Endurskoðendur

Mánudaginn 07. apríl 2008, kl. 17:26:23 (6103)


135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

endurskoðendur.

526. mál
[17:26]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um um endurskoðendur. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga. Frumvarpið miðar að því að innleiða hér á landi 8. félagatilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga.

Einn helsti tilgangur tilskipunarinnar er að tryggja með betri hætti en áður að fjárfestar og aðrir hagsmunaaðilar geti reitt sig á störf endurskoðenda og að koma í veg fyrir fjármálamisferli innan Evrópusambandsins. Frumvarpið byggist í meginatriðum á tilskipuninni en auk hennar var við samningu frumvarpsins höfð hliðsjón af núgildandi löggjöf og norrænum rétti á sviði endurskoðunar. Innleiðing tilskipunarinnar hefur kallað á umfangsmikla endurskoðun núgildandi laga og reglna um endurskoðendur en lög nr. 18/1997, um endurskoðendur, hafa nánast staðið óbreytt frá því þau tóku gildi 1. júlí árið 1997. Í frumvarpinu felast töluverðar breytingar á núgildandi lögum og reglum um endurskoðendur en frumvarpið tekur til endurskoðenda og starfa þeirra.

Með frumvarpinu er leitast við að skýra skyldur endurskoðenda, reyna eftir fremsta megni að tryggja óhæði þeirra og bæta eftirlit með endurskoðendum og störfum þeirra. Í samræmi við framangreinda tilskipun er með frumvarpinu ráðgert að öll endurskoðun hér á landi fari fram í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla sem gefnir verða út af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp skylduaðild endurskoðenda að Félagi löggiltra endurskoðenda. Þar sem verkefni félagsins ná til allra endurskoðenda og lögbundið hlutverk félagsins verður aukið er talið nauðsynlegt að þeim sé gert skylt að vera félagar í Félagi löggiltra endurskoðenda. Félagið skal setja siðareglur, að fenginni staðfestingu ráðherra, sem öllum endurskoðendum er skylt að fylgja. Nái frumvarpið fram að ganga gegnir Félag löggiltra endurskoðenda jafnframt eftirlitshlutverki varðandi skráningu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja, endurmenntun og reglulegt gæðaeftirlit og að endurskoðandi uppfylli skilyrði til löggildingar. Í frumvarpinu er einnig að finna ítarlegri kröfur til endurmenntunar endurskoðenda og eru þær sambærilegar því sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Enn fremur er lagt til að allir endurskoðendur sæti reglubundnu gæðaeftirliti og gerðar eru auknar kröfur um óhæði endurskoðenda, sérstaklega gagnvart tilteknum lögaðilum sem taldir eru mikilvægir frá sjónarhóli almannahagsmuna. Hlutverk endurskoðendaráðs verður einnig aukið en hlutverk þess verður að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga, siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda. Til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs er lagt til að sérhver endurskoðandi greiði í ríkissjóð árlegt gjald að fjárhæð 50.000 kr.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar jafnframt á breytingar á lögum um ársreikninga og því er samhliða frumvarpinu lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um ársreikninga, með síðari breytingum.

Frumvarpið miðar að því að lögin öðlist gildi 1. janúar 2009 til samræmis við frumvarp til breytinga á lögum um ársreikninga.

Áætlað er að kostnaður ríkissjóðs við starf endurskoðendaráðs geti numið í kringum 10 millj. kr. en á móti komi jafnháar tekjur af eftirlitsgjaldi sem lagt er á endurskoðendur. Verði frumvarpið að lögum er áætlað að afkoma ríkissjóðs verði óbreytt.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.