Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 04. júní 2007, kl. 17:01:36 (0)


134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[17:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég kem upp til að ítreka spurningar hv. þm. Guðna Ágústssonar og af því að hæstv. forsætisráðherra var í sæti sínu fyrir augnabliki síðan gerði ég ráð fyrir að hann væri kominn til þingsalar til þess að svara spurningum sem hér voru upp bornar um hvað samið var milli stjórnarflokkanna og kannski líka um hvað var ekki samið. Hvað liggur fyrir um þetta mál? Á ekki Alþingi heimtingu á því að formenn stjórnarflokkanna geri grein fyrir því við 1. umr. um eitt mál af þessum pakka, fyrsta málið í þessum pakka sem varðar breytingu á Stjórnarráðinu sem er klæðskerasaumuð eða bútasaumuð — og finnst mér þeirri ágætu listgrein í raun gerður lítill heiður með því að líkja þessu við bútasaum, því að auðvitað er bútasaumur göfug listgrein en þetta sem hér hefur átt sér stað á nú ekkert skylt við það. Þetta eru einfaldlega pólitísk hrossakaup og reddingar til að búa til tólf ráðuneyti fyrir tólf ráðherra. En það væri ástæða til að fá hér upplýst að því marki sem það liggur ljóst fyrir og hægt er að upplýsa það: Um hvað var samið? Hvað liggur fyrir í þessu máli efnislega? Heiðarleg svör. Ef það er svoleiðis, sem manni býður í grun, að stjórnarflokkarnir eigi kannski í umtalsverðum mæli eftir að útkljá þetta sín í milli, þá það. En fáum það þá hér fram þannig að ekki sé verið að pukrast með málið heldur liggi bara ljóst fyrir þegar það kemur til kasta Alþingis og Alþingi er ætlað að fjalla um það, hvað er samningsbundið milli stjórnarflokkanna í þessum efnum og hvað ekki, hvað er hægt að upplýsa nákvæmlega um efnislega tilfærslu verkefna undir þessum hatti, því að það segir ósköp lítið þó að breytt sé um nöfn á ráðuneytum eins og hér er verið að gera. Í raun og veru liggur ekkert fyrir í þessum efnum annað en tvennt, það eru hinar nýju nafngiftir og það er fjöldinn, sem merkilegt nokk kom aftur út á tólf.

Svo fyndist mér líka prýðilegt ef hæstv. forsætisráðherra á erindi í ræðustólinn, sér ástæðu til að ómaka sig hingað — það er ekki löng leið, þetta eru þrjú skref — að hann upplýsi okkur um sinnaskipti sín frá því að hann á landsfundi Sjálfstæðisflokksins lagði ríka áherslu á að fækka bæri ráðuneytunum a.m.k. niður í tíu. Hvað hefur gerst síðan þá? Hafa völd og áhrif hæstv. forsætisráðherra minnkað? Hefur hann tekið einhverjum sinnaskiptum eða hvernig hugsar hæstv. ráðherra sér að hafa þetta? Er þess kannski að vænta að fækkunin komi fram síðar? Verða einhverjir ráðherrar settir út á miðju kjörtímabili og óskatölunni tíu náð? Hvernig er planið, hvað liggur til grundvallar? Eða á þetta bara að prjónast af fingrum fram, spilast af fingrum fram? Er verið að prjóna flíkina utan um búkinn sem á að vera í henni síðar meir? Það hefur aldrei þótt gæfulegt að prjóna peysur þannig. Mér finnst að hæstv. forsætisráðherra gæti greitt fyrir umræðunni með því að koma hér upp og sýna a.m.k. lit í því að svara því sem til hans hefur verið beint í formi spurninga.