Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 04. júní 2007, kl. 16:59:53 (0)


134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[16:59]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn óska ég eftir því að heyra viðbrögð Samfylkingarinnar við þeim málum sem hér eru á dagskrá. Ég óska eiginlega eftir því að annar flutningsmaður þessa frumvarps, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem hér er í salnum, skýri okkur aðeins frá því og svari þeirri gagnrýni sem hér hefur verið sett fram.

Við hæstv. iðnaðarráðherra vil ég segja þetta: Ég endurtók það sem áður hafði verið sagt hér í þessum ræðustól um bútasauminn sem upp er tekinn í Stjórnarráðinu og menn vita ekki hvert muni leiða. Ýmis önnur orð hafa fallið um skiptingu ráðuneyta hér, m.a. var rætt um hvernig hæstv. iðnaðarráðherra væri nú settur í þá stöðu að vera hálfdrættingur á við forvera sinn, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Ekki sá hæstv. ráðherra ástæðu til að gera athugasemdir við það. Hann sá ástæðu til að gera athugasemdir við mál mitt og ég skal bara biðjast velvirðingar á því hafi það farið fyrir brjóstið á honum. En eins og ég segi er erindi mitt í þennan ræðustól, virðulegi forseti, að leita eftir afstöðu Samfylkingarinnar til þeirra mála og til þeirrar málsmeðferðar sem hér er viðhöfð. (Iðnrh.: Mér er sæmd að því að vera hálfdrættingur á við Valgerði.)