Stimpilgjald

Mánudaginn 07. apríl 2008, kl. 18:46:11 (6119)


135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[18:46]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Mér þykir afar leiðinlegt að valda hv. þm. Jóni Gunnarssyni vonbrigðum en ég sé núna hvert þessi misskilningur á rót sína að rekja, þ.e. hvers vegna hann taldi að hæstv. viðskiptaráðherra mundi mæla fyrir þessu frumvarpi. Það er auðvitað frá þingmönnum hv. viðskiptanefndar komið sem vildu fá málið til sín. Þeir gátu blekkt fjölmiðla en þeir gátu ekki blekkt þingsköpin.

Ég held að það sé alveg ljóst að hv. þm. Jón Magnússon var ekki viðstaddur umræðu um tekjuskattsfrumvarpið í dag og hlustaði ekki á ræðu hv. flokksfélaga síns, Kristins H. Gunnarssonar, sem hafði mestar áhyggjur af því að það væri ofílagt hvað varðar skattalækkanir og bar fyrir sig Seðlabankann í því efni. Hann sagði að þær skattalækkanir sem þar væru boðaðar mundu hafa neikvæð áhrif á þróun verðbólgunnar og tefja að vextir og verðbólga gætu lækkað. Það er einmitt ástæðan fyrir því að við viljum fara varlega í að lækka stimpilgjaldið og fara ekki alla leið í einu skrefi því að það er talsverð hætta á því að lækkun á stimpilgjaldi hafi áhrif til hækkunar á fasteignaverði. Við höfum séð hvernig fasteignaverð hefur þróast á undanförnum missirum og er raunverulega meginhluti þeirrar verðbólgu sem við höfum upplifað síðustu árin. Okkur er þess vegna beinlínis skylt að fara varlega þegar við gerum breytingar sem hafa áhrif á það hvernig fasteignamarkaðurinn þróast.

Það er líka beinlínis þversögn í því sem hv. þm. Jón Magnússon segir þegar hann telur að lækkun stimpilgjalds hafi ekki áhrif til hækkunar á fasteignaverði en telur hins vegar að það að gildistakan verði ekki samstundis geti leitt til stíflu á markaðnum. Í öðru orðinu segir hann að stimpilgjaldalækkunin hafi ekki áhrif en í hinu orðinu segir hann að hún hafi mikil áhrif. Eina atriðið í ræðu hans sem ég tel að við þurfum að athuga er hvort hægt sé að koma gildistökuákvæðunum öðruvísi fyrir þannig að ekki myndist stífla. Þegar verið er að gera breytingar eins og þessar þá verða þær að taka gildi á einhverjum tilteknum tíma og oft þarf einhvern undirbúning eins og er í þessu tilfelli. Ég held að við værum sennilega að gera mistök ef við reyndum að gera þetta of fljótt. Jafnvel þótt ég telji að það kerfi sem við þurfum að undirbúa verði tiltölulega einfalt og muni þegar það er farið af stað ekki valda neinni tregðu — það er reyndar í öllum meginatriðum þegar til staðar — þá þarf samt sem áður að undirbúa það.

Hv. þm. Pétur Blöndal fór ítarlega yfir málið og gerði grein fyrir stöðu þess í ljósi efnahagsumræðunnar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór hér einnig ágætlega yfir málin. Honum var tíðrætt um kosningaloforðin og efndir þeirra. En eins og fram kom hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni er kannski ekkert skrýtið — þó að ég viðurkenni kannski ekki mælingar eða mælingaraðferðir hv. þingmanns varðandi 1/4 af kosningaloforðunum — þá er það kannski ekkert skrýtið að búið sé að efna 1/4 af þeim nú þegar fjórðungur af kjörtímabilinu er brátt liðinn. (Gripið fram í.) Hugmynd hv. þingmanns var svo sem líka áhugaverð, um að hægt væri að lækka gjaldið í áföngum. Þá ætti kannski að byrja á því að lækka það um 1/4, það væri kannski í takt við málflutning hv. þingmanns í þessu efni.

Ég held hins vegar að við séum að stíga mikilvægt skref hér. Ég er sömu skoðunar og hv. þm. Pétur Blöndal um að stimpilgjaldið er ekki góður skattur, það hefur galla en það er ekki sama hvernig staðið er að því að leggja það niður. Við höfum séð hvaða áhrif það hefur að gera miklar breytingar á íbúðarlánunum og hvaða áhrif það hefur á fasteignamarkaðinn. Að leggja niður stimpilgjaldið getur undir ákveðnum kringumstæðum verið beinlínis stórhættulegt og mjög óráðlegt á fasteignamarkaðnum en undir öðrum kringumstæðum getur lækkun eða niðurfelling stimpilgjaldsins verið nákvæmlega það sem fasteignamarkaðurinn þarf til þess að koma í hann lífi. Þess vegna held ég að við eigum frekar að eiga það inni síðar á kjörtímabilinu að stíga frekari skref í þessum efnum sem hafa þá tilætluð og jákvæð áhrif en ekki neikvæð.

Það er vissulega rétt sem komið hefur fram, bæði hér í umræðunum og fyrr í dag, að það eru ýmsar blikur á lofti um hvernig efnahagskerfið þróast, þar með fasteignamarkaðurinn. Þess vegna hef ég minni áhyggjur af því að gera þessa breytingu en ég hefði haft fyrir t.d. ári síðan. Ef við tökum stöðu ríkissjóðs — og það var kynnt í vefriti ráðuneytisins í síðustu viku — þá eru tekjur ríkissjóðs á fyrstu tveimur mánuðum ársins umfram áætlanir og útgjöldin undir áætlunum. Þannig að staða ríkissjóðs er sterk og ljóst er af þeim tölum að á fyrstu tveimur mánuðum ársins hefur ekki hægt á hjólum atvinnu- og efnahagslífsins. Það sem hugsanlega hefur gerst í þeim efnum hefur þá átt sér stað á síðustu þremur, fjórum vikum og við erum ekki búin að fá tölur um það þannig að enn þá er ástæða fyrir okkur til þess að fara varlega í þessum efnum.