Stimpilgjald

Mánudaginn 07. apríl 2008, kl. 18:16:07 (6115)


135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[18:16]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Stjórnarflokkarnir lofuðu því í upphafi stjórnarsamstarfsins að þeir mundu fella stimpilgjaldið niður. Við þingmenn Frjálslynda flokksins greiddum atkvæði … (Gripið fram í.) Já, það er náttúrlega alltaf spurningin um það, þá gilda náttúrlega kosningaloforð ekki neitt, hv. þm. Pétur Blöndal. Það er hægt að lofa einhverju upp í ermina á sér fyrir kosningar og gleyma því síðan að kosningum loknum og það er ykkur ákaflega tamt. (Gripið fram í.) Því var lofað að stimpilgjaldið yrði fellt niður. Við þingmenn Frjálslynda flokksins gerðum tillögu um það efni við afgreiðslu fjárlaga en aðrir voru ekki til að fylgja því eftir. Enn hefur ekkert orðið af efndum á þessu loforði en við gerð kjarasamninga milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands lofuðu talsmenn ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir að stimpilgjaldið yrði afnumið að hluta. Ríkisstjórnin ætlar að efna kosningaloforðið að hluta núna, samanber það frumvarp sem hér er til umræðu, en afganginn á sjálfsagt að bíða með þangað til hillir undir næstu kosningar til Alþingis. (Gripið fram í: Á þessu.) Á kjörtímabilinu, sem er venjulegast markað fjögur ár, skiptir máli hvenær hlutirnir og loforðin koma til framkvæmda og þegar það er gert á síðustu metrunum eða mánuðunum er náttúrlega staðið þannig að því að verið er að reyna að slá ryki í augu kjósenda eins og stjórnarflokkum er svo tamt að gera.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir er að mínu viti meingallað. Í fyrsta lagi vegna þess að þar er verið að setja ákveðnar reglur um að kaupendur að húsnæði í fyrsta skipti skuli vera undanþegnir stimpilgjaldi. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert en með því að gera það með þessum hætti, með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í frumvarpinu í töluliðum a–c, þá er verið taka upp mjög flókið eftirlitskerfi, eftirlitskerfi sem þinglýsingadómurum er ætlað að hafa eftirlit með og skoða. Þarna er verið að innleiða mjög flókna aðferð við þinglýsingu sem hætt er við að myndi ákveðna tregðu og erfiðleika við þinglýsingar þar sem menn hafa komið sér upp tiltölulega einföldu og auðveldu kerfi á síðustu árum. Það geta því orðið tafir og erfiðleikar fyrir utan það að þarna er iðulega um að ræða flókin og vandasöm úrlausnarefni sem á síðan að skjóta til ráðherra til skoðunar ef svo býður við að horfa.

Vandamálið er að í staðinn fyrir að þinglýsing skjala sé einföld aðgerð er verið að taka upp flókið kerfi, vandamál og rannsóknarefni sem þarf að kanna hverju sinni, sem gerir það að verkum að allt umhverfið verður mjög erfitt. Miklu eðlilegra og einfaldara væri að hafa þá reglurnar þær, og ég mundi mælast til þess að það yrði a.m.k. ekki gengið skemur en það, að stimpilgjald yrði fellt niður við kaup á íbúðarhúsnæði. Skipti þá engu máli hvort fólk væri að kaupa slíkt húsnæði í fyrsta, annað eða þriðja skipti. Á lífsleiðinni þarf fólk iðulega að skipta um húsnæði vegna þess að húsnæði hentar misvel fyrir einstaklingana. Fjölskyldustærðin er kannski í upphafi tiltölulega takmörkuð en síðan stækkar fjölskyldan og það kallar á annað húsnæði. Loks verður aftur breyting sem kallar á að enn sé skipt um húsnæði og þannig er þetta í lífinu, það er alltaf jafnmikil þörf til breytinga og var til kaupa á fyrsta húsnæðinu. Það skiptir líka máli að borgararnir eigi þess jafnan kost að þurfa ekki að hlíta þungri skattheimtu þegar þeir vilja gera ákveðna eignabreytingu. Þess vegna hefði verið mun skynsamlegra til að komast hjá þessu flókna eftirlitskerfi sem frumvarpið og innleiðing þessara laga kallar á að láta það gilda um íbúðarhúsnæði að stimpilgjöld væru ekki tekin af því sem fyrsta skref og lágmarksskref í að efna kosningaloforð ríkisstjórnarinnar. Ég tel að ekkert minna megi koma til og sé til þess fallið að einfalda hlutina og að venjulegt fólk komist þá hjá því að lenda í töluvert mikilli skattheimtu við íbúðarkaup.

Það verður einnig að skoða að stimpilgjaldið er að hluta til ósanngjarnt og mismunar þeim sem þurfa að greiða það. Þeir sem eru betur settir hjá lánastofnunum hafa möguleika á að undanþiggja sig 2/3 stimpilgjaldsins með því að taka tryggingabréf meðan aðrir þurfa að ganga frá veðskuldabréfum. Það er 0,5% stimpilgjald af höfuðstól tryggingabréfs en 1,5% af veðskuldabréfi og þarna er um gríðarlegan aðstöðumun að ræða á milli einstaklinga. Við íbúðarkaup fólks gildir það almennt að fólk greiðir 1,5% af höfuðstól lánsins og þegar lán er um 20 milljónir eða meira er þar um verulega fjárhæð að ræða og því skiptir máli að afnema þessa óréttlátu og úreltu skattheimtu.

Hvaða þýðingu hefur taka stimpilgjalds fyrir viðskiptalífið? Samkvæmt könnun sem gerð hefur verið hreyfa íslenskir neytendur sig mun minna á milli lánastofnana en gerist víða í nágrannalöndum okkar. Eitt af því sem þar var nefnt að skipti máli var hið háa stimpilgjald sem við höfum sem gerir það m.a. að verkum að fólk á í erfiðleikum með að taka hagkvæm lán. Það bjóðast hagkvæmari lánakostir en fólk hefur en þegar allt kemur til alls, uppgreiðsla, nýtt veðskuldabréf og greiðsla stimpilgjalds þá er hagræðið sem hugsanlega var fyrir hendi ekki lengur til staðar þannig að fólk heldur sig við sína lánastofnun og upphaflega lánið þó að það sé hugsanlega óhagkvæmara. Allt leiðir þetta til óhagræðis.

Sumir hafa haldið því fram að með því að fella niður stimpilgjaldið mundi það hugsanlega leiða til hækkunar á íbúðarverði. Svo kynni að hafa verið farið á einhverjum tíma, á þenslutímanum á árunum 2005, 2006 og 2007, en ég hygg að enginn lesi þannig í markaðinn að búast megi við því að niðurfelling stimpilgjalds af íbúðarhúsnæði leiddi til slíks á þeim tímum sem við búum við núna. Mun frekar er búist við því að sala á íbúðum dragist saman á tímabilinu og jafnvel að það verði verðlækkun á fasteignum. Það er alla vega það útlit sem gæti blasað við miðað við ýmsar aðrar stærðir í þjóðfélaginu. Í sjálfu sér væri það mjög óæskilegt, einkum með tilliti til þess að þau lán sem fólk almennt hefur eru bundin verðtryggingu og hækka hvað sem öðru líður í þjóðfélaginu. Um leið og tómatar eða gúrkur eða innflutt kornflex hækkar hækka lánin. Hvaða vandamál sem verða í veröldinni verða til þess, miðað við þessar aðstæður, að íslenskir lánþegar þurfa að greiða hærra afgjald af höfuðstól lána sinna. En það er í sjálfu sér annað mál. Stimpilgjaldið er gömul og úrelt skattheimta og það var þess vegna sem stjórnarflokkarnir og talsmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar töluðu um stimpilgjaldið með þeim hætti sem ég geri hér nú. Ég var þeim algjörlega sammála í kosningabaráttunni að þarna væri um úrelta skattheimtu að ræða sem fella bæri niður, það bæri að létta þessu oki af ungu fólki í landinu, það bæri að létta þessu oki af íbúðarkaupendum í landinu. Látum vera þó að það yrði fyrsta skrefið en ég tel að ekkert minna komi til greina.

Þá komum við að öðrum hlut sem er spurningin með hvaða hætti lögin eiga að taka gildi. Samkvæmt því sem segir í 2. gr. laganna eiga þau að öðlast gildi 1. júlí 2008 og taka til skjala sem gefin eru út eftir það tímamark, þ.e. eftir 1. júlí 2008. Ef við gefum okkur að þetta frumvarp verði að lögum, þess vegna í maí, liggur fyrir að það mundi myndast stífla eða stopp á fasteignamarkaðnum fram yfir 1. júlí 2008. Það hefði verið hægt að komast hjá þessum vanda með því að hafa ákvæðið með eftirfarandi hætti: Lög þessi öðlast þegar gildi. Að orða 2. gr. sem sagt þannig að lögin öðlist þegar gildi og nái til skjala sem gefin eru út frá tilteknu tímamarki sem væri t.d. 1. maí árið 2008 eða eitthvert annað, því að eins og fyrir liggur geta menn dregið það viðurlagalaust í tvo mánuði að ganga frá þinglýsingu og stimplun veðskjala og afsali kaupsamninga. Eðlilegra hefði verið að hafa frumvarpið með þeim hætti vegna þess að þá kæmi ekki til neinna vandamála í sambandi við fasteignakaup eða fasteignamarkaðinn. Það er því ósk mín til ráðherra og þeirrar nefndar sem fær frumvarpið til meðferðar að þetta verði skoðað með tilliti til þess að búa ekki til fyrirfarandi vandamál á fasteignamarkaðnum með því að haga gildistöku og tímamarki hvað varðar skjölin með þeim hætti sem lagafrumvarpið kveður á um.

Ég ítreka að mér finnst alvarlegasti ágallinn við frumvarpið vera hið flókna eftirlitskerfi sem kemur til með að fylgja þessum lögum og satt að segja velti ég því fyrir mér hvort einhver hagræðing sé fólgin í því fyrir ríkissjóð, þegar upp er staðið, að hafa frumvarpið með þessum hætti, að ná e.t.v. inn viðbótartekjum upp á 600–700 milljónir miðað við það að takmarka þetta við kaup á fyrsta íbúðarhúsnæði. Ég hef þessa tölu að vísu ekki á reiðum höndum, en að hafa ákvæðið þannig að láta þetta eingöngu ná til fyrsta húsnæðis og kalla þá yfir sig þetta eftirlitskerfi og öll þau vandamál sem því fylgja því, kostar líka peninga.

Það eru því eindregin tilmæli mín til stjórnarflokkanna og ráðherra að þeir geri þá nauðsynlegu breytingu á þessu lagafrumvarpi að stimpilgjald verði fellt niður algjörlega af kaupum á íbúðarhúsnæði þannig að það sama gangi yfir alla. Það eru sömu rök og sjónarmið sem gilda varðandi íbúðarkaup þeirra sem þurfa að standa í þeim, þ.e. almennings í landinu, að þeir gera það vegna þess að það er þörf á breytingum. Það er líka þjóðfélagslega mikilvægt að fólk sníði sér jafnan stakk eftir vexti en sé ekki knúið til þess að sitja hugsanlega í allt of stórum eignum eða eftir atvikum allt of litlum. Þess vegna tel ég að gera þurfi þá lágmarksbreytingu að stimpilgjöld verði felld niður af öllu íbúðarhúsnæði.