Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Þriðjudaginn 01. apríl 2008, kl. 15:02:41 (5858)


135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[15:02]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst að því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom að í ræðu sinni. Við undirbúning frumvarpsins í umhverfisráðuneytinu var fjallað um þörfina á því að fara í heildarendurskoðun á þessari löggjöf, hún liggur vissulega fyrir. Það varð hins vegar niðurstaðan að klára þessa þætti núna, ekki síst í ljósi þess að ég er þeirrar skoðunar að brýnt sé að koma því þannig fyrir að veiðiskýrslurnar séu komnar í hús 1. apríl þannig að úrvinnsla upplýsinga úr þeim dragist ekki fram á haust eða úr hófi, sem er hugsanlegt í núverandi kerfi. Það hefur í raun ár hvert valdið því, að mínu viti, að menn hafa verið með bollaleggingar um það hversu mikið hafi verið veitt t.d. á rjúpnaskytteríi fyrra árs. Menn hafa haldið ýmsu fram og upplýsingarnar ekki legið fyrir fyrr en kannski eftir á þegar búið var að taka ákvörðun um veiði yfirstandandi árs.

Það má kannski segja að með þessu móti sé gerð tilraun til að fjarlægja úr almennri umræðu hina árvissu deilu um stærð rjúpnastofnsins og veiðarnar á rjúpunni. Við munum að sjálfsögðu ekki sjá það strax hvort sú verður raunin en það er hins vegar von mín að þetta fyrirkomulag stuðli að betri og upplýstari ákvörðunum, og til þess er leikurinn gerður.

Hvað varðar gjaldtökuna, sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom inn á, þá er það einfaldlega svo að veiðikortakerfið var sett upp af núverandi hæstv. iðnaðarráðherra í upphafi tíunda áratugarins. Það hefur reynst vel og það verður með einhverju móti, ef við ætlum að hafa stjórn á veiðum eða stunda sjálfbærar veiðar og stýra þeim með einhverjum hætti, sem er nauðsynlegt, að sjá til þess að við höfum yfirsýn yfir veiðarnar og einnig að veiðimennirnir sjálfir, hvaða veiðar sem þeir stunda, hafi farið á námskeið, orðið sér úti um veiðikort og séu þátttakendur í því að vernda landið, séu þátttakendur í því að stunda sjálfbærar og góðar veiðar. Ég tel að þetta kerfi sé gott til þess. Þetta er kerfi sem t.d. Skotvís styður heils hugar. Vissulega má deila um upphæðirnar en eins og kom fram í framsöguræðu minni hefur gjaldið ekki hækkað síðan 2003. Af þeim kostnaði sem fylgir því að fara og skjóta hreindýr er 3.500 kr. fyrir veiðikort ekki stór hluti, ef menn á annað borð hafa efni á og vilja til að stunda þá tegund af veiðum. Í því samhengi held ég að við séum ekki að tala um óyfirstíganlegan kostnað fyrir þá sem eiga í hlut.

Ástæða þess að verið er að lögfesta heimild til að halda leiðsögumannanámskeið er sú að með því fáum við betri grundvöll fyrir að taka gjald fyrir slík námskeið. Það þarf að halda þau. Það er einfaldlega þannig að stétt leiðsögumanna á hreindýraveiðum er að eldast og ekki hefur orðið sú endurnýjun sem þarf að vera í stéttinni. Það er samt sem áður þó nokkur eftirspurn eftir því að komast á slíkt námskeið og fyllilega tímabært að koma því þannig fyrir að menn komist á námskeið og geti stundað leiðsögn um hreindýraveiðar ef þörf þykir. Menn þurfa einfaldlega að hafa leiðsögumann við þessar veiðar.

Ég hygg að ekki hafi fleira komið til tals hjá hv. þingmönnum en þetta mál er ekki stórt að vöxtum. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt og mér þætti vænt um ef hv. umhverfisnefnd tæki það til ég segi ekki snöggrar afgreiðslu en markvissrar og hraðrar.

Ég vil að lokum ítreka þau orð mín, vegna endurskoðunar á heildarlöggjöfinni, að ég er að vinna að því í umhverfisráðuneytinu að við getum farið í heildarendurskoðun bæði á þessari löggjöf og einnig á náttúruverndarlögunum. Það er kominn tími til að skoða þessa bálka og fara yfir þá. Það tekur allt sinn tíma en vonandi getum við hafið þá vinnu á þessu ári.