Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 26  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hluti nefndarinnar tekur ekki afstöðu til nafnabreytinga ráðuneyta samkvæmt frumvarpinu, m.a. af þeirri ástæðu að verkaskipting er enn óljós. Eðlilegt hefði verið að verkaskipting hefði legið fyrir áður en gengið hefði verið til afgreiðslu frumvarpsins en um hana er nú óvissa.
    Með f-lið 1. gr. frumvarpsins verður forseta Íslands heimilt að úrskurða um sameiningu ráðuneyta. Slíkt fyrirkomulag tíðkast víða annars staðar og er markmið þess að gera framkvæmdarvaldinu auðveldara að fækka ráðuneytum.
    Þá breytingu að gera Hagstofu Íslands að ríkisstofnun í stað ráðuneytis telur minni hlutinn eðlilega með tilliti til þeirra verkefna sem stofnunin sinnir nú og styður hann breytinguna.
    Minni hlutinn samþykkir ekki 3. gr. frumvarpsins þar sem afnumin er sú skylda að auglýsa störf innan Stjórnarráðsins. Þessari grein er skellt inn í frumvarpið án nokkurra tengsla við þær breytingar sem uppstokkun ráðuneyta í kjölfar ríkisstjórnarskipta kallar á og án samráðs við stéttarfélög starfsmanna ráðuneytisins. Nefndin fékk fulltrúa BSRB og BHM á fund til sín og bæði stéttarfélögin vara eindregið við breytingu á auglýsingaskyldunni sem nú gildir. Í umsögn BSRB segir m.a.: „BSRB varar við því að hróflað verði við auglýsingaskyldunni og telur mikilvægt að fólki séu gefin jöfn tækifæri til starfa og starfsframa innan Stjórnarráðsins. Bandalagið áréttar að markmiðið með starfsauglýsingum er ekki eingöngu að tryggja jöfn tækifæri til starfa og starfsframa heldur einnig að hæfasti einstaklingurinn sem völ er á hverju sinni verði ráðinn til starfans. Jafnframt telur BSRB mikilvægt að gagnsæi sé viðhaft við ráðningar við störf. Sé þess gætt dregur verulega úr svigrúmi til ómálefnalegra vinnubragða við ráðningar. BSRB telur afar mikilvægt að ákvarðanir um ráðningar starfsmanna séu sýnilegar og að fólk, jafnt innan Stjórnarráðsins sem utan, geti auðveldlega séð hvernig að þeim sé staðið í öllum aðalatriðum. Jafnframt telur bandalagið mjög mikilvægt í þessu samhengi að horft sé til þeirra varna sem þegar eru fyrir hendi til að auka möguleika kvenna og aðkomu þeirra að störfum. Ekki verður annað séð en 3. gr. frv. kollvarpi helstu vörnum í þessu efnum. Að þessu leyti, sem og í ýmsum öðrum veigamiklum atriðum er það því niðurstaða BSRB að með frv. þessu sé verið að stíga stórt skref aftur á bak.“
    Í umsögn BHM er einnig varað við því að auglýsingaskyldan verði afnumin og bent á að grunnhugsunin á bak við skyldu til að auglýsa opinber störf sé að tryggja að hæfasti starfsmaðurinn verði ráðinn í hverju tilviki og jafnframt að gagnsæi sé tryggt við ráðningu opinberra starfsmanna. Loks bendir BHM á að engin rök hafi verið færð fyrir því að afnema auglýsingaskyldu innan Stjórnarráðs Íslands. Loks segir BHM að bandalagið óttist að þetta sé fyrsta skrefið til þess að afnema auglýsingaskyldu starfa hjá hinu opinbera. Bæði BSRB og BHM töldu gallana við að afnema auglýsingaskylduna vera mun veigameiri en kostina.
    Að lokum bendir minni hlutinn á að óskum hans um að fulltrúar BHM og BSRB kæmu fyrir nefndina á nýjan leik var hafnað en minni hlutinn taldi mikilvægt að eiga kost á því að ræða við fulltrúa stéttarfélaganna þar sem nefndamönnum hafði sama morgun borist í hendur skrifleg umsögn BSRB. Einnig var farið fram á að gerð yrði nánari grein fyrir þeim reglum sem forsætisráðherra hygðist setja í þessu sambandi en ekki var á það fallist. Þá var á það bent að óeðlilegt væri að löggjafarvaldið framseldi rétt sinn með þeim hætti sem lagt væri til, sbr. viðbót við 3. gr. sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, og einnig að málið væri tekið úr nefndinni með meirihlutavaldi án þess það væri tilbúið til afgreiðslu, eins og gert var, miðað við þær aðstæður sem lágu fyrir í málinu. Málið var afgreitt úr nefndinni gegn atkvæðum minni hlutans og eindregnum óskum hans um frekari umsagnir og skoðun. Það gerir málsmeðferðina enn ámælisverðari að sáttaleiðir í málinu blöstu við en þeim var hafnað án viðhlítandi rökstuðnings.

Alþingi, 11. júní 2007.



Atli Gíslason,


frsm.


Jón Magnússon.


Siv Friðleifsdótir.






Fylgiskjal I.


Bandalag starfsmanna ríkis og bæja:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.


(7. júní 2007.)



    BSRB gerir ekki athugasemdir við breytingar á ráðuneytum eða að Hagstofu Íslands verði breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða ríkisstofnun, svo fremi breytingarnar hafi ekki áhrif á réttindi starfsmanna sem þær varða.
    BSRB leggst á hinn bóginn alfarið á móti 3. gr. frv. sem felur í sér að afnumin verði sú skylda að auglýsa laus störf innan Stjórnarráðsins. BSRB varar við því að hróflað verði við auglýsingaskyldunni og telur mikilvægt að fólki séu gefin jöfn tækifæri til starfa og starfsframa innan Stjórnarráðsins. Bandalagið áréttar að markmiðið með starfsauglýsingum er ekki eingöngu að tryggja jöfn tækifæri til starfa og starfsframa heldur einnig að hæfasti einstaklingur sem völ er á hverju sinni verði ráðinn til starfans. Jafnframt telur BSRB mikilvægt að gagnsæi sé viðhaft við ráðningar í störf. Sé þess gætt dregur verulega úr svigrúmi til ómálefnalegra vinnubragða við ráðningar.
    BSRB telur afar mikilvægt að ákvarðanir um ráðningar starfsmanna séu sýnilegar og að fólk, jafnt innan Stjórnarráðsins sem utan, geti auðveldlega séð hvernig að þeim sé staðið í öllum aðalatriðum. Jafnframt telur bandalagið mjög mikilvægt í þessu samhengi að horft sé til þeirra varna sem þegar eru fyrir hendi til að auka möguleika kvenna og aðkomu þeirra að störfum. Ekki verður annað séð en 3. gr. frv. kollvarpi helstu vörnum í þessu efnum. Að þessu leyti, sem og í ýmsum öðrum veigamiklum atriðum er það því niðurstaða BSRB að með frv. þessu sé verið að stíga stórt skref aftur á bak.
    Í 3. gr. frv. er opnað á mjög almenna meðferð við ráðningar í störf og reyndar svo að ógerlegt er að lesa út úr frv. hvernig ráðningarferlið á að fara fram. M.a. má spyrja eftirtaldra spurninga í þessu sambandi:
     1.      Verður starfsmaður valinn í laust starf án þess að öðrum starfsmönnum Stjórnarráðsins sé veitt formlegt tækifæri til að gefa kost á sér til starfsins?
     2.      Verða laus störf í öllum tilvikum auglýst innan Stjórnarráðsins?
     3.      Verður það matsatriði hverju sinni hvernig staðið skuli að vali starfsmanns, þ.e. hvort aðeins einn tiltekinn komi til greina eða að auglýst verði og þá til hvaða hóps auglýsing eigi að höfða?
    Í þessu samhengi er jafnframt rétt að huga grannt að því hvað verði um rökstuðning fyrir stöðuveitingum eftir ráðningarferli á borð við það sem að framan er lýst? Það kemur ekki skýrt fram. Getur einstaklingur sem ekki hefur verið viðraður í stöðu óskað eftir rökstuðningi fyrir flutningi eða ráðningu starfsfélaga? Þá segir í athugasemd við 3. gr. frv. að gera megi ráð fyrir að í kjölfar lagabreytingar þessarar, hljóti hún samþykki, verði settar reglur innan Stjórnarráðsins um það með hvaða hætti eigi að stuðla að auknum hreyfanleika starfsmanna, þar með talið varðandi verklag við auglýsingar starfa.
    Með hliðsjón af framansögðu varar BSRB við því að afnema auglýsingaskyldu innan Stjórnarráðs Íslands. Bandalagið óttast að með þessu sé verið að stíga fyrsta skrefið í þá átt að afnema auglýsingaskyldu á störfum hjá hinu opinbera. Sé það virkilega stefna stjórnvalda verður að gera þá lágmarkskröfu að þau marki þá stefnu sína einungis að vandlega athuguðu máli, að verklagsreglur verði skýrar og að fullt samráð verði haft við samtök launafólks.

Fyrir hönd BSRB,

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri.



Fylgiskjal II.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Bandalag háskólamanna:

Umsögn um frumvarp til laga
um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.

(6. júní 2007.)