Stimpilgjald

Mánudaginn 07. apríl 2008, kl. 18:58:26 (6121)


135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[18:58]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir líka leiðinlegt að valda hv. þm. Jóni Magnússyni vonbrigðum en það kemur mér bara ekki eins mikið á óvart eins og að ég skyldi valda hv. þm. Jóni Gunnarssyni vonbrigðum. Ég er hins vegar ánægður með að hann skyldi fylgjast vel með umræðunum í dag en auðvitað kemur það mér svolítið á óvart að hann skuli vera eins ósammála flokksfélaga sínum, hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, og Seðlabankanum og raun ber vitni.

Það er líklegt að orðinn sé samdráttur á fasteignamarkaðnum miðað við það sem verið hefur undanfarin missiri enda mátti kannski líka minna vera. Það getur vel verið að þessi umræða og bið manna eftir því að stimpilgjöldin verði felld niður á fyrstu íbúðum hafi áhrif á það og það sé þegar farið að koma fram í einhverri stíflu. Eins og ég segi þá treysti ég nefndinni til þess að skoða hvernig hægt er að standa betur að gildistöku laganna.

Hins vegar varðandi að gera þetta í áföngum — eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson lagði til þá talaði hann sjálfur um það hér fyrr í dag hversu erfitt það væri fyrir unga fólkið að kaupa sína fyrstu íbúð. Það væri eitt helsta vandamálið sem væri uppi á markaðnum. Fyrirkomulagið er með þessum hætti til að bregðast við því vandamáli sérstaklega. Ég man reyndar líka eftir þessari vinstri stjórn sem hv. þingmaður minntist á og hvernig henni tókst til með sín mál og vonandi förum við ekki í fótspor hennar. En ég hafna því sem fram kom hjá hv. þingmanni að við séum að búa til eitthvert flókið kerfi. Þetta kerfi er þegar til staðar og á að geta virkað tiltölulega vel og einfaldlega strax frá byrjun þegar það hefur verið undirbúið.