Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 04. júní 2007, kl. 17:06:46 (0)


134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[17:06]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja á sig það mikla erfiði að ganga þessi þrjú skref hér í ræðustólinn og tala við okkur af því lítillæti sem hann gerði. Nú er í raun málið borið þannig upp að þetta sé af umhyggju fyrir vinnuálagi þingmanna í tilteknum þingnefndum. Er það upphafspunktur þessa máls? Telur hæstv. forsætisráðherra að það gangi sem söguskýring? Ætli allir sjái ekki hvernig málið er búið? Það er vegna þess að ríkisstjórnin þurfti að koma saman þessum samningum sínum og þrautalendingin varð sú, til þess að skaffa Samfylkingunni sex ráðuneyti, að skipta upp iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Það var aldrei sérstaklega til umræðu í umfjöllun manna um að stofna atvinnuvegaráðuneyti og fækka ráðuneytum að skipta einu af léttari ráðuneytunum upp, og það er nú ekki afleiðing af því að létta þurfi vinnuálag í Alþingi, eða hvað?

Í öðru lagi má spyrja: Hvers vegna er þessi röð höfð á hlutunum? Af hverju er ekki stjórnarráðsfrumvarpið rætt fyrst og frumvarpið sem af því leiðir í kjölfarið?

Svo kemur auðvitað hótunin: Þið eruð að kvarta undan því, segir hæstv. forsætisráðherra á mannamáli, að ekki sé kosið hér í þingnefndir. Drífið þetta þá í gegn þannig að hægt sé að gera það. Þetta er það sem hæstv. forsætisráðherra segir hér á mannamáli við Alþingi. Drífið þetta í gegn, setjið færibandið í gang og hættið þessu röfli um að ekki sé farið að þingsköpum og ekki kosið í nefndir.

En hæstv. forsætisráðherra verður að bera ábyrgð á því, ásamt með meiri hluta sínum og þeim forsetum sem fara hér af stað sem æðileiðitamir sínum arfakóngum og herrum — ekki hafa þeir hreyft mótmælum, ekki hafa þeir andæft hér fyrir hönd þingsins — að það er ríkisstjórnin sem ákveður þessa röð. Ríkisstjórnin ákveður dagskrá þingsins, ríkisstjórnin ákveður hvernig mál ber hér að, ríkisstjórnin ákveður hvernig þetta skuli vera og ekki einu sinni hún öll heldur tvær manneskjur sem ákveða það hvernig hlutirnir skuli ganga fyrir sig á Alþingi. Það er veruleikinn, frú forseti, sem við okkur blasir og ég tek því þannig meðan forsætisráðherra (Forseti hringir.) mótmælir því ekki hér úr ræðustólnum að hann sé því sammála.