Tekjuskattur og skattlagning kaupskipaútgerðar

Mánudaginn 07. apríl 2008, kl. 17:16:21 (6100)


135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[17:16]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er óþarfi að slást um það hver ljúki umræðunni, það er ekkert sérstakt atriði í dag hver gerir að. Þenslan eða umsvifin í þjóðfélaginu, alla vega að hluta til, eru af völdum aðgerða sem stjórnvöld hafa staðið fyrir. Það var markmiðið að auka umsvifin og hagvöxtinn og auka þannig kaupmáttinn og það hefur auðvitað sínar afleiðingar. En það eru fleiri atriði sem koma þar til og fleiri sem taka ákvarðanir og hafa þá áhrif á viðskiptahallann. Viðskiptahallinn var gríðarlega mikill á árinu 2006, hann var reyndar líka gríðarlega mikill á árinu 2007. Samt minnkaði hann um tvo fimmtu og mun halda áfram að minnka bæði vegna minni innflutnings en einnig vegna meiri útflutnings sem eru afleiðingar þess sem stjórnvöld hafa staðið fyrir.

Lántökur annarra aðila en ríkissjóðs, bæði einstaklinga og sveitarfélaga, eru hlutir sem aðrir en ríkið taka í meginatriðum ákvarðanir um. Eins og ég sagði áðan hafa tekjur sveitarfélaganna aukist hraðar og meira en tekjur ríkissjóðs og afkoma sveitarfélaganna hefur núna síðustu árin verið jákvæð og því er spáð að hún verði áfram jákvæð. Að einhverju leyti hafa sveitarfélögin því notið góðs af því ástandi sem hefur verið viðvarandi jafnvel þó að þau hafi, einhver, aukið skuldirnar en það hefur þeim þá verið í sjálfsvald sett að gera. Sama á við um einstaklingana, það eru þeir sem ákveða það þó að auðvitað geti einhverjir búið við aðstæður sem hafa neytt þá til þess en ekki allur obbinn, sem hefur þá með ákvörðunum sínum myndað stóran hluta viðskiptahallans og það hefur auðvitað að einhverju leyti haft að gera með vaxtastigið í landinu, vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa og þar með aðgengi að lánsfé fyrir einstaklinga í gegnum bankana.

Varðandi stöðu bankanna og skuldir þeirra og ummæli forsætisráðherra á aðalfundi Seðlabankans þá er það svolítið annað mál þó að auðvitað megi draga þá ályktun sem hv. þingmaður gerir að skuldir bankanna koma okkur öllum við og skuldir einstaklinga og sveitarfélaga koma okkur öllum við líka. Það kom fram í því samkomulagi sem ég gerði síðastliðið vor við sveitarfélögin að ef þau eru tilbúin til að taka upp fjármálareglur þá er ríkissjóður tilbúinn að koma að því að vinna með sveitarfélögunum að skuldum þeirra.

Skuldir bankanna eru svolítið annar kapítuli og vandamál bankanna svolítið önnur en hér um ræðir því að eignir þeirra hafa líka aukist. Það sem hefur verið að gerast á alþjóðlegum mörkuðum er að lausafé er ekki fyrir hendi í eins ríkulegum mæli eins og áður var. Það efast enginn um að bankarnir eigi fyrir skuldum sínum vegna sinna miklu eigna, bæði hér heima og ekki síður erlendis, en það er hin svokallaða lausafjárkreppa sem veldur því að menn hafa áhyggjur af þeim. Það er svolítið annað mál sem þar er um að ræða.