það er sagt að Íbúðalánasjóður fari þar á líknardeild og verði seldur. Enginn í stjórnarliðinu hefur getað svarað þeim spurningum sem settar hafa verið fram um þetta efni.

Það er sagt að landbúnaðarháskólarnir með öllum vísindamönnum landbúnaðarins muni hverfa undir menntamálaráðuneytið. Það hlýtur að vera skýlaus krafa að áður en við ræðum þingsköpin ræðum við af fullri hreinskilni hvaða breytingar eru í vændum af hálfu stjórnarflokkanna hvað Stjórnarráðið varðar. Fyrr er ekki hægt að ræða þingskapamálið því það verður að liggja fyrir.

Þar fyrir utan tek ég undir það sem hér hefur komið fram, vissulega er ástæðulaust að ræða þetta á vorþingi því margt af þessu á ekki að koma til framkvæmda fyrr en um næstu áramót.

Ég verð að segja fyrir mig að mér finnst lítið hafa lagst fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hefur gefið sig út fyrir að vera landbúnaðarsinnaður flokkur — svo hefur hann sagt — en með Samfylkingunni er á einni vornóttu reynt að vega þannig að íslenskum landbúnaði að hann bíði skaða af. Þetta er ábyrgðarhlutur (Gripið fram í.) sem ekki er hægt að sætta sig við. Þeim mun meiri skömm er að því, hv. þingmaður, að gera það á Þingvöllum sjálfum þar sem löggjafarsamkoman var haldin, þar sem Ísland sótti frelsi sitt, þar sem barist var af heiðarleika og manndómi, þar sem ekkert var haft í felum heldur allt haft uppi við.

Nú er það svo að þessir nýju foringjar ríkisstjórnarinnar ætla að hafa allt í felum. Þau ætla að hafa það í felum fyrir stjórnarandstöðunni. Þeim er alveg sama þótt það sé í felum fyrir stjórnarliðum sínum líka því þau vita sem er að þótt tveir eða þrír verði með mótþróa skipta þeir páfar engu í umræðunni. Þau ráða ferðinni með 42–43 mönnum í þinginu og geta farið vilja sínum fram hvernig sem þeim sýnist.

Þetta er ábyrgðarhlutur fyrir hv. þingmenn sem hér eru nýkjörnir á þing og hafa skap og skapsmuni til að rísa upp gegn ofbeldi og eru líklegir til þess. Heiti ég nú á unga og vaska menn að láta ekki bjóða sér í sínum flokkum að svona verði farið með þingræðið, Stjórnarráð Íslands þannig leikið að það verði í tætlum hér og þar og menn gangi til starfa þingsins án þess það sé ljóst hvað í pökkunum var sem bundið var um á Þingvöllum.

Ég geri kröfu til þess, hæstv. forseti, áður en þessari umræðu verður haldið lengra að við fáum að vita um hvað var samið á Þingvöllum. Hvernig á að breyta Stjórnarráði Íslendinga? Hér kemur t.d. hæstv. iðnaðarráðherra sem situr í einum bútnum af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu sem áður var lítið fyrir og tók með sér félaga sinn í hinn bútinn. Ég geri skýlausa kröfu til þess hér við þessa umræðu að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra skýri frá því í heild sinni hvaða breytinga er að vænta á Stjórnarráðinu. Það er ekki hægt að sitja hér uppi með kjaftasögur utan úr bæ eða sögusagnir sem ganga á milli þingmanna. Við verðum að fá þetta mál upp á borðið eins og það liggur.