135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls.

516. mál
[17:11]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta var út af fyrir sig athyglisverð ræða. Ég held að það sé alveg rétt að við erum í dálitlum vandræðum með það hvernig nákvæmlega eigi að fara með kristfjárjarðirnar í löggjöfinni. Eins og við vitum voru þessar jarðir á sínum tíma gefnar guði og ætlunin var sú að afraksturinn af þeim rynni til fátækra.

Hér hefur það verið gert með þeim hætti að ráðstafa andvirði þeirra í gegnum sveitarfélögin og við vitum að þau hafa byggt upp kerfi framfærslu og stuðnings sem byggir m.a. á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þessi mál hafa verið rædd milli ráðuneytisins og þess sveitarfélags sem hér á í hlut, sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs, og ég veit að það sveitarfélag hefur uppi hugmyndir og skoðanir um það hvernig best væri að verja þessu fjármagni. Ég teldi eðlilegt og raunar einsýnt, án þess að ég eigi að hafa afskipti af starfsemi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, að leitað verði eftir viðhorfum sveitarstjórnarinnar um hvaða hugmyndir séu uppi þar um ráðstöfun þessara fjármuna. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að frumvarpið gerir ráð fyrir að þessi ráðstöfun sé háð samþykki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og sé samræmanleg hinum forna tilgangi kristfjárjarða. Það út af fyrir sig gefur nokkra leiðsögn. Það væri hins vegar alveg meinalaust af minni hálfu ef menn gætu komið sér niður á enn þá skýrara hugtak varðandi það hvernig ráðstafa eigi þessum fjármunum og það gæti verið verðugt verkefni fyrir nefndina að velta því aðeins betur fyrir sér. Við studdumst við lög sem voru samþykkt fyrir sex árum og lutu að ráðstöfun eða reyndar þá sölu kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi sem er annað sveitarfélag. Hér erum við ekki að tala um sölu jarðanna heldur erum við að velta fyrir okkur með hvaða hætti eigi að ráðstafa arðinum eða afrakstrinum af þessum jörðum sem guði almáttugum voru gefnar á sínum tíma.

Allt er þetta umræða sem verðskuldar að eiga sér stað og ég held að nefndin gerði að minnsta kosti vel í því að velta þessu vel fyrir sér og skoða þetta, m.a. með því að leita eftir þeim hugmyndum sem uppi eru af hálfu sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs um það hvernig með skuli fara og hvernig ráðstafa skuli þeim 20 milljónum sem hér er um að ræða.