Stimpilgjald

Mánudaginn 07. apríl 2008, kl. 19:00:28 (6122)


135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:00]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er verið að búa til flókið eftirlitskerfi. Það er m.a. orðað svo í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra að búa eigi til flókið eftirlitskerfi. Það er orðað þannig og fjallað um hvaða gagna þurfi að afla. Það er nú einu sinni þannig að í dag gengur þetta greiðlega og hindrunarlaust fyrir sig. En samkvæmt frumvarpinu sem ráðherra leggur sjálfur fram, samkvæmt greinargerðinni, liggur fyrir að búa á til flókið eftirlitskerfi, kerfi sem gerir það að verkum að þinglýsingar verða erfiðar. Þær gangi ekki jafngreiðlega fyrir sig eins og nú er um að ræða. Það er til verulegs tjóns. Fólki liggur iðulega á að fá þinglýst veðskjölum, afsölum og kaupsamningum. Það leiðir til þess að stórfjölga mun þeim sem vinna við þinglýsingar og stimplun skjala.

Þrátt fyrir þá ógæfu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lent í varðandi aukna skattheimtu á því allt of langa stjórnartímabili sem hann hefur tekið þátt í, þar sem skattar hafa hækkað meira en í nokkru öðru OECD-ríki og ríkisstarfsmönnum fjölgað meira en á nokkru tímabili í Íslandssögunni, hygg ég að það sé ekki það sem hæstv. fjármálaráðherra vill stefna að, að fjölga ríkisstarfsmönnum enn frekar. Það á að fara þessa óheppilegu og ógæfulegu leið til að efna hluta af kosningaloforðunum.

Ég hygg að betra væri fyrir hæstv. fjármálaráðherra að horfa skynsamlega á hlutina og reyna að gleðja mig eins og samflokksmann sinn hv. þm. Jón Gunnarsson. Hann ætti að skoða þá skynsemi sem er í því að afnema stimpilgjald með öllu af íbúðarkaupum almennings í landinu. Það er held ég ekki minni krafa sem við verðum að gera. Það er krafa um að bregðast við þeim samdrætti sem er að verða í þjóðfélaginu. (Forseti hringir.)