Stimpilgjald

Mánudaginn 07. apríl 2008, kl. 19:07:01 (6124)


135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:07]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kallaði eftir þingmönnum stjórnarandstöðunnar þá verð ég að svara því, enda ekki aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar í salnum.

Það er einhvern veginn þannig með þá sem hafa tileinkað sér umræðustjórnmál, þ.e. samfylkingarmenn eins og hv. þm. Lúðvíki Bergvinsson, að þeim tekst að velta því fyrir sér og fara fram og til baka í því hvort um væri að ræða þensluskeið eða samdráttarskeið. Hv. þingmaður endaði með því að segja að samdráttarskeið kynni að vera fram undan og við því séu menn að bregðast. Á sama tíma talar hæstv. fjármálaráðherra um að ýmislegt horfði til betri vegar þótt Seðlabankinn héldi allt öðru fram.

Síðan segir hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að það verði að bregðast við blikum í efnahagslífinu og það sé gert með þessu frumvarpi. En það er bara rangt. Það er sko alls ekki brugðist við neinum blikum í efnahagslífinu nema — jú, það er kannski sannleikskorn í því. Það er verið að bregðast við þeim blikum að það var spurning hvort það næðist friður á vinnumarkaðnum eða ekki. Ríkisstjórnin lofaði Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands að efna hluta af kosningaloforðum sínum. Hún spilaði því út til að greiða fyrir samningum. Þess vegna er þetta frumvarp flutt. Ekki vegna þess að ríkisstjórnin hefði ætlað að gera það að öðrum kosti heldur var það til að greiða fyrir samningum.

En það eru blikur á lofti og þess vegna er gengi íslensku krónunnar óstöðugt. Það er þess vegna sem hlutabréf hafa fallið mikið frá áramótum og svo má áfram telja. Það eru blikur á lofti.